Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 17:43:49 (3754)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Vesturl. fyrir að taka upp þessi mikilvægu almennu efnahagsmál í umræðunni. Það getur kannski orðið til þess að menn noti tímann, sem er bersýnilega nægur að mati talsmanna ríkisstjórnarinnar, forustumanna þingflokka ríkisstjórnarflokkanna hér, til þess að fara aðeins yfir stöðuna í efnahags- og atvinnumálum og þá þróun sem hefur verið að ganga yfir að undanförnu. Hver ætli sé ástæðan fyrir þeim mikla vanda sem við er að glíma t.d. í sjávarútvegsmálum? Auðvitað er hún að nokkru leyti utanaðkomandi, auðvitað er hún að nokkru leyti óviðráðanleg. Enginn hefur haldið öðru fram og það er ómerkilegur barnaskapur að halda því fram, eins og t.d. hv. formaður fjárln. gerði, að við stjórnarandstæðingar tölum eins og enginn annar vandi sé til. Auðvitað vitum við það og við þekkjum það. Stjórnarliðið þekkir hins vegar ekki vanda atvinnuveganna, stjórnarliðið er bara upptekið af einu höfuðvandamáli. Það vandamál heitir, eins og hæstv. utanrrh. sagði, ríkisfjármál. Þegar talað er um sjávarútveginn þá segir utanrrh.: Ríkisfjármál. Þegar talað er um sjávarútveginn þá segir Sjálfstfl.: Ríkisfjármál. Hvernig er staðan í þeim efnum núna? Hvað eru þessir miklu leiðtogar sparnaðar hjá ríkinu að gera um þessar mundir? Velferðarþjónustan er skorin hrottalega niður. Það er verið að skera stórkostlega niður heilsugæslu, sjúkrahús og skóla. En á sama tíma eru þessir menn að gera tillögur um að byggja monthús fyrir Hæstarétt fyrir 100 millj. kr. Hvar er niðurskurðarviljinn þegar kemur að slíkum hlutum af hálfu þessara aðila? Ég tel að áhugi þessara manna á að spara fyrir ríkissjóð sé enginn þegar þeir gera tillögu um það og pína í gegnum stjórnarflokkana að á samdráttartímum verði byggt monthús fyrir Hæstarétt upp á 100

millj. kr. ( Gripið fram í: Þetta er ómerkilegt.) Þetta er nákvæmlega hárrétt, hv. þm., og ég sé það á hv. þm., með leyfi forseta, að þingmaðurinn blygðast sín að ég segi ekki skammast sín fyrir það að hann er að pína í gegnum stjórnarflokkana tillögu um að það verði byggt monthús fyrir Hæstarétt fyrir 100 millj. kr. Auðvitað ættu þessir miklu sparnaðarmeistarar ríkissjóðs að skammast til að gera tillögu um það núna að hætta við að byggja monthús fyrir Hæstarétt. En það er ekki svo.
    Síðan koma menn eins og hv. 1. þm. Vesturl. og eru með kenningar um að allur vandinn í efnahagsmálum sé einhverjum tilteknum stjórnmálaflokki að kenna. Auðvitað ber t.d. Framsfl., sem hér var nefndur, mjög mikla ábyrgð í þessu efni. Ég tel að hann beri t.d. mjög mikla ábyrgð á þeim niðurstöðum sem urðu í vaxtamálum 1984, þegar vextirnir voru gefnir frjálsir í ágúst 1984, en það gerðist eins og kunnugt er í tengslum við ákveðnar ráðstafanir í sjávarútvegi. Ég tel að Framsfl. eigi þar mjög ljóta sögu. Það er ekki nokkur leið að neita því. Ég tel að vissulega sé hægt að halda því fram að enginn stjórnmálaflokkanna hafi ráð undir rifi hverju sem leysi hvern vanda í þessum málum. En að hv. formaður fjárln., sem kemur af versta atvinnuleysissvæði landsins, skuli leyfa sér eftir þær umræður sem fóru hér fram í þinginu í dag við hæstv. félmrh. að belgja sig út og ráðast á stjórnarandstöðuflokkana fyrir það ástand sem nú er um að ræða --- hvað hafa þessir aðilar gert, Alþfl. og Sjálfstfl.? Staðreyndin er sú að við stöndum núna frammi fyrir mesta atvinnuleysi sem þekkist í sögunni. Eru þeir montnir af því? Eru þeir stoltir af því að fimm þúsund manns eru á atvinnuleysisskrá? Hvað hafa þeir reynt að gera? Þeir hafa eytt þeim sjóðum sem voru til og skildir eftir af fyrrv. ríkisstjórn. Það eru afrekin. ( Gripið fram í: Voru þeir í menntmrn.?) Meðal annars í menntmrn. Já. Vegna þess að sjóðir eru ekki aðeins mældir í krónum og aurum heldur líka í þeim verðmætum sem felast í andlegu atgervi menntunarinnar, þess unga fólks sem er í skólakerfinu í landinu og þið eruð að leika ykkur að að brjóta niður. Hér var í dag mælt fyrir frv. til laga um að eyðileggja grunnskólalögin. Halda því áfram á næsta og þarnæsta ári. Þetta eru þau afrek sem þið eruð að skilja eftir. Og að þið skulið síðan koma í þeirri stöðu þegar forustumenn . . .   ( Forseti: Nota rétt ávarp, hv. þm.) Ég sagði þið. Að þessir hv. þm. skuli við þessar aðstæður koma og leyfa sér að setja hlutina upp með þessum hætti á sama tíma og forustumenn þingflokka stjórnarflokkanna hafa gert tilraunir til þess núna um nokkurt skeið að ná einhverri eðlilegri lendingu í meðferð mála það sem eftir er þingsins. Hvað nota menn þá? Umræður um fjáraukalög fyrir árið 1992 til að þenja sig um efnahagsmál almennt eins og hv. 1. þm. Vesturl. gerði hér áðan. Réðst að einstökum stjórnmálaflokkum með býsna sérkennilegum hætti. Þetta gengur auðvitað ekki. Þetta eru ekki heiðarleg vinnubrögð.
