Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 17:33:48 (3745)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. sagði í ræðu sinni að það væri mikil kokhreysti af framsóknarmönnum að tala um þessi mál á þann hátt sem ég gerði og við ræðumenn Framsfl. við þessa umræðu. Ég vil minna hv. 1. þm. Vesturl. á það að þegar fyrrv. ríkisstjórn fór frá þá hafði eiginfjárstaða í fyrirtækjum í sjávarútvegi styrkst mjög. Sú eiginfjárstaða hrundi á síðasta ári. Sú ríkisstjórn, sem nú situr, talaði mikið um fortíðarvanda, hún sat næstum því auðum höndum í heilt ár og talaði um fortíðarvanda. En hún sat ekki alveg auðum höndum. Hún lengdi lán í Atvinnutryggingarsjóði sem var einn sjóðurinn af sjóðasukkinu sem hún sagði að væri frá fyrrv. ríkisstjórn. Ég skal láta hana njóta sannmælis. Hún gerði annað. Hún greiddi út úr Verðjöfnunarsjóði, sem hafði safnast upp í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, hún tæmdi sjóðinn en hún getur náttúrlega ekki tæmt hann aftur. En heilt ár sat þessi ríkisstjórn auðum höndum og lifði á fortíðarvandanum. Þetta eru staðreyndir málsins og ég vil minna hv. 1. þm. Vesturl. á þetta fyrst hann er að tala um að það sé kokhreysti í okkur framsóknarmönnum að tala um viðskilnað fyrri ríkisstjórnar. Núv. ríkisstjórn hefur lifað á þessum viðskilnaði fram að þessu.