Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 12:55:13 (3890)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Hér er um að ræða að verið er að lækka persónufrádrátt um 400 kr. en það er 4.800 kr. lækkun á ári, upphæð sem kemur eins og flatur nefskattur á alla tekjuskattsgreiðendur og er því sannarlega þyngst högg fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar. Þetta bætist ofan á það sem var verið að enda við að afgreiða áðan, þ.e. að skatturinn er hækkaður um 1,5%.
    Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur á það bent að í tíð núv. ríkisstjórnar hafi skattleysismörkin verið lækkuð úr tæpum 63.000 kr. í 57.000 kr. eða um 6.000 kr. á mánuði. Skattbyrði einstaklings með 63.000 kr. tekjur er aukin um 3,6%. Þetta eru miklar skattaálögur sem leggjast með alveg sérstökum þunga á þá sem minnst bera úr býtum í þjóðfélagi okkar. Við stjórnarandstæðingar erum þessu eindregið andvígir og segjum því nei.