Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 11:17:41 (3778)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. frá minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 495. Ég vil byrja á því að þakka gott samstarf í nefndinni og óska formanni nefndarinnar til hamingju með daginn. Það er í sjálfu sér ekki mjög skemmtilegt hlutskipti, hvorki fyrir okkur né hann, að þurfa að eyða þessum merkisdegi í þetta mál sem er ekki mjög skemmtilegt og hefur reynst formanni nefndarinnar illt viðureignar. Þetta mál er illa undirbúið. Það er búið að vera mikið hringl í kringum það fram og til baka, eitt í dag og annað á morgun, og hefur mætt mjög á meiri hluta nefndarinnar að þurfa að koma þessu máli áfram.

    Það er einnig ljóst að helstu hagsmunasamtök í landinu hafa mótmælt þessu frv. með einum eða öðrum hætti og af því má vera ljóst að samstarfið við aðila vinnumarkaðarins um þetta mál hefur mistekist.
    Mér er það alveg ljóst að það þurfti að hækka skatta vegna niðurfellingar aðstöðugjaldsins. Það lá í loftinu eftir þau samtöl sem höfðu átt sér stað milli aðila vinnumarkaðarins og fulltrúar Vinnuveitendasambandsins og Alþýðusambands Íslands voru með hugmyndir sem gengu í þá átt. Einhverra hluta vegna tókst ríkisstjórninni ekki að nýta sér þann góða samstarfsvilja sem var hjá aðilum vinnumarkaðarins í þessu máli og hygg ég að það sé nokkurt einsdæmi í sögu verkalýðsbaráttu hér á landi að Alþýðusamband Íslands komi fram á völlinn og leggi það beinlínis til að skattur á atvinnurekstur verði felldur niður og í stað þess verði tekinn upp skattur á launþega. Ég man ekki eftir því áður þann tíma sem ég hef starfað í stjórnmálum a.m.k. -- og ég held að það sé enn fráleitara að það hafi gerst fyrr á áratugunum. Það hefði því mátt ætla að þessi góði vilji hefði getað nýst ríkisstjórninni betur. Þar að auki lágu fyrir yfirlýsingar frá stjórnarandstöðunni, ekki síst hv. 8. þm. Reykn., Ólafi Ragnari Grímssyni, sem vildi nánast vera með í þessu máli og lagði til að það yrði myndað hringborð til þess að komast að niðurstöðu um það.
    Við fulltrúar Framsfl. lýstum því yfir að við gerðum okkur það ljóst að þetta væri nauðsynlegt og studdum það að fella niður aðstöðugjaldið en töldum að framkvæmd þess yrði að sjálfsögðu að vera undir forustu ríkisstjórnarinnar og á ábyrgð hennar. Stjórnarandstaðan hefur einfaldlega ekki þá stöðu að geta tekið þátt í slíku máli nema þá sem aðili að ríkisstjórn. Hins vegar er mjög mikilvægt að vilji stjórnarandstöðunnar liggi fyrir og það hefði hæstv. ríkisstjórn átt að geta notað sér betur.
    En einhverra hluta vegna rann þetta allt úr höndum þeirra og þegar Alþýðusamband Íslands lýsti því yfir á þingi sínu að þeir væru mótfallnir þessum ráðstöfunum þá svaraði ríkisstjórnin því til að þeir hefðu lagt til miklu verri hlut en ríkisstjórnin sjálf. Skattatillögur Alþýðusambandsins og vinnuveitenda hefðu gengið miklu nær launþegum en ríkisstjórnin vildi setja fram. Það var skynsamleg yfirlýsing eða hitt þó heldur að svara stærstu verkalýðssamtökum landsins með þessum hætti. Og þar að auki lýsti hæstv. forsrh. því yfir að þarna væru ýmsir skattar sem hann væri andvígur en vildi leggja á samt sem áður, m.a. af sálfræðilegum ástæðum, sennilega til þess að hressa upp á samstarfið í ríkisstjórninni. Það er nú orðið slæmt þegar skattar eru lagðir á með þeim formerkjum.
    En það er ekki nóg með að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafi sett fram mjög harkalega gagnrýni í þessu máli. Fulltrúar vinnuveitenda hafa jafnframt gagnrýnt þessar hugmyndir mjög harðlega og talið að þessar tillögur muni leiða til meira atvinnuleysis og minni umsvifa í samfélaginu.
    Ég get vel skilið hæstv. ríkisstjórn í þeim tilraunum sínum að ná sem minnstum halla á ríkissjóð. En það er varhugavert hvað þeir eru tilbúnir að ganga langt í að ná þeim halla niður með því að leggja skatt á atvinnugreinar sem við sjáum hvað mesta von í. Ég nefni í þessu sambandi ferðaþjónustuna. Þar er um að ræða unga atvinnugrein sem er að vaxa, atvinnugrein sem skilar verulegum gjaldeyristekjum og skapar mörgu fólki vinnu. Er það t.d. skynsamlegt að setja peninga sérstaklega í atvinnusköpun, hvort sem það er viðhald bygginga eða annað, en á móti sé lagður skattur á atvinnugrein sem er í vexti og kyrkja þannig vöxt hennar?
    Það er í reynd með eindæmum hvernig ríkisstjórnin hefur farið í það mál að stuðla að meiri atvinnu í landinu. Þeir gáfu út yfirlýsingu fyrr í haust um að tilteknu fjármagni yrði varið til opinberra framkvæmda sem var allt góðra gjalda vert. Síðan hafa þeir verið að skera þessar fyrirætlanir niður, sem sýnir að þær voru vanhugsaðar frá upphafi, og þar að auki að taka ákvarðanir um skattlagningu á atvinnurekstur sem hefur trúlega mun verri áhrif og fækkar mun fleiri störfum en hinar aðgerðirnar skapa.
    Það er þessi skortur á heildarsýn sem gerir það að verkum að ekki nokkur aðili í samfélaginu mælir með þessu. Það er þessi hringlandaháttur frá einum degi til annars sem orsakar það að hvorki vinnuveitendur né launþegar treysta sér til að styðja þetta mál. Og það virðist vera að nánast enginn vilji leggja nafn sitt við þessar aðgerðir nema ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar af hollustu við ríkisstjórnina. ( Gripið fram í: Er það nú alveg víst?) Er það nú alveg víst? Ég geri ekki ráð fyrir því að hæstv. ríkisstjórn leggi í 2. umr. um þetta mál nema hafa allmiklar vísbendingar um að hér sé tryggur meiri hluti fyrir málinu. Ég á ekki von á því. Það væri þá til að kóróna allt saman ef það kæmi svo í ljós á Alþingi að enginn meiri hluti er fyrir þessu. Það er vonandi að svo sé en hitt er svo annað mál að það eru einhver takmörk fyrir því hvað er hægt að vera lengi með svona mál á milli handanna og það eru einhver takmörk fyrir því hvað er hægt að breyta þeim oft, og þar á meðal hvað er hægt að breyta þeim oft á dag.
    Ég ætla þá að víkja að einstökum þáttum þessa máls. Fyrst vil ég fara nokkrum orðum um skattlagningu einstaklinga. Það sem liggur hér til grundvallar er að skattprósenta einstaklinga er hækkuð um 1,5%, eða hækkuð úr 32,8% í 34,3. Það er gert til þess að mæta niðurfellingu aðstöðugjaldsins. Minni hluti nefndarinnar gerir enga athugasemd við þessa breytingu en hins vegar eru ýmsar aðrar breytingar vanhugsaðar að okkar mati. Ég vil minna á að á síðasta ári var mikil umræða um þær skattabreytingar sem ríkisstjórnin stóð fyrir. Aðalatriði þeirra breytinga var að skattprósentan var ekki hækkuð. Fjmrh. sagði að það væri stefnuatriði ríkisstjórnarinnar að skattar væru ekki hækkaðir. Og hann varði það mjög fimlega á síðasta ári og hélt því fram að það væru engar hækkanir á sköttum. ( Fjrmh.: Og eru ekki enn.) Og eru ekki enn, bætir fjmrh. við. Fjmrh. er því enn mjög hress, en ég vænti þess að hann hafi ekki enn lesið álit samtaka atvinnuveganna og launþega um þessi mál. Ég þykist viss um að ef hann færi nú vandlega í gegnum þetta þá kæmist hann að annarri niðurstöðu.