    Staðreyndin er auðvitað sú, virðulegur forseti, að það sem hefur verið að fara úr böndunum í íslensku efnahagslífi stafar fyrst og fremst af frjálshyggjunni sem Sjálfstfl. og Alþfl. bera ábyrgð á. Frjálshyggjan gengur út á það að peningarnir eiga að ávaxta sig þar sem þeir gefa af sér arð sem skjótast, hvar sem það er. Það er auðvitað alveg augljóst mál að peningar skila ekki endilega mestum arði vestur í Stykkishólmi eða á Bíldudal eða í Búðardal eða á Skagaströnd. Þeir skila yfirleitt mestum arði í versluninni hér. Í innflutningnum og verðbréfaviðskiptunum hér. En það má ekki skerða hár á höfði þess frelsis því að það væri að brjóta reglurnar, grundvallarreglur frjálshyggjunnar sem þessir menn hafa leitt til öndvegis á öllum sviðum í íslenska þjóðfélaginu. Svo koma þeir hingað og ráðast að einstökum stjórnmálaflokkum í umræðum um fjáraukalög. Vitaskuld er þetta meginvandinn. Vitaskuld er þetta sá vandi sem er að ganga frá velferðarkerfinu vegna þess að herkostnaður frjálshyggjunnar er að brjóta velferðarkerfið á bak aftur. Peningarnir sem frjálshyggjan sogar til sín, sem vaxtaokrið sogar til sín, þeir peningar verða ekki notaðir aftur til að borga kaup. Þeir peningar verða ekki notaðir aftur til að borga fyrir kennslu í skólum. Þeir peningar verða ekki notaðir aftur til að halda uppi heilsugæslu og sjúkrahúsarekstri í þessu landi. Ónei, frjálshyggjan heldur fast utan um sitt.
    Staðreyndin er sú að í öllum þeim umræðum sem fram hafa farið um efnahags- og atvinnumál hér á Íslandi núna á undanförnum vikum og mánuðum hefur það ævinlega verið svo að þegar kemur að því að skerða hár á höfði frjálshyggjunnar þá stökkva varðhundarnir fram fyrir dyrnar og segja: Nei, ónei, það má ekki, það má ekki, af því að það skerðir hin miklu og frjálsu lögmál. Af þeim ástæðum er það sem þessir miklu leiðtogar efnahags- og atvinnumála á Íslandi hafa ekki haft kjark til að sækja peninga með skatti á fjármagnstekjur. Þeir hafa ekki gert það. Þeir hafa ekki kjark til þess. Þeir hafa ekki haft kjark til að leggja skatta á hátekjur. Þeir hafa ekki haft kjark til að leggja skatt á stóreignir eins og var t.d. megintillaga Alþfl. fyrir nokkru. (Gripið fram í.) Það er út af fyrir sig rétt að það var ekki lagt á í tíð síðustu ríkisstjórnar ef hv. þm. á við það en ég bendi honum á ef hann hefur ekki skilið það að vandinn er alvarlegri nú en nokkru sinni fyrr. Þess vegna er réttlætanlegra nú en nokkru sinni fyrr að ganga hart fram í því að jafna að sækja peninga til stóreignamanna, hátekjumanna og þeirra sem eru að hirða fjármagnsgróðann. En það gerið þið ekki. Frekar horfið þið á fimm þúsund atvinnuleysingja sem hafa aldrei verið fleiri á Íslandi og eru á ykkar ábyrgð og þeirrar stefnu sem þið eruð að reka. Svo komið þið hér upp eftir þessi miklu afrek ykkar, hv. þm., og ráðist að einstökum stjórnmálaflokkum fyrir að þeir beri ábyrgð á öllu þessu sem núverandi stjórnarflokkar bera einir alla höfuðábyrgð á eins og staðan hefur verið að þróast. Svo ganga þessir hv. þm. fram fyrir þjóðina og segja: Það þarf að spara hjá ríkissjóði en samt ætla þeir að byggja monthús yfir Hæstarétt upp á 100 millj. kr. Það er ekki vottur, ekki milligramm, hæstv. forseti, af heilindum í þessum málflutningi.