Skattamál

86. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 02:39:19 (3878)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er fyrst örstutt athugasemd við það sem hv. þm. sagði um vaxtahækkun þá sem varð eftir stjórnarskiptin á miðju ári 1991. Sú vaxtahækkun átti sér þá skýringu að vöxtum hafði verið haldið svo neðarlega um nokkurt skeið af skuldabréfum ríkisins að gífurlegt útstreymi átti sér stað úr ríkissjóði. Á sama tíma var ríkissjóður rekinn með afspyrnumiklum halla. Þessu varð auðvitað að snúa við. Annars hefði horft í voveiflega atburði í ríkisfjármálunum og þess vegna hlaut ríkisstjórnin að taka tillit til markaðarins og freista þess að ná inn þeim peningum sem á þarf að halda til að brúa bilið milli gjalda og tekna ríkissjóðs.
    Í öðru lagi vil ég reyna að svara þeirri fyrirspurn sem til mín var beint. Ég vonast til þess að ég þurfi ekki að greiða atkvæði um skrifstofu- og verslunarhúsnæðisskattinn þegar ég fer í stjórnarandstöðu, ef að því kemur einhvern tíma, einfaldlega vegna þess að ég er að vonast til að sá skattur verði þá horfinn.
    Og í þriðja lagi, ef hv. þm. skyldi taka til máls einu sinni enn í kvöld ( Gripið fram í: Það gerir hann ekki.) þætti mér vænt um aðeins til gamans að vita hve lengi hann hefur starfað í einkageiranum.