    Auðvitað eru skattar hækkaðir, hæstv. fjrmh. Það kemur skýrt fram í umsögn Alþýðusambands Íslands að ráðstöfunartekjur heimilanna skerðast vegna þessara skattahækkana. Það er svo annað mál hvort það er ekki nauðsynlegt, hæstv. fjmrh., að skattar hækki eitthvað vegna þess efnahagsástands sem er. En það er fráleitt að halda því fram að engar breytingar eigi sér stað á sköttum. Á sl. ári lagði fjmrh. megináherslu á að lækka barnabætur og lækka frádrátt frá sköttum með ýmsum hætti. Það var hans leið til að hækka skatta. Hann hefur því ávallt verið að leita leiða til þess að hækka skattana án þess að breyta prósentunni. Það hefur verið heilagt í hans huga að prósentan mætti alls ekki breytast. Þetta hefur leitt til þess að skattahækkanir hafa komið við þá sem síst skyldi, við fjölskyldur með mörg börn, fjölskyldur sem eru nýlega búnar að koma sér upp húsnæði og þess vegna hefur byrðunum verið dreift á þá sem eiga hvað erfiðast í samfélaginu. Þetta veit hæstv. fjrmh. En hann er því miður fastur í kosningaloforðum sem hann og hans flokkur gaf um það að skattar yrðu alls ekki hækkaðir og því haldið fram að ef aðrir flokkar kæmust til valda á Íslandi væri það nánast trygging fyrir því að skattar yrðu hækkaðir en það væri trygging ef Sjálfstfl. væri við völd að þá myndu skattar ekkert hækka.
    En fjmrh. getur ekki lengur fundið neina felustaði. Hann er búinn að vera að því lengi og það er svo að ef menn eru að reyna að fela í sig í ákveðnu húsi verða menn að lokum uppiskroppa með staði til að fela sig á. Og menn finna það smátt og smátt og það gerir almenningur líka. Almenningi er orðið ljóst að þessar skattahækkanir, sem sérstaklega hafa bitnað á barnafólki og á þeim sem eru að afla sér húsnæðis, ganga ekki lengur. Það kemur skýrt fram í þessum umsögnum sem ég ætla ekki að fara að rekja lið fyrir lið þó full ástæða væri til þess.
    Það er einmitt þess vegna sem meiri hluti nefndarinnar tekur þá ákvörðun undir forustu hv. formanns nefndarinnar. að snúa aðeins af leið. Að það sé e.t.v. rétt að stöðva þennan feluleik fjmrh. og láta hann ekki komast upp með það endalaust að vera að finna felustaði fyrir skattahækkanirnar sem eru hvort eð er orðnir svo áberandi að það gengur ekki lengur. Þess vegna lagði nefndi það til að skerða ekki enn frekar barnabæturnar heldur fara beint í það að lækka persónuafsláttinn.
    Ég á von á því að hæstv. fjmrh. komi hér á eftir og segi: Það er ekki skattahækkun að lækka persónuafsláttinn. Prósentan breyttist ekki neitt. ( ÓRG: Þetta var lækkun.) Þar að auki er persónuafslátturinn lækkaður. Ég á ekki von á því, hæstv. fyrrv. fjmrh., þó að þú sért fimur í pólitík að jafnvel þú treystir þér til þess að halda því fram að með þessu væri verið að létta skattbyrði á einstaklinga í landinu. Og ég á ekki von á því að hæstv. fjrmh. haldi því fram heldur. En ég heyrði það á honum áðan að hann ætlar að halda áfram að halda því fram að hér sé alls ekki um skattahækkun að ræða með sama hætti og hann hélt því fram í fyrra að skerðing barnabóta og húsnæðisbóta væri engin breyting á sköttum.
    Ég ætla að vitna í helstu hagsmunasamtök og álit þeirra á þessum breytingum í örfáum orðum. Ég vil byrja á því að vitna til samþykktar Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, 16. des. sl., sem er síðasta samþykkt eins stærsta verkalýðsfélags landsins um þetta mál. Þeir segja, með leyfi forseta:
    ,,Þá kom fram á fundinum að stjórnarflokkarnir hefðu svikið öll þau loforð sem þeir gáfu fyrir síðustu kosningar. Skattar hefðu verið hækkaðir stórkostlega með álagningu þjónustugjalda og hækkun lyfjakostnaðar og heilbrigðisþjónusta skert. Í stað efnda á loforði um hækkun skattleysismarka væri nú lagt til að hækka álagningarprósentu og sveitarfélögum bent á að hækka útsvarsprósentu til að mæta niðurfellingu aðstöðugjaldsins.``
    Nú er mér alveg ljóst að á þessum fundi var mikið af reiðum launþegum. En það er mjög langt gengið í yfirlýsingu slíks félags að stjórnarflokkarnir hafi svikið öll loforð sem þeir gáfu fyrir síðustu kosningar. Nú veit ég ekki nákvæmlega hver öll þessi loforð voru. En það sýnir hvaða andi ríkir í þessum efnum. Menn eru ekki aðeins vonsviknir heldur reiðir og það er sá andi sem ríkisstjórnin hefur skapað þótt vissulega beri að viðurkenna það að við göngum í gegnum erfiðleika í efnahagsmálum sem hljóta að bitna á okkur öllum. Það er hins vegar nauðsynlegt að dreifa þeim byrðum með réttlátum hætti í bærilegu samstarfi við helstu hagsmunasamtök í landinu og þessi samþykkt lýsir því vel að ríkisstjórninni hefur ekki tekist það.
    Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir m.a., með leyfi forseta: ,,Það er einnig umhugsunarefni hversu skammt er gengið í skattlagningu hærri tekna á sama tíma og verið er að draga úr barnabótum og vaxtabótum. Skerðing barnabóta og vaxtabóta er auðvitað ekkert annað en aukin skattlagning þar sem það er gert að skilyrði fyrir skattlagningunni að viðkomandi eigi börn eða standi undir erfiðri greiðslubyrði vegna öflunar íbúðarhúsnæðis.``
    Ég vil benda hæstv. fjmrh. á þessa skoðun Alþýðusambands Íslands, þannig að það eru fleiri en sá sem hér stendur sem hafa haldið því fram að hér hafi verið um skattahækkanir að ræða á síðasta ári. Það eru jafnframt hagsmunasamtök launafólks í landinu, sjálft Alþýðusamband Íslands sem heldur þessu fram. Og þeir halda áfram, með leyfi forseta:
    ,,Í flestum tilfellum er hér um einn og sama hópinn að ræða. Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur og hafa þokkalegar tekjur sleppa hins vegar mun betur frá aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þetta er í hæsta máta ósættanlegt og lýsir ASÍ sig mótfallið þeirri stefnu stjórnvalda að leggja stöðugt þyngri byrðar á láglaunafólk, barnafólk og það fólk sem er að koma sér upp húsnæði á sama tíma og og aðrir sleppa.``
    Með þessu er Alþýðusamband Íslands að mínu mati að lýsa því yfir að eðlilegt sé að lagðar séu

auknar byrðar á fólkið í landinu. Og það er mikilvæg viðurkenning. Það er viðurkenning á því að hér sé erfitt efnahagsástand sem þurfi að takast á við. En þeir sætta sig ekki við hvernig þessum byrðum er dreift.
    Og enn á ný er komin sönnun þess að ríkisstjórninni hefur mistekist þetta samstarf. Í umsögnum BHMR segir m.a., með leyfi forseta: ,,BHMR vill vegna fyrirliggjandi frv. mótmæla þeim áformum sem í því felast og leiða til lakari kjara almenns launafólks. Þar er sérstaklega mótmælt áformum um hærri tekjuskattsprósentu, óbreyttum persónuafslætti, skertum barnabótum og skertum vaxtabótum. Allir hljóta að sjá það óréttlæti sem felst í sérstöku hátekjuskattsþrepi barnafjölskyldna. BHMR varar við þeirri aðför að barnafjölskyldum í landinu sem felst í þessu frumvarpi.`` Í þessari umsögn BHMR kemur fram andstaða við það að breyta skattlagningu fyrirtækja, þ.e. að fella niður aðstöðugjald og færa þá skattbyrði að verulegu leyti yfir á launafólk. Að því leytinu til er þessi umsögn með allt öðrum hætti en umsögn Alþýðusambands Íslands.
    Ég er þeirrar skoðunar að það hafi átt að færa skattbyrði til vegna niðurfellingar aðstöðugjaldsins. Þannig að ég er ekki sammála öllu því sem kemur fram í umsögn BHMR, þótt ég taki undir margt af því. Ég held að við verðum að viðurkenna það að erfiðleikar fyrirtækjanna koma fram í erfiðu atvinnuástandi og minni tryggingu fólks fyrir atvinnu. Þetta hefur verið almennt viðurkennt og þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það eigi að leggja á það áherslu að gera atvinnurekstrinum það kleift að halda áfram starfsemi sinni til þess að sem flestir haldi vinnu.
