Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 16:25:19 (3732)

     Frsm. minni hluta fjárln. (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þær upplýsingar sem hann gaf við þeim vangaveltum sem ég var áðan með um það hvernig ætti að ná þeim mörg hundruð milljónum króna, ég hygg að það muni vera um 600 millj. kr., sem fjárlagafrv. fyrir næsta ár, eins og það liggur nú fyrir, og þessi millifærsla yfir áramót knýr hæstv. ráðherra til að ná á næsta ári.
    Að vísu vantaði það að hæstv. ráðherra gerði okkur frekari grein fyrir því hvaða upphæðir væri hér um að ræða. En eins og hann sagði er málið mjög nýtt, ef það má orða það þannig. Ef endanlegar ákvarðanir hafa kannski ekki verið teknar enn en unnið að málinu í gær og það í athugun þessa dagana þá geri ég mér auðvitað grein fyrir því að það tekur einhvern tíma að fá í þetta niðurstöðu og sjá til hvers það kann að leiða.
    Ég lýsi ánægju minni með ef það tekst að lækka lyfjaverðið því mér finnst að það hafi nokkuð vantað í aðgerðir hæstv. ráðherra hingað til að knýja fram skipulagsbreytingar, að knýja fram breytingar hvað varðar skipulagsmálin, lækka verðið á lyfjunum og gera breytingar sem þannig hafa áhrif. Aðgerðirnar hafa meira miðast við að senda reikninginn til neytendanna, til þeirra sem hafa notað lyfin og þeirra sjúku sem hafa þurft á þeim að halda, gera breytingar í þá veru frekar en það að ráðast beinlínis að þessu skipulagi og m.a. að knýja niður verð. Ég fagna því þess vegna ef hér eru að gerast verulegar breytingar hvað það varðar þó við vitum ekki hvaða upphæðir þar kunna að vera á ferðinni.