Skattamál

86. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 01:11:09 (3868)

     Páll Pétursson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Varðandi það samkomulag sem forseti var að vitna til, þá átti ég ekki þátt í því. Einhvern veginn misfórst að ná í mig eða aðra úr stjórn þingflokks framsóknarmanna eða varastjórn. Þar af leiðandi var ekki Framsfl. sem slíkur með í því samkomulagi. Ég vil taka það fram varðandi þingstörfin sérstaklega í gær og dag að við höfum verið öll af vilja gerð í stjórnarandstöðunni til þess að greiða fyrir málum. Það er náttúrlega eðlilegur og sjálfsagður hlutur að menn fái að tjá sig og þetta skattamál er í mörgum liðum og eðlilegt að menn þurfi að fara um það allmörgum orðum og margir að tala. Þrátt fyrir það voru mörg mál afgreidd í gær, eins og á færibandi, sögðu fréttamenn. Það var í gær gott samkomulag um þann dag. Lengst af í dag hefur líka verið gott samkomulag þó aðeins hafi hlaupið snurða á þráðinn undir kvöldið.
    En ég tel aðfinnsluvert hjá forseta að hann skyldi ekki verða við eðlilegri bón frá einum þingmanni um að kalla hæstv. forsrh. í salinn. Hann er yfirmaður ríkisstjórnarinnar Undir hann heyra efnahagsmál þjóðarinnar í stórum dráttum. Þó að þetta tiltekna skattafrv. sé á forræði hæstv. fjmrh. þá eru efnahagsmálin staðsett í forsrn. og hann á að hafa yfirstjórn og umsjón með efnahagsmálum. Vitað er og alkunna að hæstv. forsrh. er í húsinu og ég skil ekki í tregðu hæstv. forseta við því að kveðja hæstv. forsrh. í salinn. Hvað dvelur orminn langa? Hvers vegna vill forseti ekki stuðla að því að hann komi í salinn svo ræðumenn geti átt orðastað við hann?
    Ég tel að þessi fundur hafi nú þegar staðið nógu lengi. Við höfum sýnt mikla lipurð að klaga ekki fyrr og meira og óska ekki fyrr eftir fundaslitum en raun ber vitni. Ég hefði út af fyrir sig ekkert á móti því að þessari umræðu lyki og vona að menn geti verið stuttorðir, en þó kann að vera að menn eigi ýmislegt ósagt.
    En ég árétta bón sem kom fram í ræðu hjá þingmanni að fá forsrh. í salinn og býð hann velkominn. Ég hygg að það muni greiða mjög fyrir umræðum ef hann er viðlátinn það sem eftir er fundarins ef herra forseti heldur því til streitu að halda fundi áfram.