Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 13:07:21 (3893)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að efla húsnæðissparnað, ekki síst hjá ungu fólki og mér finnst það vera mjög óráðleg ráðstöfun að afleggja nú skyldusparnað ungs fólks hjá Húsnæðisstofnun og þessa húsnæðissparnðarreikninga, að gera þetta tvennt á sama tíma. Húsnæðissparnaður dregur úr lánsfjárþörf ungs fólk þegar það kaupir sér húsnæði. Hann dregur þar af leiðandi úr vaxtagreiðslum og þar af leiðandi úr vaxtabótagreiðslum ríkissjóðs síðar meir. Því tel ég að hér sé mjög vafasamur sparnaður á ferðinni hjá ríkisvaldinu. Ég tel að það sé ekki síður ástæða til að veita skattafslátt út á húsnæðissparnað en húsnæðisskuldir.
    Þá vil ég benda á það að í þeim ákvæðum sem hér liggja fyrir til afgreiðslu er ekki tekið á binditíma reikninganna en hann getur verið allt að 10 árum. Ef ríkisvaldið breytir þeim forsendum sem voru þegar fólk stofnaði þessa reikninga þá lít ég svo á að eigendur reikninganna eigi að vera lausir allra mála. Það er hins vegar ekki tekið á því í þessum ákvæðum. Ég er andvíg þessum breytingum og segi nei.