Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 13:30:41 (3902)

     Halldór Ásgrímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Ég held það sé heppilegast að hver og einn þingmaður fái tækifæri til þess að gera grein fyrir sinni afstöðu og sínu atkvæði. Við í stjórnarandstöðunni og við sem skipuðum minni hluta þessarar nefndar erum á móti þessari skattlagningu. Við erum á móti 24,5% skatti, við erum á móti 14% skatti og með því að greiða atkvæði með þessari grein teljum við okkur vera að staðfesta þennan 14% skatt. Við erum því andvíg þessari 43. gr. og munum greiða atkvæði gegn henni. Það er okkar afstaða. Síðan getur hæstv. fjmrh. eða formaður þingflokks Sjálfstfl. litið þannig á eins og þeir hafa hér gert, en það er ekki okkar afstaða og ég vænti þess að þetta sé alveg skýrt. Við munum greiða atkvæði gegn 43. gr. og að mínu mati ætti ekkert að vera að vanbúnaði að ganga strax til þessarar atkvæðagreiðslu og á ekki að þurfa neitt fundarhlé til þess.