    Það er hins vegar ekki nóg að hafa þetta að leiðarljósi því að þeim byrðum sem af þessu leiða, ef byrðar má kalla, verður að skipta með réttlátum hætti. Hins vegar er það launafólki afar mikilvægt að sem flest störf séu sköpuð og sem flestir hafi möguleika til að afla sér tekna.
    Ég vildi aðeins, að því er varðar skattlagningu einstaklinga, víkja að lokum í þeim þætti málsins að þeim sérstaka hátekjuskatti sem lagður er á.
    Hér er um að ræða hátekjuskatt sem virðist hafa verið málamiðlun milli ríkisstjórnarflokkanna. Og ég vænti þess að hæstv. fjmrh. viðurkenni a.m.k. að þar sé um nýjan skatt að ræða. En þessi skattprósenta kemur sérstaklega ofan á tekjur og hér er um uppgjör eftir á að ræða. Við báðum um upplýsingar um það hvað það mundi kosta að leggja á slíkan skatt. Kostnaðurinn er í sjálfu sér minni en ég taldi að mundi koma fram, en ríkisskattstjóraembættið áætlar að kostnaður verði alls 11.248.000 kr., þar af aðkeypt þjónusta 6.630.000. Þar fyrir utan leggst að sjálfsögðu margvíslegur kostnaður á fyrirtækin. Ég er ekki að þessum orðum sögðum að mæla gegn því að þetta sé gert. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að fyrst farið var í málið með þessum hætti þá hefði verið einfaldara að hækka skattprósentuna og persónuafsláttinn á móti. Sannleikurinn er sá að skattlagningin á lægri tekjurnar er orðin allt of mikil. Því hefði þurft að dreifa skattbyrðinni mun betur. Og það er því miður ekki hægt nema að leggja meira á þá sem hærri tekjur hafa og minna á þá sem að minna hafa. Ég ætla mér ekki að flytja breytingartillögu um þetta við frv., enda er nánast ekki hægt að flytja breytingartillögu við þetta mál. Það hefur ekki gefist sá tími til athugunar að við höfum getað náð utan um heildaráhrif málsins. Og það er af þeim ástæðum sem við leggjum til að málinu verði hreinlega frestað, því vísað til ríkisstjórnarinnar og tekið fyrir á nýjan leik þegar það hefur verið almennilega undirbúið.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fara fleiri orðum um skattlagningu einstaklinga en snúa mér í örstuttu máli að skattlagningu fyrirtækja.
    Ég vil í fyrsta lagi taka undir það að mikilvægt er að samræma skattlagningu félaga, fyrirtækja, við það sem gengur og gerist í samkeppnislöndum okkar. Við segjum í nefndaráliti okkar að því miður hafi þessar breytingar verið sáralítið undirbúnar og við nefnum sem dæmi að ríkisstjórnin lagði til að tekjuskattur yrði lækkaður úr 45% í 33%. En síðan þegar frumvarpið var flutt var búið að hækka hann aftur í 38%. Við meðferð málsins í nefnd var tilkynnt á einu stigi að búið væri að ákveða að hann yrði óbreyttur frá síðasta ári eða 45%, en síðan við lokaafgreiðslu málsins var ákveðið að hækka prósentuna í 39%. Þetta er ekki sannfærandi meðferð á einu máli.
    Það er ekki von að atvinnulífið sé mjög hamingjusamt með ríkisstjórn sem skiptir svona oft um skoðun, enda getur ríkisstjórnin ekki ætlast til þess. Í umsögn Vinnuveitendasambands Íslands koma m.a. fram þessi orð, með leyfi forseta: ,,Sú skyndilega óvænta frestun á nýlega boðaðri stefnu ríkisstjórnarinnar um að lækka skattaálögur fyrirtækja til samræmis við samkeppnislöndin er ekki til þess fallin að vekja traust á efnahagsstefnunni né til að auka mönnum áræði í krafti loforða um að henni verði síðar hrundið í framkvæmd. Allt ber þetta vitni um slæm samskipti ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins og er vísbending um það að ríkisstjórninni er ekki treystandi til að varða veginn í því alvarlega efnahagsástandi sem nú ríkir.`` Þetta eru stór orð frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Og það má vel vera að þau séu sögð í hita leiksins en það kom fram hjá framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins að þeir hefðu orðið mjög undrandi á þessum breytingum.
    Ég gat vel skilið hv. formann nefndarinnar þegar hann lagði til við vinnslu málsins að trúlega væri best að fresta þessu öllu saman og vinna það betur í eitt ár, m.a. í ljósi þessara viðbragða Vinnuveitendasambands Íslands. Það voru eðlileg viðbrögð. Því að auðvitað er hér um flókið mál að ræða og það er ekki alveg einfalt að gera sér grein fyrir því hvenær og hvernig við gætum samræmt skattkjör fyrirtækjanna við það sem gengur og gerist erlendis. Ég var þeirrar skoðunar þegar fjárlagafrumvarpið kom fram að yfirlýsingin um það að lækka tekjuskattsprósentuna úr 45% í 33% hafi verið ótímabær. Og ég býst við því að

hæstv. fjmrh. muni þá skoðun mína. Með því var ég ekki að halda því fram að ekki ætti að lækka tekjuskattsprósentu fyrirtækjanna. Ég var þeirrar skoðunar þá að forgangsmál væri aðstöðugjaldið og skattar sem tengjast launum, en breytingin á tekjuskatti ætti ekki að vera forgangsmál, hana þyrfti að undirbúa betur að því er fyrirtækin varðaði.
    Ég vil t.d. nefna eitt atriði sem er með öðrum hætti hér á landi en gengur og gerist í okkar nágrannalöndum. Það er svokölluð verðbreytingarfærsla. Þessi verðbreytingarfærsla var tekin upp 1978, ef ég man rétt, m.a. vegna þess verðbólguástands sem hér ríkti og þeirrar staðreyndar að fjármagn var verðtryggt og laun voru á þeim tíma verðtryggð og það gekk mjög illa að komast út úr þeirri víxlverkun. Það var gerð tilraun til þess í ársbyrjun 1978 en þeirri tilraun var hrundið m.a. með pólitískum aðgerðum.
    Við núverandi aðstæður er staðan sem betur fer allt önnur. Verðbólgan hefur farið lækkandi og það er lagt á það kapp af öllum aðilum í landinu, bæði launþegum, vinnuveitendum, ríkisvaldi og Alþingi að halda verðbólgunni í skefjum. Þótt menn hafi mismunandi skoðanir á því hvernig það verður best gert þá er um það almenn samstaða í landinu.
    Nú er það svo að verðbólga er yfirleitt alls staðar í löndunum í kringum okkur og þar af leiðandi hefur atvinnureksturinn af því nokkur útgjöld í sköttum að eigið fé rýrnar sem verðbólgunni nemur þó að þeim takist oftast að ná því upp með meiri hagnaði. En hagnaður fyrirtækjanna í löndunum hér í kringum okkur er reiknaður út frá þeim gjaldmiðli sem þar ríkir án verðleiðréttinga. Þær verðleiðréttingar sem eru í íslenskum skattuppgjörum og ársreikningum eru atvinnurekstrinum hagstæðar miðað við það sem gengur og gerist í samkeppnislöndunum í kring. Mér finnst fyllilega koma til greina að hverfa frá þessari verðleiðréttingu þó að í því sé nokkur eftirsjá sem tákn um að við ætlum okkur að taka út úr sem flestum lögum slíkar viðmiðanir. Þá þarf það einnig að gerast að því er varðar lánsfjármagn og á ýmsum öðrum sviðum. Sem væri þá staðfesting á þeim vilja þjóðarinnar að halda verðbólgunni sem mest í skefjum.
    Nú má vel vera að ekki sé tímabært að gera þetta í dag, en ég tók eftir því að formaður Vinnuveitendasambands Íslands var tilbúinn til að fella verðbreytingarfærsluna niður gegn því að skattprósenta fyrirtækja lækkaði enn frekar. Það er breyting sem ekki þyrfti að kosta ríkissjóð nokkurn skapaðan hlut vegna þess að ef verðbreytingarfærslan yrði tekin í burtu í dag mundi það hækka tekjuskatt fyrirækjanna og þar með skapast svigrúm til að koma á lægri skattprósentu.
