Samkomulag um kvöldfund

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 21:00:25 (3825)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég tel að það hafi verið skv. 59. gr. sem forseti sleit fundi áðan. Það er heimilt að gera það og ekkert við því að gera. En það er aftur á móti alveg vonlaust að gera ráð fyrir því að boðið sé upp á það að menn í bræðiköstum rjúki í þennan stól til að halda því fram að viðtöl, sem menn eiga við samflokksþingmenn sína, standist ekki. Ég spurði hv. þm. Jón Helgason að því hvort hann hefði samþykkt kvöldfund. Svarið var nei. Hann sagðist ekki hafa samþykkt neinn kvöldfund. Þá er því haldið fram að formaður Framsfl. hafi samþykkt kvöldfund. Ég hef ekki sagt neitt um það hvort hann hafi gert það eða ekki, ég sé hann ekki í þingsalnum. Hafi verið samþykktur kvöldfundur á þann veg að hann hefur hugsað sér að samþykkja hann án þess að vera hér þá er það auðvitað hans mál. En ég mótmæli þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð að þessu þingi sé stjórnað frá Brussel. Ég mótmæli því. Ég mótmæli þeim skrípaleik að forseti þingsins starfi eins og honum komi stjórnarandstaðan ekkert við. Ég mótmæli þeim skrípaleik. Ég fer fram á það að hér verði stöðvaður kvöldfundur á þessu kvöldi. Það er eðlileg krafa. Hér hafa verið fundir, kvöld eftir kvöld og næturfundir. Þegar hv. þm. Geir H. Haarde er orðinn það vanstilltur á skapsmunum að hann er farinn að berja húsgögnin þá geta menn séð hvert álagið er orðið á þingmönnum því það geta allir borið um það vitni að að eðlilsfari er hann dagfarsprúður. ( ÖS: Og elskulegur.) Og elskulegur. Menn verða að átta sig á því að það hljóta að vera einhver takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða mönnum upp á í vinnubrögðum á Alþingi Íslendinga, það hljóta að vera einhver takmörk fyrir því. Ég hef ekki trú á því að það sé hægt að finna eitt einasta fordæmi fyrir þeim vinnubrögðum sem núv. forseti hefur innleitt á Alþingi Íslendinga, ekkert einasta fordæmi frá fyrri árum.
    Hér virðist hugsunin vera sú að þjóna ráðherrunum, fara eftir öllum þeirra duttlungum, valtra yfir minni hlutann hvenær sem mönnum dettur í hug. Þetta kostar stríð hér í þinginu ef þessum vinnubrögðum verður fram haldið.