Heilbrigðisþjónusta

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 18:03:28 (3797)

     Frsm. heilbr.- og trn. (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, sbr. lög nr. 86/1991. Frv. er að finna á þskj. 486 og er flutt af heilbr.- og trn.
    Samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, var gert ráð fyrir að frá og með 1. jan. 1991 yrði heilsugæslustarfi í Reykjavík og starfsemi Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur þannig háttað að lög nr. 44/1955, heilsuverndarlög, sbr. lög nr. 28/1957, yrðu óþörf og féllu því úr gildi. Hins vegar vannst ekki tími til að ganga frá nauðsynlegum breytingum á heilbrigðisþjónustulögunum varðandi starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar fyrir árslok 1991 og var því með lögum nr. 86/1991 veittur eins árs frestur til viðbótar því sem upphaflega var ákveðið í lögunum.
    Nýlega hefur heilbr.- og trmrh. látið semja frv. til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu þar sem gerðar eru tillögur um hlutverk Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Í frv. er lagt til að heilsuverndarstarf færist til Heilsuverndarstöðvarinnar og að stofnuninni verði skipuð sérstök stjórn. Ljóst er þó að ekki er nægur tími til að afgreiða það frv. fyrir áramót og er því með þessu frv. lagt til að bráðabirgðaákvæði laganna um heilbrigðisþjónustu verði breytt á þann veg að veittur verði eins árs frestur til viðbótar til að ganga frá lögum um framtíðarhlutverk Heilsuverndarstöðvarinnar.
    Virðulegur forseti. Ég tel óþarft að vísa þessu máli til nefndarinnar þar sem nefndin flytur frv. og legg til að því verði vísað til 2. umr.