Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 11:05:31 (3777)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir góðar óskir í minn garð. Ég mæli fyrir nál. og brtt. efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um breytingar á skattamálum. Ég vil áður en lengra er haldið þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir samvinnuna um málið og taka fram að nefndarmenn allir hafa verið einstaklega liprir og viljugir í því samstarfi að láta það ganga áfram. Það er rétt að taka þetta fram vegna þess að frv. var seint fram komið og málið er afar viðamikið mál og margt sem þurfti að skoða í þessu sambandi. Það þurfti að tala við marga umsagnaraðila og vil ég sérstaklega þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir góða samvinnu um að ganga frá vinnunni í þessu þó að tíminn hafi verið knappur.

    Nefndin leitaði umsagna hjá allmörgum aðilum sem getið er á nál. 489 og kallaði einnig allmarga aðila til sem þar er sömuleiðis getið um.
    Grundvallaratriði í sambandi við þær breytingar sem verið er að gera á skattlagningu með frv. er að verið er að fella niður aðstöðugjald. Þessi niðurfelling þýðir að hækka þarf aðra skatta í staðinn og meginbreytingarnar sem í því felast eru viðbrögð við þeirri nauðsyn. Í meginatriðum eru farnar tvær leiðir í þessu. Annars vegar er tekjuskattur einstaklinga hækkaður og hins vegar eru undanþágur í virðisaukaskatti þrengdar. Ég held að nauðsynlegt sé að þetta grundvallaratriði sé haft í huga vegna þess að að sjálfsögðu er óþægilegt og erfitt að hreyfa við viðkvæmum sköttum eins og tekjuskatti einstaklinga og eins að fækka undanþágum í virðisaukaskattskerfinu. Mat manna hefur verið að niðurfelling aðstöðugjaldsins væri svo mikilvæg að nauðsynlegt væri að grípa til þessara ráðstafana.
    Niðurfelling aðstöðugjaldsins eykur samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Hún eykur samkeppnishæfni þeirra fyrirtækja starfa á innlendum markaði og leiðir til þess að vöruverð getur lækkað og kaupmáttur heimilanna þar með aukist. Niðurfelling aðstöðugjaldsins eykur líka samkeppnishæfni útflutningsgreinanna og leiðir þess vegna til þess að þær fá staðist hærra gengi íslensku krónunnar eða kemur með öðrum orðum í veg fyrir að lækka þurfi gengi krónunnar meira en orðið er. Þess vegna nýtur fólkið í landinu, almenningur, þess að sjálfsögðu í lægra vöruverði en ella væri.
    Þegar verið er að hækka skatt eins og tekjuskattinn er spurning hvaða sjónarmið liggi þar til grundvallar. Það sem gert er í meginatriðum í frv. og þeim breytingum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til er að hækkunin dreifist tiltölulega jafnt yfir prósentvís þangað til að komið er upp í hærri tekjuskalana. Þá hækkar hlutfallsleg byrði allmjög. Það er fyrst og fremst vegna þess að tekinn er upp sérstakur hátekjuskattur á tekjur yfir 200 þús. kr. hjá einstaklingum og yfir 400 þús. hjá hjónum. Í krónutölu er að sjálfsögðu afar mikill munur á því hvernig skattbyrðin vegna tekjuskattsins eykst.
    Sú leið sem var farin samkvæmt þeim tillögum sem nefndin gerir var að lækka eilítið persónuafslátt, hækka skattprósentuna um 1,5% og síðan að taka upp hátekjuskattinn eins og áður getið. Í frv. var gert ráð fyrir því að persónuafslátturinn yrði ekki sérstaklega lækkaður en þess í stað yrðu barnabætur skertar. Nefndin breytti þessu og taldi þó skárra að lækka persónuafsláttinn eilítið og skerða ekki barnabæturnar. Þegar var farið að reikna nákvæmlega hversu mikið þyrfti að lækka persónuafsláttinn o.s.frv. var líka höfð hliðsjón af því hvað var að gerast í sambandi við hækkun á meðlagsgreiðslum og þeim breytingum sem var verið að gera á mæðralaunum.
    Því má velta fyrir sér hvort önnur leið til þess að flytja þessa skattbyrði til hefði orðið réttlátari. M.a. geta menn velt því fyrir sér hvort það hefði verið eðlilegra að hækka skattprósentuna og taka í rauninni allan tilflutninginn út í því að hækka einfaldlega prósentuna í tekjuskattinum. Ef það hefði verið gert hefði mátt búast við því að prósentan hækkaði um á bilinu 2,2--2,5%. Þá hefðu skattleysismörkin að sjálfsögðu lækkað. En ef menn hefðu ætlað að halda óbreyttum skattleysismörkum og taka með því allt út í prósentunni á tekjuskattinu, eða eina prósentu, þá hefðum við verið að tala um hækkun á tekjuskattsprósentunni í kringum 4,5%.
    Ég vil rekja þær breytingar sem nefndin leggur til að gerðar verði á frv. Í fyrsta lagi er lögð til breyting vegna persónuafsláttarins sem ég hef áður getið og þýðir að hann lækkar um 400 kr. á mánuði. Í öðru lagi eru gerðar breytingar sem felast í því að barnabótaauki einstæðra foreldra er hækkaður. Og í þriðja lagi eru gerðar breytingar sem felast í því að á þeim aðlögunartíma sem gefinn er, þ.e. einu ári, þangað til fyrirtæki fá lægri tekjuskattsprósentu er áfram heimilað að draga 15% arð frá. Í fjórða lagi er lenging á þeim tröppugangi niður á við í afsláttarheimildum vegna hlutabréfakaupa. Síðan er lagt til að tekjuskattsprósentan á fyrirtækjunum á þessum aðlögunartíma verði 39% í stað 38%. Í sjötta lagi er lagt til að í lögin komi ákvæði þar sem ríkisskattstjóri skal miða viðmiðunarreglur við laun fyrir sambærileg störf í venjulegum vinnutíma að viðbættu 15% álagi. Þetta er vegna svokallaðra reiknaðra launa við ákvörðun á staðgreiðslu.
    Síðan er tæknileg breyting á 36. gr. frv. Sömuleiðis 49. gr. og 46. gr. og í 53. gr.
    11. brtt. felst í því að nýr kafli bætist við frv. þar sem þau áform sem voru í fjáröflunarskyni í frv. til laga um vörugjald á bensín á bíla er tekið inn í þetta frv., en það frv. er geymt til betri umfjöllunar í þinginu eftir áramótin. Og í tólfta lagi er lagður til nýr kafli þar sem tekin er inn lækkun á gjaldi af umboðsþóknun í gjaldeyrisviðskiptum sem hefur verið í lögum um gjald af umboðsþóknun og gengismun frá 1984. Þar er verið að fella þann skatt niður í áföngum á nokkrum árum og breyta honum reyndar. Það er nauðsynlegt að breyta formi þessa skatts og fella hann niður vegna markaðsskráningar á gengi krónunnar sem fyrirhugað er að taka upp vonandi í byrjun næsta árs.