Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 23:07:35 (3843)

     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum, það er allt afstætt, líka fyrirgreiðsla úr lánasjóði. Það sem á einum tíma þykir skerðing og slæmt hefði þótt glæsileg fyrirgreiðsla á öðrum tíma miðað við þá viðmiðun og þá kröfu sem viðkomandi setur um fyrirgreiðslu og þátttöku. Húsnæðislánafyrigreiðsla sem viðgengst í dag þekktist ekki á öðrum tíma og hefur verið byggð upp af því að það fólk sem á sínum tíma var við stjórnvölinn hafði skilning á því hvernig það var að byggja þak yfir höfuðið með enga eða litla fyrirgreiðslu. En allt snýst það sem við erum að gera hér nú um það sem ég sagði hér áður og það er að afstýra atvinnuleysi, snúa vörn í sókn og einmitt að taka á málum þannig að hér geti orðið blómlegur tími aftur og fyrirgreiðsla og það er það besta sem við gerum fyrir unga fólkið í dag.