    Auðvitað þarf að taka þessa staðreynd inn í matið á því hvort að tekjuskattur félaga á Íslandi er sambærilegur við það sem gengur og gerist erlendis. Þegar að Ísland er kynnt fyrir erlendum aðilum sem mögulegur staður til að koma af stað atvinnurekstri þá er að sjálfsögðu mikilvægt að það liggi sem best fyrir hvaða skattaleg skilyrði eru hér fyrir hendi og hvernig þau eru í samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Og þess vegna er það mikilvægt að þessu atriði sé haldið á lofti þegar það er gert því að þetta verður til þess að lækka þá skattprósentu, þá raunskattprósentu sem hér er. Þannig er 39% skattprósenta hér á landi ekki sambærileg við t.d. 33% skattprósentu í öðrum löndum.
    Á þetta vildi ég benda í þessu sambandi og það er miður að ekki skyldi takast betur í þessu sambandi og það er nú ljóst orðið að það var ótímabært af ríkisstjórninni að tilkynna að nú ætti að lækka skattprósentuna niður í 33%. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Ríkisstjórn sem tilkynnir að lækka eigi skattprósentuna í 33%, fer síðan í 38% og aftur í 45% og að lokum í 39% er ríkisstjórn sem heldur ekki vel utan um það sem hún er að gera enda hefur það verið staðfest af Vinnuveitendasambandi Íslands og þarf í sjálfu sér ekki frekari staðfestingar við. Enda er hringlandahátturinn nægileg rök fyrir því.
    Eitt af því sem skiptir miklu máli í sambandi við skattlagningu fyrirtækja um þessar mundir er að það sé hvati fyrir almenning til að fjárfesta í atvinnurekstri. Eiginfjárstaða atvinnurekstrarins er slök og það er eitt það mikilvægasta í þjóðfélagsmálum okkar að fá fólk til að leggja áhættufé í atvinnurekstur. Við þurfum á fleiri störfum að halda, við þurfum á fleiri atvinnufyrirtækjum að halda og því eigum við að vera sammála um að þetta sé eitt af þeim forgangsmálum sem við stöndum frammi fyrir í íslenskum þjóðmálum.
    Á sl. ári ákvað ríkisstjórnin allt í einu upp úr þurru að arður væri ekki lengur frádráttarbær frá tekjum fyrirtækja heldur ætti að skattleggja hann hjá fyrirtækjum en ekki einstaklingum. En eins og menn vitað er arður skattfrjáls upp að ákveðnu marki hjá einstaklingum. Um þetta var nokkuð rætt hér á Alþingi og að lokum tókst sú pólitíska málamiðlun milli stjórnarflokkanna að fresta þessari ætlan. En nú skilst mér að það hafi verið fallið frá henni. ( Fjmrh.: Sem betur fer.) Sem betur fer, segir hæstv. fjmrh. En ætli þetta hafi verið mjög heppileg aðgerð, hæstv. fjmrh., fyrir hlutabréfamarkaðinn? Heldur hæstv. fjmrh. að þetta hafi verið góð skilaboð til þessa unga og viðkvæma markaðar sem hæstv. fjmrh. hefur e.t.v. manna mest barist fyrir að skapa nokkra tryggingu í kringum? A.m.k. á meðan hann var í stjórnarandstöðu. En þegar hann fær tækifæri til þess sem fjmrh. að halda utan um málið þá eru ákvarðanir út og suður og menn vita ekki hvað gildir í dag og hvað mun gilda á morgun. Mér er fullkomlega ljóst að hæstv. fjmrh. átti í nokkrum vanda á sl. ári með hæstv. félmrh. í þessu máli sem virtist ekki skilja eðli þess. En ég hélt satt að segja að hæstv. félmrh. væri farinn að skilja það núna þegar atvinnuleysið fer vaxandi og er orðið jafnmikið og raun ber vitni að þá þyrfti fjmrh. ekki að halda fleiri ræður yfir félmrh. En það virðist ekki vera því að enn á ný er ákveðið að breyta til. En nú hefur verið ákveðið að hafa þetta mál óbreytt. Hv. formaður nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að best væri að taka fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og reyna að koma á einhverri niðurstöðu í málið. Nú hefur verið ákveðið að þetta skuli vera óbreytt. Að

vísu er tillaga um að fella niður í áföngum frádrátt til manna. Þegar ég tala um menn þá er ég jafnframt að tala um konur. Það virðist hafa verið nokkur misskilningur um það að því er varðar skattalögin því að skattalögin gera ráð fyrir því að skattleggja menn en fulltrúi Jafnréttisráðs gerði við það athugasemd að þetta væri röng hugmyndafræði og þess vegna þyrfti að taka skattalögin til endurskoðunar og lagfæra málfar á þeim. Ég er ekki sammála þessu mati því að ef við getum ekki talað um karlmenn og konur sem menn þá lendum við í miklum vandamálum í allri lagagerð okkar og öllum samskiptum okkar. Af þessu tilefni segi ég þetta.
    En ég var að tala um arðinn og vildi leggja á það áherslu að reynt væri að skapa sem mesta vissu að því er varðar framtíðina. Ég tel það hins vegar mjög óhepplileg að marka þá stefnu nú að frádráttur manna, sem kaupa hlutabréf í atvinnurekstri, skuli felldur niður í áföngum. Vissulega hefur verið dregið úr þessu. Gert var ráð fyrir því að þessi frádráttur yrði 80% á árinu 1993. Síðan 60% á árinu 1994 og 40% á árinu 1995 og 20% á árinu 1996. Nú hafa verið fluttar brtt. við þetta frv. sem ég hef að vísu ekki séð enn þá því að þær voru ekki alveg tilbúnar í nefndinni þegar málinu lauk af eðlilegum ástæðum. Það er svo mikill hraði á öllu hér að ekki tekst ekki almennilega að halda í við þetta allt saman. En hv. formaður nefndarinnar er svo vinsamlegur að lána mér þessar brtt. sem ég þekki ágætlega en voru ekki komnar í endanlegt form þegar málið var tekið út úr nefndinni. Það sýnir að nokkru þann vanda sem menn standa frammi fyrir í umfjöllun mála á Alþingi. Þar er gert ráð fyrir að þetta verði 50% árið 1996 og 1997 en falli síðan niður.
    Ég tel að a.m.k. ætti ekki að ganga lengra en að þetta breyttist í 50% á árinu 1996 og láta þá sem mynda meiri hluta á Alþingi þegar þar að kemur taka ákvarðanir um framhaldið. Hæstv. ríkisstjórn hefur tilhneigingu til þess að vilja taka ákvarðanir langt fram yfir umboð sitt. Nú ætlar hún að taka ákvörðun um að hvernig þessum frádrætti verður háttað á árinu 1996 og 1997. Fyndist hv. þm. eðlilegt að ríkisstjórnin tæki um það ákvörðun í þessum lögum hver yrði persónuafsláttur á árinu 1997 eða hverjar yrðu barnabætur á árinu 1997? Þetta mál á sér e.t.v. þá forsögu að ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja sérstakt gjald á sjávarútveginn að kröfu Alþfl. eftir því sem ég best man á árinu 1996. Ég hef enga sannfæringu fyrir því að Alþfl. verði í þeirri pólitísku aðstöðu árið 1996 að hann eigi rétt á að koma fram svo ósanngjarnri kröfu. Ég veit að hv. þm. Eggert Haukdal er mér sammála um það að hann hefur ekki mikinn áhuga fyrir því að Alþfl. verði þá í þeirri stöðu miðað við hvernig hann hefur talað hér og lýst yfir að Alþfl. ráði öllu í núv. ríkisstjórn. ( EH: Of miklu eins og í síðustu ríkisstjórn.) Of miklu, já, eins og í þeirri síðustu. Ég þekki betur til í síðustu ríkisstjórn en hv. þm. Eggert Haukdal en ég efast ekki um það að hv. þm. Eggert Haukdal er gjörkunnugur málum í núv. ríksstjórn. (Gripið fram í.) Ekki efast ég um það að þingmaðurinn hefur ákveðna tilfinningu fyrir því. En mér finnst þetta vera ansi langt gengið, hv. þm., að þinn flokkur sé tilbúinn til að ganga til lagagerðar á Alþingi að kröfu Alþfl. og ákveða það hvað skuli gert eftir næstu kosningar. Ég get fullvissað hv. þm. um það að svo langt var aldrei gengið í síðustu ríkisstjórn að fallast á það að Alþfl. ætti að ráða öllu að því er varðar næsta kjörtímabil nema þá að það hafi verið ákveðið af Sjálfstfl. og Alþfl. að þeir ætli sér að halda saman í pólitíkinni framvegis og e.t.v. að sameinast. Ef annar flokkurinn verður í ríkisstjórn þá myndi þeir eins konar fóstbræðralag að þeir skuli vera þar báðir. ( Gripið fram í: Kannski bíður Sjálfstfl. Jóni Baldvini forsætið . . .  ) Það er ekki rétt, hv. þm., að Framsfl. hafi boðið --- ég get aðeins talað fyrir hans hönd --- að hann hafi boðið Jóni Baldvin Hannibalssyni það að hann yrði hér forsrh. Það kom aldrei til þess að við færum einu sinni út í stjórnarmyndunarviðræður við hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og núv. utanrrh. En mér finnst mér þetta vera allt of langt gengið.
