Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 14:41:56 (3781)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil bara segja það að ég er ekki sammála því að óskynsamlegt sé að afgreiða þetta mál nú fyrir jólin. Ég tel að það sé afar mikilvægt að ná fram þeirri aðstöðugjaldslækkun sem felst í þessum aðgerðum og það skipti afar miklu máli fyrir samkeppnisstöðu atvinnulífsins og atvinnu í landinu. Ég vil líka leyfa mér að efast um það að sú leið, sem að hv. síðasti ræðumaður, 1. þm. Austurl., nefndi, sé endilega sú skynsamlegasta, þ.e. þar sem hann talar um að hækka skattprósentuna og skattleysismörkin til þess að ná inn þeim tekjum sem tapast vegna aðstöðugjaldsins. Ég vil einfaldlega benda á ef slíkt er gert og allt tekjutapið vegna aðstöðugjaldsins tekið út í því að hækka skattprósentuna og skattleysismörkin og ef að menn ætla líka að halda þá skattleysismörkunun óbreyttum þá gætum við verið að tala um almenna tekjuskattsprósentu sem væri farin að nálgast 45%. Þegar prósentan er komin í slíkar hæðir þá er venjulegt fólk, láglaunafólk, einfaldlega komið í þá stöðu að það hefur minna upp úr eftirvinnu en dagvinnu og ég held að það þurfi að skoða þá leið líka betur. Ég er ekki viss um að það hafi verið skynsamlegra. Í rauninni held ég að þegar menn eru að gera svona hluti hafi sú leið, sem var farin, þessi blandaða leið að lækka aðeins persónuafsláttinn, hækka aðeins prósentuna og taka upp hátekjuskattinn, samhliða því að hækka aðeins virðisaukaskattinn, ekki verið óskynsamlegri en hver önnur og ekki síst sú leið sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson nefndi, þ.e. að fara eingöngu þá leið að hækka skattleysismörkin og prósentuna.