Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 13:57:15 (3916)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvernig öðrum þingmönnum hér inni er innan brjósts á þessu augnabliki og hefur verið innan brjósts núna í nokkrar mínútur, en það get ég sagt þingmönnum að mér finnst þetta mjög dapurlegt augnablik sem við erum að upplifa hérna og sem við höfum verið að upplifa undanfarið. Þess vegna fannst mér mjög sérkennileg sú hundakæti sem ég vil kalla það, sem greip um sig hér áðan með þingmönnunum yfir þeirri uppákomu sem hér varð. Mér finnst þetta vera alvarlegur atburður sem hér er að gerast og alvara augnabliksins vera mjög mikil. Ég hlýt að líta svo á að þessi kæti sem greip menn hafi verið taugaveiklunarhlátur manna sem vita að þeir eru að gera vondan hlut.
    Það eru miklir erfiðleikar í bókaútgáfu í landinu, það eru miklir erfiðleikar í prentiðnaðinum, við sjáum hvert fyrirtækið af öðru fara á höfuðið og sú skattlagning, sem hér er verið að leggja til á bókaútgáfuna og prentverkið, gæti orðið smiðshöggið á það.
    Ég ætla að biðja menn sem hér eru ábyrgir fyrir þessu og ekki síst ráðherrana í núv. ríkisstjórn, að hlífa okkur við öllu tali um íslenska menningu í áramótaávörpum sínum. Ég vil engan virðisaukaskatt á menningu, stjórnarliðarnir eru ábyrgir fyrir því að fella niður undanþáguna með samþykkt 41. gr. hér áðan, þeir verða að vera ábyrgir fyrir því að leggja á þennan 14% virðisaukaskatt. Ég segi nei.