Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 14:01:23 (3917)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Með þessari skattlagningu er verið að gera húshitunarkostnað landsmanna að skattstofni. Flestir vita að húshitunarkostnaður er mjög misjafn eftir landsvæðum og byggðarlögum, allt frá því að vera niður undir 20.000 kr. á ári þar sem hagstæðastar hitaveitur eru og upp undir 100.000 kr. þar sem orkukostnaður er mestur, borið saman við sömu íbúðarstærð. Engu að síður er nú ætlunin að gera þennan ójafna kostnað landsmanna að skattstofni þannig að ofan á t.d. tæplega 90.000 kr. kostnað þeirra sem hita hús á svæði Hitaveitu Rangæinga leggist skattur, allt upp í 7.000 kr. á þær hitaveitur sem óhagstæðast koma út úr þessum samanburði.
    Mér er til efs að menn hafi í annan tíma fundið jafnólánlegan skattstofn á síðari árum og það má til sanns vegar færa að menn gætu í raun og veru allt eins lagt á öfugan tekjuskatt og látið þá borga hæstan skattinn sem lægstar hefðu tekjurnar. Skattur á húshitunarkostnað kemur nákvæmlega eins út. Þeim er ætlað að greiða mest í skatt sem þegar hafa þurft að ráðstafa mestu af launum sínum fyrir í húshitunarkostnað. Að vísu hefur hæstv. ríkisstjórn reynt að setja upp endurgreiðslukerfi til að draga nokkuð úr ójöfnuðinum og óréttlætinu sem þessari skattlagningu er samfara og með því viðurkennt í reynd að þessi skattstofn sé afleitur og fráleitur. Þessi jöfnun nær þó engan veginn nógu langt, eins og kom fram þegar efh.- og viðskn. skoðaði það mál og fékk um það upplýsingar frá iðnrn. Ég mun því greiða atkvæði gegn þessari tillögu og ég bind enn vonir við það verandi bjartsýnismaður að menn fáist til að skoða þetta mál milli umræðna. Hér eru ekki þeir fjármunir á ferð að ekki sé með einhverjum öðrum og skynsamlegri hætti hægt að finna þeim stað í skattheimtu ríkisins. Ég segi nei.