    Ég kannast við að hæstv. fjmrh. var með svipaðar hugmyndir og þær voru m.a. rökstuddar með því að Íslendingar gætu ekki haft slíkan afslátt, m.a. vegna þess að það væri okkar ætlan að verða aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Ég er ekki sammála því mati að það séu einhverjar skuldbindingar af hálfu Íslands í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði sem komi í veg fyrir það að við getum haldið þessum frádrætti. Íslenskt atvinnulíf og íslenskar þjóðfélagsaðstæður eru með allt öðrum hætti en í hinni stóru Evrópu. Hlutabréfamarkaður okkar er ungur og miklu viðkvæmari en gengur og gerist í nærliggjandi þjóðum. Því eigum við ekki að eltast við það að hafa alla hluti nákvæmlega eins og þeir eru á meginlandi Evrópu. Þessi frádráttur hefur reynst uppbyggingu atvinnulífsins mikilvægur. Almenningur er að byrja að treysta því að þessi frádráttur sé til staðar. Atvinnureksturinn er jafnframt farinn að bjóða hlutabréf til sölu í mun meira mæli vegna þessara ákvæða og það þarf að geta komist á nokkurt öryggi í þessu máli. En það að ákveða nú að þetta skuli fellt niður eftir 1997 er út í hött að mínu mati. Ég vænti þess að hæstv. formaður nefndarinnar beiti sér a.m.k. fyrir því að ekki séu teknar ákvarðanir fram yfir 1997 þannig að þeir sem mynda næstu ríkisstjórn hafi ráðrúm til þess að fjalla um málið. Auðvitað geta þeir breytt því aftur. ( Gripið fram í: Má ekki treysta því?) Það er nú það. Það er spurning hverju má treysta, hv. þm. Ekki vitum við hverjir muni mynda þá ríkisstjórn. ( Gripið fram í: Ef þú verður í henni.) Ef ég verð í henni. Ég get sagt það sem mína skoðun að ég tel að það eigi ekki að fella þennan frádrátt niður. M.a. þess vegna tel ég að ekki eigi að taka ákvörðun um það núna. Ég get hins vegar fallist á að einhver lækkun eigi sér stað þó ég sé þeirrar skoðunar að ekki sé tímabært að taka þá ákvörðun. Samkvæmt þessari tillögu er gert ráð fyrir að frádrátturinn verði 100% miðað við næsta ár og það liggur ekkert á að taka ákvörðun fyrir árið 1994. Ég tel að það væri mikilvægt að hætta við þessa breytingu núna þannig að það myndaðist ráðrúm fyrir stjórnmálaflokkana til að mynda samstöðu í þessu máli og við gætum komið okkur saman um það hver

þessi prósenta ætti að vera. Ef allir stjórnmálaflokkar treysta sér til að standa að því á Alþingi þá mundu menn taka það sem tryggingu fyrir því að ekki væri verið að hringla í þessu á hverju ári. Ég er þeirrar skoðunar að mögulegt sé að ná slíkri samstöðu. Þess vegna hvet ég til þess að þessu máli sé frestað.
    Virðulegur forseti. Ég hef þá farið í gegnum þau atriði sem varða skattlagningu fyrirtækjanna og vil af þessu tilefni minna á það sem vinnuveitendur segja í sambandi við þetta mál og endurtaka það, með leyfi forseta, sem segir í þeirra umsögn: ,,Allt ber þetta vitni um slæm samskipti ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins og er vísbending um það að ríkisstjórninni er ekki treystandi til að varða veginn í því alvarlega efnahagsástandi sem nú ríkir.`` Ég er mjög sammála þessu mati Vinnuveitendasambands Íslands og tel að mikið hafi þurft að ganga á til að það samband skrifi slíkt bréf og láti slík orð falla. Ég trúi því ekki að Vinnuveitendasamband Íslands vilji koma þannig fram og senda frá sér bréf sem eigi ekki að taka alvarlega. Þannig að ég hef hingað til borið fulla virðingu fyrir því sem kemur frá Vinnuveitendasambandinu þótt ég sé ekki alltaf sammála þeim. Mér finnst með ólíkindum miðað við þau tengsl sem ég veit að eru á milli margra forustumanna í Vinnuveitendasambandi Íslands og ráðherra í hæstv. ríkisstjórn að þeir láti slík orð falla aðeins til áminningar og skrifi þau til þess að taka þau til baka daginn eftir eins og gengur hjá hæstv. ríkisstjórn því þeir eru vissulega mikið í því þessa dagana að segja eitt í dag og annað á morgun.
    Ég tel þetta alvöruþrungin orð sem ríkisstjórninni beri að taka alvarlega og taka mark á, en því miður sýna þeir engin merki iðrunar hvað þá að batamerki komi fram í háttum þeirra. ( VE: Þeir tóku mark á VSÍ og þeir sneru við blaðinu sjálfir.) Ég á von á því, hv. formaður efh.- og viðskn., að þessum orðum sé m.a. beint til hæstv. forsrh. sem hefur komið mjög klaufalega fram í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins og verið með ýmsar fullyrðingar sem hafa verið óheppilegar að mínu mati og ég held að sé eitt helsta vandamálið í sambandi við samskipti ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins fyrir utan yfirlýsingagleði hæstv. utanrrh. Formenn þessara tveggja stjórnarflokka koma fram með þeim hætti að það vekur ekki traust innan lands. Ég er hræddur um að margt af því sem hæstv. utanrrh. segir veki heldur ekki nægilegt traust erlendis, t.d. ummæli hans um Alþingi Íslendinga.
    Þá er komið að þeim lið sem varðar skattrannsóknir og embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins. Minni hlutinn styður þær skipulagsbreytingar sem þar eru fyrirhugaðar en vill hins vegar minna á að það er ekki nægilegt að breyta skipulagi og aðskilja skrifstofur að því er varðar skatteftirlit og framkvæmd skattamála. Það hefur verið nokkuð hvimleitt í sambandi við endurbætur á skattkerfinu að stjórnvöld hafa oft og tíðum komið með breytingar á skattalögum og talið að með þeim breytingum sé verið að tryggja framkvæmd skattalaganna mun betur. Þetta á ekki aðeins við um núv. fjmrh. heldur hefur þetta gengið mjög lengi og nánast frá því að ég man eftir. Við erum að breyta skattalögum á hverju einasta ári og þær skattalagabreytingar eru oft og tíðum gerðar nokkrum dögum fyrir jól. Hér er um að ræða breytingar á skattalögum sem eiga að taka gildi á næsta ári. Undirbúningurinn hefur oft verið slæmur en aldrei verri en núna og er þó samanburðurinn ekki góður. Það er að sjálfsögðu ekkert vit í svona framkomu að vera að breyta skattalögum í tímahraki rétt fyrir jól, enda er ég hræddur um að ýmislegt geti gerst í sambandi við þessar breytingar sem þurfi að breyta síðar og náttúrlega alveg ljóst að breytingar þurfa að eiga sér stað vegna samninga á vinnumarkaðinum. Það hefur komið ljóst fram í ummælum verkalýðshreyfingarinnar að undanförnu. En hvað um það. Við erum sammála því að þetta verði gert en bendum á að það er ekki nóg og nauðsynlegt sé að stórauka skatteftirlit. Við vitnum til þess sem segir í umsögn Vinnuveitendasambands Íslands um þetta mál, sem er að mínu mati mjög merkilegt, en þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Vaxandi óþols gætir meðal fyrirtækja í VSÍ gagnvart því ástandi sem ríkir að svört atvinnustarfsemi geti starfað og dafnað óáreitt. Vitanlega kemur það illa við heiðarleg fyrirtæki að missa viðskipti til aðila sem ekki gefa tekjur upp til skatts.
