Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 23:15:21 (3847)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um að hv. þm. viðurkennir vandann sem við stöndum frammi fyrir. Hann telur að fólk úti á landi skilji eingöngu það sem snýr að tekjuskattinum. Það vill svo til að ég þekki líka til fólks úti á landi, hef starfað lengi úti á landi við atvinnurekstur og ég veit að fólk úti á landsbyggðinni skilur það þegar verið er að færa skattinn af atvinnulífinu til einstaklinganna því að fólkið úti á landi og fólkið í Reykjavík er ekki eins vitlaust eins og sumir hv. þm. framsóknarþingmenn halda að það sé.
    Hv. þm. gerði síðan mikið úr því að það væri verið að ráðast á fólk á vissum aldri. Ég vil nefna barnabætur, námslán sem eru niðurgreidd, vaxtabætur, sem eru tekjutengdar bætur, tekið er fullt tillit til þess hvað menn hafa í tekjur.
    Loks er ekki úr vegi að fá svör við því sem hv. þm. svaraði ekki en áðan var komið að í öðru andsvari. Er það heimatilbúinn vandi þessarar ríkisstjórnar hvernig atvinnulífið er í stakk búið og var við upphaf þessa kjörtímabils? Er hallinn frá fyrri árum eingöngu þessari ríkisstjórn að kenna? Er það eingöngu þessari ríkisstjórn að kenna að sjóðirnir eru gjaldþrota þannig að bæta þarf 1.700 millj. í Framkvæmdasjóð, 1.200 millj. í Byggðasjóð, 1.800 millj. í Atvinnutryggingarsjóð og Hlutafjársjóð? Er það þessari ríkisstjórn að kenna? Eru ytri aðstæður þessari ríkisstjórn að kenna, viðskiptakjörin eða samdrátturinn í fiskveiðunum? Hv. þm. vék sér undan að svara þessum fyrirspurnum. Hann hefur tækifæri til þess nú.