Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 12:50:55 (3889)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Þeir sem standa að nál. minni hlutans muna ekki eftir jafnalvarlegum athugasemdum við nokkurt frv. sem ríkisstjórnir hafa flutt í skattamálum. Þessu til staðfestu má vitna til athugasemda frá Alþýðusambandi Íslands, en þar segir m.a.:
    ,,ASÍ lýsir sig mótfallið þeirri stefnu stjórnvalda að leggja stöðugt þyngri byrðar á láglaunafólk, barnafólk og það fólk sem er að koma sér upp húsnæði á sama tíma og aðrir sleppa.``
    Í ályktun frá Verkamannafélaginu Dagsbrún, segir m.a.:
    ,,Þá kom fram á fundinum að stjórnarflokkarnir hefðu svikið öll þau loforð sem þeir gáfu fyrir síðustu kosningar.``
    Og frá Vinnuveitendasambandi Íslands segir þetta m.a.:

    ,,Allt er þetta vitni um slæm samskipti ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins og er vísbending um það að ríkisstjórninni er ekki treystandi til að varða veginn í því alvarlega efnahagsástandi sem nú ríkir.``
    Minni hluti efh.- og viðskn. er sammála þessu mati Vinnuveitendasambandsins. Við teljum að þetta mál þurfi miklu frekari vinnslu og undirbúning, það þurfi að vinna það í samráði við aðila vinnumarkaðarins til að komast hjá átökum þar á komandi vetri. Það verður að nást sátt í þessum málum og því er eina leiðin að taka þetta mál til baka, vinna það betur og þótt við höfum ekki mikið traust á núverandi ríkisstjórn þá sjáum við enga aðra leið betri en að vísa málinu þangað. Við lýsum okkur reiðubúin til samstarfs í málinu við núv. hæstv. ríkisstjórn og aðila vinnumarkaðarins og leggjum því til að málinu sé vísað til ríkisstjórnarinnar.