Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 23:19:33 (3849)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er um við að ræða frv. um breytingar í skattamálum sem hlýtur að snerta alla þjóðina. Það hefur mikil áhrif, bæði á einstaklinga, heimili, fyrirtæki og sveitarfélög. Frá því í haust hefur mikið verið rætt í í þjóðfélaginu til hvaða aðgerða skyldi gripið í efnahagsmálum. Lengi voru umræður í gangi úti í þjóðfélaginu hjá aðilum vinnumarkaðarins, eins og það var kallað, hvernig bregðast skyldi við og menn biðu lengi og ræddu mikið saman. Allir vissu að fram undan væru erfiðleikar. En það var ekki beðið eftir því hvað kæmi út úr umræðunum. Ríkisstjórnin klippti á þær umræður 23. nóv. sl. með því að boða ýmsar aðgerðir í efnahagsmálum. Það er slæmt þegar ríkisstjórnin er að leika sér við að byggja loftkastala og keppist síðan við að rífa þá niður aftur. Það er slæmt fyrir atvinnulífið, fyrir þjóðlífið allt að geta ekki treyst á að þær tillögur sem koma fram séu varanlegar meira en örfáa daga. Það hefur sýnt sig að það sem átti að gera til bjargar fyrirtækjunum, þ.e. að lækka skattprósentuna úr 40% í 33% hefur tekið ýmsar æfingar, 33, 38, 39. Það endar núna í 39%. Sama máli gegnir um þær hugmyndir að leggja niður aðstöðugjaldið. Þó að það tilheyri ekki beinlínis þessu frv. þá kemur skattprósentan þó inn á þær aðgerðir. Lengi vel var ekki vitað á hvern hátt það yrði gert og þegar þær tillögur eru fram komnar kemur í ljós að það á að bæta sveitarfélögunum aðstöðugjaldið 80% og það er aðeins ákvörðun til eins árs.
    Yfirleitt bera ráðstafanir ríkisstjórnarinnar keim af því að það eru skammtímaráðstafanir. Ekki er horft til lengri tíma, ekki eru sett nein markmið um langtímaáætlun. Það er kastað fram hugmyndum, einni í dag og annarri á morgun.
    Ýmislegt hefur gengið á í sambandi við það hvort ætti að hafa eitt eða tvö skattþrep í virðisaukaskatti,

hvort það ætti að vera 14% eða 25% skattur eða hvort hann ætti að lækka allur, e.t.v. í 20--22%, hvort ætti að halda áfram að endurgreiða innskatt eða hætta því. Það liggur við að þau fyrirtæki sem þetta hefur snert hafi ekki haft undan að senda frá sér ályktanir eftir því hvað hefur verið ákveðið á hverjum degi. Út af fyrir sig er ég ekki ósammála því að hafa tvö skattþrep í virðisauka. Ég tel það ekki valda neinum sérstökum erfiðleikum. Í þeirri tölvubyltingu sem við búum við hér tel ég ekki nein vandkvæði að fylgja því eftir að reikna það út. Aftur á móti tel ég að það sé ekki rétt að þeim málum staðið með þeirri skattlagningu sem þar er sett á. Ef tvö skattþrep ættu að vera í virðisaukaskattinum þá ætti matur og menning að vera í lægra skattþrepinu.
    Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er heldur ekki tekið á svartri atvinnustarfsemi. Það hefur oft komið til umræðu hér á hinu háa Alþingi að nauðsynlegt væri að gera átak í þeim málum, að þeir væru allt of margir sem tækju ekki þátt í því að halda uppi velferðarþjóðfélagi okkar. Það er því miður enn og það mun ekki lagast við þær aðgerðir sem fyrirhugaðar eru að lækka skattprósentuna við endurgreiðslu af vinnu iðnaðarmanna við íbúðarhúsnæði. Það er alveg öruggt mál að það verður ekki til þess að skattheimtan verði betri hjá ríkissjóði, heldur þveröfugt, enda segir í áliti minni hluta efh.- og viðskn., með leyfi hæstv. forseta, að ummæli samtaka atvinnurekenda í landinu eru m.a. þessi:
    ,,Vaxandi óþols gætir meðal fyrirtækja í VSÍ gagnvart því ástandi sem ríkir að svört atvinnustarfsemi geti starfað og dafnað óáreitt``. Þeir rekja það nokkuð frekar.
    Ég er mjög ósátt við að það skuli eiga að setja virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Það er mjög óskynsamlegt að standa þannig að málum við þá starfsemi í íslensku atvinnulífi sem er helsti vaxtarbroddurinn og hefur átt mestan þátt í því að auka störf á undanförnum árum. Þá hefur Ferðamálaráð einnig gert áætlun til átta ára sem gerir ráð fyrir því að hægt sé að taka við allt að 2.200 nýjum störfum, þ.e. fimmti hver einstaklingur sem kemur út á vinnumarkaðinn geti fengið vinnu á næstu átta árum við ferðaþjónustu ef þannig væri staðið að málum. En hæstv. ríkisstjórn vinnur þvert á það markmið að efla ferðaþjónustu.
