Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 17:26:00 (3743)


     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Frú forseti. Mér er fullkunnugt um það að afli hefur dregist saman og ég hef hitt nógu margt fólk í sjávarplássum landsins og farið þar um til þess að heyra hvaða sýn það hefur til þessara mála. Hins vegar er gegnumgangandi í viðræðum þeirra við þingmenn og vonandi bæði við hv. stjórnarliða og stjórnarandstæðinga að þetta fólk vill aðgerðir til þess að styrkja stöðu sjávarútvegsins og halda honum gangandi, en það er ein höfuðsynd þessarar ríkisstjórnar að hún hefur látið það undir höfuð leggjast og ætlað þessum atvinnuvegi að búa við þennan samdrátt og slæmar ytri aðstæður í gengi í heilt ár án þess að bregðast við með viðhlítandi hætti. Þetta er ein ástæðan fyrir því hvernig komið er, auk þess sem ég nefndi áðan. Mér er alveg fullkunnugt um það að aflasamdráttur hefur verið og m.a. þess vegna erum við í þessum vanda enda nefndi ég það í minni ræðu þannig að það er alveg fullljóst hvaða álit ég hef á því.