Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 16:27:26 (3733)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Til allrar hamingju eru það ekki um eða yfir 600 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að lækka útgjöld vegna lyfjakostnaðar á næsta ári, heldur milli 430 og 450 millj. og eru þá reiknaðar með þær u.þ.b. 200 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að þurfi að flytjast yfir frá árinu 1992 til ársins 1993. Þarna er því um að ræða útgjaldalækkunarvanda upp á 430--450 millj. kr. og það er svo sem alveg nóg.
    Í öðru lagi reikna ég með að verði niðurstaðan sú að ég fallist á þær tvær tillögur sem til úrskurðar eru á mínu borði, þá verði lækkunaráhrif vegna álagningar eitthvað á annað hundrað milljónir kr.
    Í þriðja lagi er það ekki heldur rétt að aðgerðirnar hafi einvörðungu beinst að því að hækka hlutdeild sjúklinga. Hlutdeild sjúklinga hefur þrátt fyrir allt ekki verið hækkuð nema úr 18% upp í 24--25% þannig að sparnaðurinn, sem orðið hefur á einu og hálfu ári upp á yfir 1.200 millj. kr., hefur ekki síður orðið vegna þess að áhrifin af þessum aðgerðum hafa orðið til þess að lyfjaneysla hefur verulega breyst. Menn hafa farið að nota ódýrari lyf þar sem þau gera sama gagn og þau dýrari. Kostnaðurinn hefur því lækkað bæði fyrir þjóðina í heild, fyrir Tryggingastofnun ríkisins og fyrir þá einstaklinga sem hlut eiga að máli. Það er auðvitað einn mikilvægasti árangur þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til.