Samkomulag um kvöldfund

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 18:51:24 (3811)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að hv. þm. Ingi Björn Albertsson minnti á staðreyndir áðan um stjórnun þingsins og meðferð á því fólki, sem hér vinnur, og fer allt fram á ábyrgð hæstv. forseta. Það er ljóst og það er gott þegar einn og einn maður hefur langtímaminni. Ég tek undir það með honum að mér finnst vinnubrögð hér hafa breyst mjög á hinn verri veg. Sjálfstfl. var í stjórnarandstöðu á árunum frá haustinu 1988 til vors 1991. Sjálfstfl. gerði á þeim tíma skýlausa kröfu um að ekki yrði keyrt kvöld eftir kvöld eða nótt eftir nótt í fundahöldum. Að mati Sjálfstfl. á þeim tíma var hámark einn kvöldfundur í viku. Þetta urðu vinnubrögð Alþingis og fór allþokkalega á því. Þingið var með öðrum svip hvað þetta varðaði þegar svona var unnið.
    Þinghaldið er á ábyrgð hæstv. forseta. Nú hefur hæstv. forseti verið minntur á það að alþingismenn eiga fjölskyldur. Jólin eru fram undan og menn verða að virða þau mannréttindi sem hér er rætt um. Þess vegna skora ég á hæstv. forseta að hverfa frá kvöld- og næturfundi. Ríkisstjórnin er hvort sem er með öll vinnubrögð sín í molum. Henni væri farsælla að sitja heima við vinnu sína en láta þingið starfa í kvöld og nótt, fimmta kvöldið, fimmtu nóttina í röð. Síðan leyfa forustumenn ríkisstjórnarinnar sér að ganga í fjölmiðlum þjóðarinnar og svívirða Alþingi fyrir vinnubrögð. Þetta er látið óátalið af æðstu stjórn Alþingis um þessar mundir. Ég vil líka spyrja hæstv. forseta: Ekki er nóg að verið sé að keyra fimmta kvöldið og inn í fimmtu nóttina heldur stendur líka til að Alþingi starfi á morgun, laugardag. Stendur kannski einnig til að þingið starfi á sunnudaginn kemur? Það er eins gott að fá þetta upplýst. Ég álít að einhver hluti þingflokksformanna geti ekki ráðgast svo með vinnutíma þingsins. Það hlýtur að vera á ábyrgð æðstu stjórnar þingsins og ég treysti á að hæstv. forseti Alþingis taki af skarið og láti ekki níða þingið eins og ráðherrar hafa leyft sér.