Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 16:22:29 (3731)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins staðfesta að það er rétt sem hv. þm. sagði að það eru horfur á því að útgjöld sjúkratrygginga vegna lyfjakostnaðar reynist á þessu ári um 400 millj. kr. meiri eða rúmlega það heldur en fjárlög gerðu ráð fyrir.
    Ástæðan fyrir því er tvíþætt. Í fyrsta lagi var fjárlagaáætlunin gerð í nóvember og desembermánuði á sl. ári þar sem fyrir lá að sparnaður hins opinbera í lyfjakostnaði hafði orðið mjög mikill á því ári, um 550 millj. kr. á rúmlega sex mánaða tímabili, og menn gerðu ráð fyrir því að þau áhrif mundu halda áfram í svipuðum mæli út árið 1992. Svo hefur hins vegar ekki reynst vera þannig að þær aðgerðir sem gripið var til um mitt ár 1991 skiluðu ekki jafnmiklum varanlegum árangri og virtist vera í árslokin. Þær skiluðu mjög miklum árangri til að byrja með en síðan dró úr þeim.
    Í öðru lagi er skýringin sú að hlutfallsgreiðslukerfið sem átti að koma 1. apríl tók ekki gildi fyrr en á síðustu mánuðum ársins. Við metum það í heilbrrn. að það hafi kostað okkur í kringum 150 millj. kr.
    Hv. þm. spurði til hvaða ráða yrði gripið. Það verður m.a. gripið til þeirra ráða að í gær lauk fundi lyfjaverðlagsnefndar þar sem tekin var afstaða til tveggja tillagna um lækkun á álagningu í heildsöluverði. Um er að ræða tillögur um lækkun á heildsöluálagningu sem nema um það bil 4% eða rúmlega það sem er um 18% lækkun á heildsöluálagningu á lyfjum. Þessar tvær tillögur þar að lútandi voru afgreiddar á lyfjaverðlagsfundi. Um þær varð ágreiningur. Ágreiningi skal samkvæmt lögum skjóta til heilbrrh. Það mál liggur nú til úrskurðar á mínu borði og úrskurður verður gefinn í dag eða á morgun. Engu að síður er ljóst nú þegar að ákvörðun verður tekin í þá veru að álagning í lyfjaverslun, virðulegi forseti, verður lækkuð allverulega þannig að þar munu sparast verulegar fjárhæðir. Auk þess munum við grípa til þeirra ráðstafana sem frv. til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleira gera ráð fyrir.