Skattamál

86. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 01:04:13 (3865)

     Guðni Ágústsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég hygg að það sé lítil sátt um það að ljúka þessari umræðu. Ég hygg að mörgum þingmönnum búi það frelsi í brjósti að berjast gegn þessum skattaálögum. Þess vegna segir það kannski ekki alla söguna þó að tveir þingmenn séu á mælendaskrá. Fyrir utan hitt þegar hæstv. forsrh. líðst slík óvirðing að ef þingmenn vilja eiga við hann orðastað, þá sitji hann í hliðarherbergi.
    Ég lýsi því yfir, hæstv. forseti, að ég mun ekki sætta mig við það framferði af hálfu forseta að hæstv. forsrh. sýni þinginu þá fyrirlitningu að hann neiti að vera í sínu sæti. Hrokinn er nógu mikill. ( PP: Hann skrópar bara úr skólanum.) Því að hann leyfir sér síðan að ganga út um borgina og tala um Alþingi Íslendinga eins og skóla og fara um það háðulegum orðum. Ef það er framferði forseta Alþingis Íslendinga að líða forsrh. þetta framferði, þá er friðurinn úti. Og ég vil fara fram á það að hæstv. forseti kanni við hvaða störf hæstv. forsrh. var í kvöld. Ég fer fram á skýringu á því.
    Síðan bað ég hæstv. forseta --- þá sat að vísu hæstv. forseti Salome Þorkelsdóttir í forsetastól --- að kanna það hverjar hefðu verið vinnureglur á undanförnum þingum til þess að bera það saman því að Sjálfstfl. var gallharður á því atriði að kvöldfundir skyldu helst ekki vera fleiri en einn eða tveir í hverri viku þegar þeir voru í stjórnarandstöðu.
    Sannleikurinn er sá að það verður ekki liðið hér af forsætisnefndinni að níðast með þessum hætti á þinginu. Hér var af ásettu ráði EES-málið haft á dagskrá í þrjá sólarhringa til þess að þreyta menn og til þess að hrópa á frið þegar skattafrv. kæmu fram. Þess vegna hefur nú friðurinn verið rofinn af forsætisnefndinni og stjórnendum þingsins. Við erum ekki til friðs um þær miklu skattálögur sem nú á að leggja á fólkið í landinu. Því við gerum okkur grein fyrir því að það raskar stöðu heimilanna og mun leiða af sér atvinnuleysi fleiri hundruð manna til viðbótar.