Umboðssöluviðskipti

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 17:56:40 (3756)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Mér skilst að um nokkurt skeið hafi átt að ræða málið Evrópskt efnahagssvæði. Mér skilst að hæstv. viðskrh. eigi að vera í fyrirsvari fyrir ríkisstjórnina í því máli. Mér hefur einnig skilist að hann hafi með þetta mál að gera sem hér er tekið á dagskrá. Mér finnst dálítið sérkennilegt að þegar umræða hefur átt að fara fram um Evrópskt efnahagssvæði nú um nokkurt skeið hafi þessi ráðherra, sem hefur verið í fyrirsvari, ekki látið sjá sig. Er það svo, virðulegur forseti, að það hafi bara verið blekking að halda því fram að til stæði að ræða Evrópskt efnahagssvæði á þessu síðdegi og að þetta mál eigi að taka fyrir að ráðherranum fjarstöddum? Ég hef ekkert um þetta mál að segja sem hér er um að ræða. Ég geri ráð fyrir að það sé samkomulagsmál en mér finnst nokkuð sérkennilega að þessum hlutum staðið af hálfu þess hæstv. ráðherra sem fer með málaflokkinn sem er hæstv. viðskrh. Þetta mikilvæga úrslitamál viðskrn., umboðssöluviðskipti, er gífurlega mikið hagsmuna- og kappsmál Alþfl. og hornsteinn jafnaðarstefnunnar. Mér finnst sérkennilegt að við þær aðstæður skuli hæstv. viðskrh. hvergi vera nálægur og bersýnilegt að þá menn, sem var sagt það eins og mér að til stæði að ræða fyrr í dag um Evrópskt efnahagssvæði, hafa einhverjir verið að plata vegna þess að hæstv. viðskrh., sem á að vera í fyrirsvari, hefur ekki látið sjá sig hér á þessum tíma.