Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 18:46:43 (3808)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég rakti það í ræðu minni að ríkisstjórnin gefur með annarri hendinni og tekur með hinni. Það rekur sig hvað á annað. Vissulega er verið að létta af aðstöðugjaldinu og ég styð það. Þessi skattur hefur komið afar mismunandi við fyrirtæki og í þeirri aðlögun sem þarf hugsanlega að eiga sér stað með breyttum aðstæðum er þetta nauðsynlegt. En ekki er sama hvað er gert og hvernig það er gert. Það er ekki réttlætanlegt að leggja auknar skattbyrðar á fólk sem hefur tekjur á bilinu 60, 70 eða 80 þús. kr. Það er ekki hægt að samþykkja slíkt. Þegar hv. þm. rökstyður mál sitt þá gleymir hann því að þessar auknu skattbyrðar munu verða til þess að fólk verður að draga saman seglin í lífsbaráttu sinni. Það leiðir svo af sér minni tekjur ríkisins þannig að hér bítur hvað í skottið á öðru. Ég verð að segja að þessi aðgerð sem hér er lögð til, 400 kr. lækkun á persónuafslættinum, er siðlaus. Hún er siðlaus.