Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 23:02:19 (3841)

     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Margt fróðlegt kom fram í orðum hv. 11. þm. Reykv. Það er tvennt sem mig langar að nefna við hann í sambandi við þetta fólk sem er liðlega fimmtugt og er mér málið skylt að því leyti sem snýr að aldrinum. Þetta fólk fór í nám, jafnvel til útlanda, í bjartsýni og trú með námslánafyrirgreiðslu upp á þrjá mánuði af tíu mánaða skólum. Þetta fólk er foreldrar barnanna, þess unga fólks sem hann talar um sem er 25--30 ára nú og er að reyna að byggja upp þjóðfélag fyrir sig að búa í.
    Hv. þm. sagði líka: Þetta er allt heimatilbúinn vandi. Aflasamdráttur upp á 200 þús. tonn af þorski, heimatilbúinn. Verðlækkun á mörkuðum, heimatilbúinn vandi. Minnkandi sala afurða vegna samdráttar í nágrannalöndunum, heimatilbúinn vandi. Harðnandi samkeppni erlendis, heimatilbúinn vandi. En það er heimatilbúinn vandi til staðar, hv. þm., og hann er 11 milljarða vaxtakostnaður. Annar vandi verður heimatilbúinn og hann er ef þeim sem það vilja tekst að afstýra því að hér verði samþykktur samningur um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ég ætla líka að nefna það að þingmaðurinn las upp úr stefnuskrá Alþfl. frá árinu 1987. Það var góður bæklingur með góð markmið og við þau hefur verið staðið í störfum Alþfl. og hann mun standa við þau markmið sem og önnur sem hann hefur sett fram. En það vantaði mikilvægt atriði í þennan bækling vegna þess að þá óraði okkur ekki fyrir því hversu mikilvægt það yrði síðar, núna við aðrar aðstæður í þjóðlífinu, nefnilega það sem yrði tillaga mín nú ef ég væri að búa til kosningabækling og það yrði eina megináherslan ef ég gengi til kosninga, þ.e. að afstýra atvinnuleysi, að snúa vörn í sókn, að búa til ný störf. Svo í lokin, virðulegi forseti. Það skiptir ekki máli hvað stendur í bæklingum. Það skiptir máli hvaða verk eru unnin og með verkin höfum við alþýðuflokksmenn ávallt farið í kosningar.