Evrópskt efnahagssvæði

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 22:10:38 (3765)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Varðandi þetta atriði vil ég einnig vekja athygli hv. þm. og annarra þingmanna á því hvernig þetta stutta frv., sem við erum með hér til meðferðar í fimm greinum, er uppbyggt og ég þakka hv. þm. fyrir stuðning hans við það að fella brott 4. gr. sem við í meiri hluta utanrmn. gerum tillögu um, en ég vek athygli á því að í 5. gr. er fjallað um það annars vegar að ákvæði 1. gr. laga þessara öðlast þegar gildi, þ.e. fullgildingarþáttur laganna, en síðan segir í 2. mgr.: ,,Önnur ákvæði laganna öðlast gildi um leið og EES-samningurinn öðlast gildi að því er Ísland varðar.`` Og það er alveg ljóst að 2. og 3. gr. þessa frv. öðlast ekki gildi fyrr en EES-samningurinn öðlast gildi að því er Ísland varðar og til þess að EES-samningurinn öðlist gildi að því er Ísland varðar, þá þurfum við að taka afstöðu til þeirrar bókunar sem á eftir að koma fram þannig að það er alveg ljóst að lögfesting þessa samnings kemur ekki til sögunnar hér á landi fyrr en Alþingi hefur tekið afstöðu til þess máls sem hv. þm. spurði um, hvort sem það

verður með þál. eða lagasetningu. Ég fullyrti ekkert um það hvort formið yrði, en hitt fullyrti ég að Alþingi þarf að koma að málinu aftur og 2. og 3. gr. þessa stutta frv. öðlast ekki gildi án þess að Alþingi komi að málinu aftur.