Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 13:37:00 (3908)

     Halldór Ásgrímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Ég bið hæstv. forsrh. að hafa ekki áhyggjur af hugsanlegri ólánsemi minni, ég tel að

hann ætti fremur að hafa áhyggjur af ólánsemi sinnar eigin ríkisstjórnar. Ég stend við þá afstöðu sem ég gaf áðan. Mér er það ljóst að ef svo færi að meiri hluti væri fyrir því að fella þessa grein þá stæði það svo að 24,5% skattur væri lagður á greinina. Ég geri mér grein fyrir því, hæstv. forsrh. Ég tel hins vegar að með því að greiða atkvæði með þessari grein séum við að staðfesta þennan skatt. Ef hins vegar fer svo illa þá vænti ég þess að við hæstv. forsrh. getum orðið þeir lánsmenn að standa saman að því milli 2. og 3. umr. að fella þann 24,5% skatt niður því þá veit ég að það er kominn meiri hluti fyrir því. Þannig hefur það ávallt verið á Alþingi, ef eitthvað slíkt gerist þá er ráðrúm að leiðrétta milli 2. og 3. umr. og það er þess vegna sem það hefur verið ákveðið í þingsköpum að það fari fram bæði 2. og 3. umr.
    Ég vænti þess að þetta sé nægileg skýring á minni afstöðu og hvet allan þingheim að greiða atkvæði gegn þessari tillögu þrátt fyrir áhyggjur hæstv. forsrh. sem að mínu mati hefur nóg með sína ríkisstjórn að gera og ætti að hafa meiri áhyggjur af henni.