    Fyrir liggur að þeir möguleikar til skilvirkara skatteftirlits sem virðisaukaskattskerfið býður upp á og vonir voru bundnar við hafa ekki ræst. Það liggur einnig fyrir að fjöldi þeirra mála sem rannsökuð hafa verið undanfarin missiri hefur farið fækkandi.``
    Ég tel það mjög merkilegt að samtök atvinnurekenda skuli gefa frá sér slíka yfirlýsingu. Innan þessara samtaka eru væntanlega margir sem taka þátt í svokallaðri svartri atvinnustarfsemi. Hér er um að ræða aðila sem gjörþekkja ástandið og er greinilega nóg boðið og þolinmæði þeirra sem reka góð fyrirtæki á heiðarlegan hátt er algjörlega þrotin.
    Þetta er slæmur vitnisburður um skatteftirlit í landinu og ætti að verða ríkisstjórninni og þeim stofnunum sem fara með þessi mál nægileg hvatning til þess að taka til hendinni. Þegar ein sterkasta hvatning sem hefur komið um árabil í þessu máli kemur frá vinnuveitendum sjálfum, þá hljótum við að álykta sem svo að ástandið sé mjög alvarlegt.
    Ég sá sérstaka ástæðu til að benda á þetta, hæstv. forseti, en játa að ég hef ekki nægilega þekkingu til að leggja dóm á það hvernig ástandið er í þessum málum. En öll vitum við að á ýmsum stöðum er pottur brotinn í þessum efnum.
    Þá er ég kominn að breytingum á virðisaukaskatti. Nefndin hefur fjallað mjög ítarlega um breytingarnar á virðisaukaskattinum. Ég hef almennt verið þeirrar skoðunar að þessi skattur ætti að vera sem breiðastur og með sem fæstum undanþágum og hefði verið mikilvægt að ná samstöðu um það strax í upphafi. Ég tel hins vegar að þegar hugað er að breytingum núna í því erfiða ástandi í atvinnumálum sem ríkir þá verði að taka sérstakt tillit til þess. Við í minni hlutanum erum þeirrar skoðunar að þessi breyting muni ekki skila sér í þeim tekjuauka sem ætlað er, sérstaklega vegna þess að hún mun leiða af sér minni umsvif í atvinnulífinu. Sem dæmi má nefna að virðisaukaskattur á ferðaþjónustuna mun leiða til samdráttar í atvinnulífinu og þeirri atvinnugrein og fækka störfum á tímum vaxandi atvinnuleysis. Þetta leiðir aftur til minni skatttekna ríkissjóðs, minni veltu í þjóðfélaginu, lækkun þjóðartekna og þar af leiðandi ekki skila sér til ríkissjóðs eins og menn ætla. Við teljum þetta óskynsamleg ráðstöfun við þessar aðstæður.
    Ég vil í þessu sambandi nefna að það hafa verið uppi umræður um það í Danmörku að breyta virðisaukaskattinum, sem lagður er þar á hótelgistingu, þannig að þeir sem greiða virðisaukaskatt geta dregið hann frá. Það er að vísu nokkuð annað mál en hér er verið að tala um en sem dæmi um það mat sem lagt er á þetta mál í Danmörku, þá er því haldið fram að ef farið væri út í þessa aðgerð í Danmörku kæmu þá þegar 2.000 ný störf en ef það er ekki gert muni 10.000 störf tapast í Danmörku. Ekkert slíkt mat hefur verið lagt á þetta mál hér á landi. Við höfum farið fram á það við Þjóðhagsstofnun að hún geri það. Þjóðhagsstofnun hefur ekki lokið því mati sínu en við áttum von á slíku áliti frá þeim í dag. ( Gripið fram í: Það var að koma.) Það var að koma. Svona er þetta mál að gögnin eru smátt og smátt að berast í ræðustól og það er dæmi þess að málið er illa undirbúið og ekki tími til að gera sér grein fyrir afleiðingunum. Ég ætla ekki að lesa þetta álit hér, hæstv. forseti. Það mun ég fremur gera síðar í þessum umræðum sem ég reikna með að verði alllangar og sé ekki ástæðu til að gera grein fyrir því núna og síðan munu aðrir fulltrúar minni hlutans áreiðanlega koma að þessu.
    En auðvitað er nauðsynlegt að komast að niðurstöðu um það hvaða afleiðingar slík ákvörðun hefur við núverandi aðstæður og til lengri tíma fyrir þjóðfélagið og fyrir ríkissjóð. Það er ekki nægilegt að minnka halla ríkissjóðs við þessar aðstæður. Ef það verður til þess að minnka þjóðartekjur og auka atvinnuleysi þá er það óskynsamlegt því eftir því sem fleira fólk hefur atvinnu þeim mun fleiri borga skatta og skyldur til ríkisins og þeim mun fleiri búa við þau mannréttindi að hafa atvinnu. En þetta er ekki haft í huga þegar þetta mál er skoðað.
    Að vísu hefur áformunum verið frestað nokkuð og síðan er til athugunar hvort ekki sé rétt að heimila þessum aðilum að draga frá kostnað vegna þessa mála, en það er eins og annað ekki ljóst og ekki búið að ganga frá því. ( VE: Það er nógur tími eftir áramót.) Það er nógur tími eftir áramót, segir okkar ágæta afmælisbarn og er það vel. En ég er nefnilega á því að það hafi líka verið nógur tími fyrr á árinu og það verði í sjálfu sér ekkert meiri tími á næsta ári en hefur verið á þessu ári. Ég hef ekki séð það að menn vinni að málum með því hugarfari og hef enga sannfæringu fyrir því að þetta mál komi betur undirbúið fyrir þingið síðar á næsta ári.
    Í þessu sambandi er fróðlegt að gera sér grein fyrir umsögnum sem koma frá þeim aðilum sem starfa í þessari atvinnugrein. Hvað segir Vinnuveitendasamband Íslands um þetta mál? Ég ætla ekki að vitna í nema eina setningu eða tvær í þeirra áliti, með leyfi forseta:
    ,,Það væri grátbroslegt framlag stjórnvalda til atvinnuuppbyggingar og í reynd sértæk skattheimta á það sem menn vona að nú geti orðið vaxtarbroddur í atvinnumálum framtíðarinnar. Þessi skattheimta má ekki ganga fram eins og boðað er því hækkun á borð við tveggja ára verðbólgu í OECD-ríkjunum hlýtur að leiða til kyrkings í atvinnugreininni.``
    Þetta eru stór orð. Það eru stór orð þegar því er haldið fram að ákveðin aðgerð muni leiða til kyrkings í atvinnugreininni. En það er ekki einu sinni gefinn tími til þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum eða biðja um úttekt á þeim. Það er fyrst eftir að stjórnarandstaðan fer fram á það að Þjóðhagsstofnun gerir það. Ég á í sjálfu sér ekki von á að Þjóðhagsstofnun geti á þeim stutta tíma sem var til ráðrúms gert sér nægilega góða grein fyrir því og það þurfi lengri tíma í því sambandi. En vonandi er það rétt hjá hv. formanni nefndarinnar að menn muni gefa sér góðan tíma til þess að draga úr þessum kyrkingi og taka ákvarðanir sem koma í veg fyrir það og er það vel.
    Í umsögn Félags íslenskra ferðaskrifstofa segir m.a.:
    ,,Því harmar Félag íslenskra ferðaskrifstofa að um leið og áralöng barátta ferðaþjónustu á Íslandi fyrir jafnræði gagnvart öðrum gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum hvað varðar aðstöðugjald og tryggingagjald er að bera árangur er sá ávinningur samtímis dreginn til baka og gott betur með álagningu virðisaukaskatts.``
    Og í umsögn Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda, segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Á haustmánuðum fóru fram viðræður við fulltrúa stjórnvalda um það hvernig hægt væri að bæta rekstrarskilyrði ferðaþjónustu í síaukinni samkeppni á alþjóðlegum vettvangi. Það var því mikið áfall fyrir ferðaþjónustuna að svarið skyldi vera aukin skattheimta.``
    Hér er staðfest að það hafa átt sér stað viðræður milli stjórnvalda og atvinnugreinarinnar um þessi mál og væri fróðlegt að fá hæstv. samgrh. hingað til þess að gera grein fyrir því hvernig þessar viðræður hafa farið fram og hvað hafi farið á milli hæstv. samgrh. og þessara aðila því þeir segja beinlínis hér að þeir séu að fá svar frá hæstv. samgrh. og ríkisstjórn við þessari málaleitan. Og svarið er: 14% virðisaukaskattur.