    Þá verð ég að segja að mér finnst 14% virðisaukaskattur, sem nú á að fara að leggja á húshitun, á orkufyrirtæki í landinu, furðulegur. Ef nauðsyn bar til að skattleggja orkufyrirtækin, að skattleggja þann stofn, þá hefði verið miklu raunhæfara og eðlilegra á allan hátt og sanngjarnara að leggja það á notkunina, á kílóvattstundina. Það hlýtur að koma mjög misjafnt niður eins og líka er sýnt á töflu sem er fskj. með áliti hv. minni hluta efh.- og viðskn. þar sem svo mikill munur er á hitunarkostnaði, í þeirri töflu sem þar er sýnd með. Þar er t.d. hæstur hitunarkostnaður á ári miðað við 400 rúmmetra húsnæði 89.682 kr. á ári, þ.e. þegar búið verður að leggja virðisaukaskattinn á. Í dag er hann 84.926. Þetta er hæsti hitunarkostnaður hjá hitaveitunni. En í dag er lægstur hitunarkostnaður að mér sýnist á Húsavík. Hann er þar 24.826 kr. og hann verður 28.302 á ári á meðan á Akureyri er 89.682 kr. Vitanlega sér hver maður að þar sem hitunarkostnaðurinn er þrefaldur þar kemur virðisaukaskatturinn þrefalt til hækkunar og vel það. Það að skattleggja húshitunarkostnaðinn er því ein alvitlausasta aðgerð sem gerð hefur verið, a.m.k. ef á að halda einhverjum jöfnuði í þeim málum, að ég tali nú ekki um það markmið hæstv. ríkisstjórnar sem hún setti fram þegar hún settist að völdum, að jafna orkukostnaðinn í landinu. Þau markmið fara gersamlega fyrir bí með þessari skattlagningu.
    Þá má nefna það að þessi 14% virðisaukaskattur kemur líka á skólaakstur, t.d. hjá sveitarfélögunum, hann kemur á akstur fyrir fatlaða og hann kemur á akstur almenningsvagna. Hann hlýtur því að verða til allmikils kostnaðarauka hjá sveitarfélögunum í landinu. Ef við ræðum aftur skattinn á orkuna þá leiðir hann einnig til hækkunar á rekstri dagvistarstofnana, rekstri íþróttamannvirkja, margs konar félagsmálastarfsemi og skólarekstri þannig að þessi nýi virðisaukaskattur mun verða til aukins kostnaðar á sveitarfélögin úti um landið og það mun koma harðast niður á dreifbýlinu.
    Í fyrstu voru hugmyndir ríkisstjórnarinnar að ná 500 millj. í ríkissjóð með því að lækka barnabætur. Ég verð að viðurkenna að þó að ég sé ekki hrifin af því að það skuli hafa verið tekið til þess bragðs að lækka persónuafsláttinn um 400 kr., þá finnst mér það þó sanngjarnari lausn og ég get orðað það svo að af tveimur slæmum kostum er það þó skárra. Það kemur þó öllu jafnar niður.
    Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta skattalagafrv. Mér sýnist það vera eins og ýmislegt sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn þessa dagana, frekar illa unnið. Skattalagabreytingar eiga ekki að koma fram á síðustu dögum ársins og það á ekki sí og æ að breyta skattalögum. Það skapar óvissu hjá almenningi, hjá fyrirtækjum, sveitarfélögum, hjá öllum í landinu. Hér er óskað eftir stöðugleika. Ríkisstjórnin segist stefna að stöðugleika. En enginn sýnir meiri óstöðugleika en hún. Ríkisstjórnin kastar á milli sín hugmyndum um skattheimtu, eitt í dag og annað á morgun. Í dag --- enn þá er 18. des., aðeins hálftími í 19. des. --- vita þessir aðilar ekki hverjar verða ráðstöfunartekjur heimila eða fyrirtækja á næsta ári. Skattabreytingar á að vinna með meiri fyrirvara en hér er gert. Gera þarf fjárlög til lengri tíma en eins árs í senn, vinna með meiri langtímasjónarmið í huga. Ef menn setja sér markmið, þá á að vinna þau og undirbúa af meiri fyrirhyggju en gert hefur verið við þessar skattalagabreytingar sem við erum að ræða þegar frumvörpum er kastað á borð þingmanna og þeim ætlað að vinna daga og nætur til að fara yfir þau. Er það boðlegt? Þeir eiga að leita umsagnar og koma með brtt. til að reyna að bæta illa unnin frumvörp á allt of skömmum tíma. Að mínu mati á ekki að vinna þannig á Alþingi Íslendinga.