Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 17:27:49 (3744)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Reykn. og formaður fjárln. gerði í ítarlegri ræðu grein fyrir brtt. sem fluttar eru við frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1992 og ræddi í ítarlegu máli þau atriði sem koma fram í nál.

og skýringum með brtt. sem fluttar eru við þessa umræðu. Ég mun því ekki fara í einstök atriði heldur ræða almennt um það sem hér er til umræðu en það er óhjákvæmilegt vegna þeirrar umræðu sem hefur farið fram og vegna þeirra sem hér hafa talað af hálfu stjórnarandstöðunnar að minna ögn á það og ekki síst hv. þm. sem tala fyrir hönd Framsfl. að ábyrgð þeirra er býsna mikil sem báru ábyrgð á þeirri stjórnarstefnu, sem hér var síðasta kjörtímabil og reyndar lengur, sem hefur m.a. valdið þeim vanda sem er í sjávarútvegi. Ég verð að viðurkenna það að mér finnst það mikil kokhreysti af þingmönnum Framsfl. að tala með þeim hætti sem hér hefur verið gert eins og ríkisstjórnin hafi verið í áratugi við völd.
    Vissulega er mikið áhyggjuefni að svo mikill halli er á fjárlögum eins og raun ber vitni, en það er einmitt þess vegna sem við m.a. í störfum fjárln. þingsins höfum lagt svo mjög mikla áherslu á það að draga úr ríkisútgjöldum með öllum tiltækum ráðum. Það ber vissulega að taka þeim ábendingum, sem hér hafa komið fram um að það þurfi að taka á í ríkisfjármálunum, og ég tel að tillögur sem liggja fyrir í þinginu núna beri þess vott að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir leggja mikla áherslu á að draga úr halla ríkissjóðs.
    En þegar litið er á það hvaða liðir það eru sem einkum er verið að fjalla um í frv. til fjáraukalaga þá eru auðvitað háar upphæðir, eins og greiðslur vegna búvöruframleiðslu upp á 615 millj., ríkisábyrgð á laun 76 millj., Atvinnuleysistryggingasjóður ríflega 700 millj. og niðurgreiðslur upp á 300 millj. Þetta eru viðfangsefni sem er óhjákvæmilegt að fást við og ekki séð að margar leiðir hafi verið frá því að taka þessa liði inn í frv. til fjáraukalaga.
    En ég vil nefna í brtt. einkum og sér í lagi tvo liði. Annars vegar framlög til Búnaðarfélagsins upp á 24 millj. og 100 þús. Eins og kom fram í ræðu hv. formanns fjárln. er þar um að ræða greiðslur vegna lífeyrisskuldbindinga starfsmanna búnaðarfélaga. Þetta er fjárveiting, sem er vegna margra ára uppsafnaðs vanda, og var mjög mikilvægt að taka þetta inn og tryggja þessar lífeyrisgreiðslur. Á sama hátt var um að ræða 19 millj. kr. fjárhæð vegna jarðræktar- og búfjárframlaga og með sama hætti er þar um að ræða fjárhæð sem er afar mikilvægt, ekki síst þegar litið er til þeirrar stöðu sem íslenskur landbúnaður er í, að taka inn í fjáraukalög og ganga frá þessum greiðslum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna nú en vil ítreka það sem ég sagði fyrr að það er afskaplega mikilvægt að þingmenn leggi sig alla fram um það að vinna að því sem best að halli sé sem minnstur á fjárlögum ríkisins, með því tryggjum við og treystum framtíðina í landinu.