    Hæstv. forseti. Þótt ég hafi léð samþykki mitt við því að hæstv. fjmrh. væri ekki viðstaddur um stund er erfitt að sætta sig við að hér skuli ekki vera einn einasti fulltrúi ríkisstjórnarinnar til að fylgjast með þessu máli. ( Forseti: Hæstv. samgrh. virðist t.d. vera í húsinu. Óskar hv. þm. eftir að tala við hann?)

Já, ég óska eftir nærveru hæstv. samgrh. þó ekki væri til annars en að hafa hér einn fulltrúa frá ríkisstjórninni. Ég get vel skilið að hæstv. ríkisstjórn hefur miklu að sinna. En ég tel lágmark að a.m.k. einn fulltrúi frá ríkisstjórninni sé viðstaddur umræðuna. ( Forseti: Forseti tekur undir það með hv. þm. og gerir ráðstafanir til að hæstv. samgrh. komi á þingfundinn.)
    Nú kemur hæstv. samgrh. í salinn. Ég var að segja það, hæstv. samgrh., að í því mikla og stóra máli sem þetta skattalagafrv. er og sem hefur margvísleg áhrif í samfélaginu sé lágmark að einn fulltrúi ríkisstjórnarinnar sé viðstaddur umræðuna. Ég veit að hæstv. samgrh. er sammála mér í því mati því miðað við hvað ríkar kröfur hann gerði til ríkisstjórnar á síðasta kjörtímabili átti ég von á að hann hefði talið að það væri lágmark að hafa mun fleiri ráðherra viðstadda.
    Ég var að ræða um virðisaukaskatt á ferðaþjónustu, hæstv. samgrh., og vitnaði m.a. til umsagnar Vinnuveitendasambands Íslands í þessu máli en þeir segja m.a. í sinni umsögn:
    ,,Það væri grátbroslegt framlag stjórnvalda til atvinnuuppbyggingar og í reynd sértæk skattheimta á það sem menn vona nú að geti orðið vaxtarborddur í atvinnumálum framtíðarinnar. Þessi skattheimta má ekki ganga fram eins og boðað er því hækkun á borð við tveggja ára verðbólgu í OECD-ríkjunum hlýtur að leiða til kyrkings í atvinnugreininni.``
    Nú er það upplýst að ýmsar aðrar þjóðir líta til þessara mála og það hefur farið fram mat á því m.a. í Danmörku hvað ákveðin aðgerð í skattamálum hótelanna geti skapað mörg störf. Jafnframt er vitað að Ísland er tiltölulega dýrt ferðamannaland og á í vaxandi samkeppni á alþjóðavettvangi. Það eru að opnast möguleikar til ferðalaga til landa sem ekki hefur verið hægt að fara til á undanförnum áratugum, eins og Austur-Evrópu. Því er um að ræða vaxandi samkeppni á þessu sviði.
    En ástæðan fyrir því að ég vildi fá hæstv. samgrh. hingað er að fá álit hans á því hvaða viðræður hafi átt sér stað við þessa aðila því að í umsögn Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda segir m.a., hæstv. samgrh., með leyfi forseta. Ég ætla að endurtaka það:
    ,,Á haustmánuðum fóru fram umræður við fulltrúa stjórnvalda um það hvernig hægt væri að bæta rekstrarskilyrði ferðaþjónustu í síaukinni samkeppni á alþjóðavettvangi. Það var því mikið áfall fyrir ferðaþjónustuna að svarið skyldi vera aukin skattheimta.``
    Ég skil þessi ummæli á þann hátt, hæstv. samgrh., að þeir líti á þetta frv. sem svar við þessari málaleitan. Er það merkilegt að svara svo alvarlegu máli sem þessu með beinu frv. á Alþingi en ræða ekki áfram við þessa aðila og reyna að gera sér einhverja grein fyrir afleiðingunum. Við fulltrúar í minni hlutanum spurðum um það hvaða áhrif þetta muni hafa á íslenska ferðaþjónustu í framtíðinni. Það hafði enginn slíkur útreikningur farið fram. Enda er það upplýst að menn vita ekki einu sinni nákvæmlega hvernig þessi skattur á að vera. Eina sem menn gera nú er að ákveða að hann skuli lagður á. Síðan er boðað að það eigi að taka til endurskoðunar á næsta ári og taka jafnvel inn frádráttarliði til að koma til móts við þessa skattheimtu. Hvers konar vinnubrögð eru þetta, hæstv. samgrh.? Af hverju er þetta mál ekki almennilega unnið og tekin ákvörðun um það hver skatturinn á að vera og hver frádrátturinn á að vera og menn reyni að gera sér grein fyrir því hvort hér verði um samdráttaráhrif að ræða í þjóðfélaginu eða ekki? Ef þessi aðgerð verður til að fækka störfum og leiðir til minni þjóðartekna þá er þessi ákvörðun mikill skaði fyrir íslenskt þjóðfélag. Og menn mega ekki vera svo blindir að líta alltaf eingöngu á útkomu ríkissjóðs í þessu sambandi.
    Ég veit ekki betur en hæstv. samgrh. hafi m.a. beitt sér fyrir sérstökum atvinnuskapandi aðgerðum í vegagerð og í viðhaldi opinberra mannvirkja. En það er til lítils, hæstv. samgrh., að taka ákvörðun um atvinnuskapandi aðgerðir á einu sviði en taka síðan ákvörðun á öðrum sviðum sem dregur það allt til baka og miklu meira til. Það er ekki von að aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar launþega hafi mikið traust til ríkisstjórnar sem hagar sér með þeim hætti og tekur eina ákvörðun í dag og aðra á morgun og hefur enga heildarsýn í málinu. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hæstv. samgrh. geri grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta muni hafa og hvaða mat hann hefur lagt á það hvað íslensk ferðaþjónusta muni dragast saman af þessum sökum. Auðvitað á Alþingi ekki að láta ríkisstjórn komast upp með það að ganga frá málum með þessum hætti, ekki einu sinni stuðningsmenn ríkisstjórna.
    Síðan er komið að því að ríkisstjórnin hefur tekið aðra ákvörðun sem er virðisaukaskattur á tímaritaútgáfu og bókaútgáfu. Er það í sjálfu sér ekki málefni hæstv. samgrh. og ég gæti vel sætt mig við að hæstv. samgrh. væri hér ekki lengur og hæstv. menntmrh. kæmi í hans stað en auðvitað væri betra að hafa þá báða. Einnig er nauðsynlegt að hæstv. iðnrh. komi til að gera grein fyrir virðisaukaskatti á húshitun og þeirri jöfnun sem á að ráðast í í framhaldi af því. ( Forseti: Óskar hv. þm. eftir því að hæstv. menntmrh. komi á fundinn núna?) Já, ég óska eftir því. Er hann í húsinu? ( Forseti: Nei, hann er ekki í húsinu eins og er.) Það er e.t.v. hægt að koma því við að hann komi hingað síðar. Ég vil hafa fullan skilning á annríki ráðherra og ætla mér ekki að stöðva mína ræðu af þeim sökum. En hugsanlega kemur hæstv. fjrmh. hingað fljótlega aftur. En ég vildi spyrja hæstv. forseta: Er meiningin að halda áfram alveg stöðugt eða er hugmyndin að gera hlé? Þá mundi ég geta tekið ákvörðun um það hvort ég geymdi þann hluta ræðu minnar sem varðar þessa hæstv. ráðherra. ( Forseti: Forseti hafði gert grein fyrir því í upphafi fundar að það er meiningin að gera hlé á fundinum um kl. eitt í klukkutíma. Ef hv. þm. lýkur ekki ræðu sinni um eittleytið væri óskað eftir því að hann gerði hlé á máli sínu í u.þ.b. klukkustund.) Já, virðulegur forseti. Ég mun þá geyma þetta mál og get snúið mér að öðrum þáttum fram til kl. eitt til að tíminn sé notaður til hins

ýtrasta.
    Ég skal þá snúa mér að atriði sem ég hefði að vísu þurft að ræða við hæstv. fjmrh. um en get alveg eins rætt við hæstv. samgrh. Það er sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Ég get að sjálfsögðu rætt það mál sérstaklega við hv. formann efh.- og viðskn. (Gripið fram í.) Já, hann þarf að bregða sér frá eins og aðrir. En það er alveg nóg að geta rætt það við hæstv. samgrh.
