Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 21:39:07 (3832)

     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti og hæstv. ráðherra líka. Við náum seint samstöðu um hrun heimilanna. Ég held við náum aldrei saman um það. Það er allt í lagi að velta byrðunum frá fyrirtækjunum en það má ekki velta byrðunum yfir á þá sem kikna undan þeim. Það er það sem við erum að tala um og ég vona að ráðherrann skilji það. Það er verið að velta byrðunum yfir á þá sem ekki standa undir þeim. Þetta er grundvallaratriði.
    Varðandi aðstöðugjaldið kemur það auðvitað til góðs fyrir verslunina líka, en það breytir því ekki að sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði er áfram mismunun. Það breytir því ekki neitt. Það er enn verið að taka þessa sérstöku grein út úr og skattleggja hana. Þó við höfum linað þjáningarnar á einu sviði sem gekk yfir alla línuna þá er nákvæmlega sama mismunin enn til staðar. Ég vona að ráðherrann sé mér sammála um það. Ég er alveg sammála honum um að auðvitað á að dreifa vandanum á sem flesta og það er einmitt það sem ég er að tala um. Það á ekki að setja byrðar á þá sem ekki geta risið undir þeim. Málið er einfalt.
    Ég ætla hins vegar að ítreka þá spurningu sem ég var með áðan sem er grundvallarspurningin: Hvernig á fólk að rísa undir því? Ég lýsi yfir fullum stuðningi við málið, ef það er hægt að sýna mér fram á það. Þetta er bara ein spurning og þá er komið já á takkann þarna.