Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 17:38:19 (3748)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Af því að í ræðu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar kom fram söguleg skýring á stöðunni í sjávarútveginum er óhjákvæmilegt að rifja það upp að meginorsök erfiðleika í sjávarútvegi á Íslandi hefur orðið í tíð Sjálfstfl. í ríkisstjórn og fyrir tilverknað hans byggðum á hugmyndafræðilegum kreddum sem leynast í þeim flokki og ráða ríkjum. Það var í tíð Sjálfstfl. sem menn þutu upp með vextina árið 1984 og þrefölduðu raunvextina á einu bretti og þar hafa þeir hangið uppi síðan í meginatriðum. Það var í tíð Sjálfstfl. sem menn héldu genginu föstu og skópu milljarða skuldir fyrir sjávarútveginn. Þetta er vandamálið í hnotskurn. Helsta vandamál sjávarútvegsins á Íslandi heitir Sjálfstfl. Nú hefur Sjálfstfl. fundið ráð til þess að skera sig sjálfan niður úr snörunni og það er að láta sjávarútveginn sjálfan borga sínar eigin skuldir og stofna sérstakan þróunarsjóð sem á að fara að úrelda byggðarlög hér á landi. Þetta er stefna Sjálfstfl.