    Þessi skattur er orðinn fimmtán ára gamall. Ekki veit ég nákvæmlega hvort hann á fimmtán ára afmæli í dag en það er búið að leggja hann á fimmtán sinnum. Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af þessum skatti í upphafi. Mér er nær að halda að ég hafi ekki verið á Alþingi þegar hann var lagður á, þó má það vel vera og ber áreiðanlega fulla ábyrgð á honum því ég hef oft samþykkt hann. (Gripið fram í.) Það gæti verið að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi verið einn af þeim sem hugsuðu þetta upp. Ég er helst á því að það hafi gerst um það leyti sem ný ríkisstjórn kom 1978 og er það þá rétt munað hjá mér að ég hafi ekki verið á Alþingi. En þessi skattur hefur verið lagður á fimmtán sinnum og jafnoft hefur Sjálfstfl. barist gegn honum. Er það orðin allmerkileg saga að hafa verið í fimmtán ára baráttu gegn ákveðnum skatti og að nú skuli það lagt til af fjmrh. Sjálfstfl. að framlengja þennan skatt eitt ár í viðbót. Alltaf hefur það verið með þeim hætti að skatturinn hefur verið lagður á til bráðabirgða ( Landbrh.: Það er svo með suma baráttu að hún er eilíf.) Baráttan er oft eilíf, hæstv. samgrh. En menn ættu þá kannski að gera minna af því að lýsa því yfir fyrir kosningar að þessi skattur og hinn verði aflagður eða lýsa því yfir fyrir kosningar að menn muni aldrei hækka skatta og ganga svo langt fram í því að menn leggja nánast höfuðið að veði.
    Ég lýsti því ekki yfir eða Framsfl. fyrir síðustu kosningar að skattar yrðu alls ekki hækkaðir. Ég man ekki betur en formaður okkar flokks, hv. þm. Steingrímur Hermannsson, hafi látið þau orð falla skömmu fyrir kosningar að hann gerði sér grein fyrir því að það gæti komið til þess að það yrði að hækka skatta eitthvað. Og ég man eftir viðbrögðum hv. þm. Sjálfstfl. Að þarna væri nú Framsfl. rétt lýst. Skattpíningarflokknum sem ætlaði að hækka skattana á fólki að kosningum loknum og voru svo hneykslaðir að þeir máttu varla mæla. Ég gæti trúað því að hæstv. samgrh. hafi verið í þessum hópi. En hvað gera þessir menn að kosningum loknum? Þeir hika ekki við að hækka skatta. Þeir hika ekki við að framlengja skatta sem þeir hafa barist á móti í fimmtán ár. Er þetta ekki nægileg vísbending þess, hæstv. samgrh., að það er rétt að hætta þessum leik og rétt að segja við fólk eins og hlutirnir eru: Að það verði að sjálfsögðu að taka mið af aðstæðum á hverjum tíma.
    Ég get verið sammála hæstv. samgrh. og talsmönnum ríkisstjórnarinnar í þeim efnum að það er eitt mikilvægasta verkefnið að halda útgjöldum ríkissjóðs í skefjum. Ég veit að það er ekki létt verk. Og ég skil erfiðleika ríkisstjórnarinnar og samgrh. í þeim efnum. En þetta mál er besta sönnun þess og besta dæmið um það hvað er lítið að marka yfirlýsingar þessara manna. Ég vænti þess að þetta verði til þess, hæstv. samgrh., að þú og þinn flokkur fyllist ekki sömu vandlætingunni fyrir næstu kosningar ef einhver skyldi halda því fram að það gæti verið að það þyrfti að breyta einhverjum sköttum í framtíðinni. Eða vill hæstv. samgrh. gera eins og á sumum sviðum, bæði í þessu frv. og að því er varðar sérstakan skatt á sjávarútveginn, sem hann hefur samþykkt eftir því sem mér skilst að leggja á á árinu 1996, að ákveða hvernig skattarnir eigi að vera almennt á næsta kjörtímabili? Við höfum gert okkur vonir um það nokkrir á Alþingi að losna við þessa ríkisstjórn a.m.k. í næstu kosningum og helst fyrr og erum alveg mótfallnir því að Alþfl. geti ákveðið það í gegnum Sjálfstfl. hvernig skattheimtu skuli háttað á næsta kjörtímabili. Og ég heyrði það vel á hv. þm. Eggert Haukdal að hann var mér sammála í því mati.
    Þetta er atriði sem ég vænti að Sjálfstfl. láti sér að kenningu verða og hagi málflutningi sínum þannig að hann verði traustvekjandi og að fólk hætti að trúa því að það sé einhver trygging fyrir óbreyttum sköttum að hafa þessa menn í valdastólum. Ég tel að þetta frv. sé besta yfirlýsingin sem hefur komið frá Sjálfstfl. um að það er að sjálfsögðu engin trygging fyrir því að skattar breytist ekki að hafa þessa menn í valdastólum. Og auðvitað er betra að þar séu aðilar sem tala um hlutina eins og þeir eru. Því það er ekki hægt að lýsa því yfir í eitt skipti fyrir öll að skattar eigi aldrei að breytast.
    Einu atriði vildi ég koma að meðan hæstv. landbrh. er hér inni. Það er álagning svokallaðs landsútsvars. Skal ég hefja mál mitt á atriði sem ég hefði ekki viljað byrja á en geri það vegna nærveru hæstv. ráðherra. Það er landsútsvar á Áburðarverksmiðju ríkisins. Fylgifrv. þessa frv. gerir ráð fyrir því að landsútsvar verði lagt áfram á Áburðarverksmiðju ríkisins. Hæstv. landbrh. hefur lýst því yfir að hann geri ráð fyrir að það þurfi að loka þessari verksmiðju eftir, ég held, árið 1996. Það er margt sem á að gerast þá. Ég er ekki svo svartsýnn að ætla að það eigi að ganga út frá því að Áburðarverksmiðjan geti ekki starfað áfram. Ég er þeirrar skoðunar að það megi vel skapa henni þá stöðu að hún geti keppt við aðra aðila. Þetta er fyrirtæki sem skuldar sáralítið og á að hafa alla burði til að halda áfram að framleiða fyrir innlendan markað. En það mun að sjálfsögðu ekki hafa neina burði til þess, hæstv. samgrh., ef samkeppnisskilyrði þessarar starfsemi er allt önnur en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Og hvernig í ósköpunum má það vera að hæstv. landbrh. er tilbúinn að mismuna þessu fyrirtæki og öðrum fyrirtækjum og öðrum atvinnurekstri í landinu og leggja gjöld á hana sem ekki verður lagt á annan atvinnurekstur?
    Ég tel nauðsynlegt að hæstv. landbrh. upplýsi það hvort hann getur fellt sig við þetta. Kannski er með þetta eins og flest annað að hæstv. ráðherrar og stjórnarmeirihlutinn ætli sér að taka tíma í það á næsta ári að athuga þetta mál betur. Ég vænti að svo sé en þeir hefðu betur gefið sér betri tíma í það á því ári

sem nú er senn á enda. Að því er varðar landsútsvarið að öðru leyti þá er það skattur sem má rekja til veltuútsvarsins á sínum tíma. Og þegar veltuútsvarið var lagt niður var tekið upp aðstöðugjald og landsútsvar. Þessir skattar báðir, landsútsvarið og aðstöðugjaldið, eiga sama uppruna og eru þar af leiðandi alveg sambærilegir skattar.
    Það hefur hins vegar verið ákveðið af hæstv. ríkisstjórn að leggja aðeins niður annan skattinn. Margir lögfræðingar telja hæpið að það standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Nú hefur komið fram hjá hæstv. forsrh. og hann lýst yfir mikilli hneykslan vegna þess dóms sem nýlega er fallinn í svokölluðu BHMR-máli. Þar hafi fyrrv. ráðherrar staðið að málum með þeim hætti að þeir fengju í dómi Hæstaréttar að þar hafi um stjórnarskrárbrot verið að ræða og hefur m.a. rætt það í samhengi við inngönguna í EES. En það er mikil hætta á því, hæstv. samgrh., að hér séu menn alveg á mörkum þess sem stjórnarskráin heimilar og mikil hætta er á því að þessi skattlagning standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. ( Forseti: Forseti vill ítreka það sem kom fram áðan að gert var ráð fyrir að gera hlé á fundinum um eitt leytið. Hentar það hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni nú?) Já, það getur hentað þingmanninum ágætlega og mun ég gera hlé á ræðu minni. --- [Fundarhlé.]