Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 14:11:29 (3921)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í 41. gr., e-lið, er ákvæði sem tekur út undanþágu til þess að greiða virðisaukaskatt sem er í dag 24,5% og þessi undanþága tók til orku til húshitunar. Meiri hluti Alþingis hefur rétt nýlega samþykkt að taka út þessa undanþágu. Þessi grein sem við erum hér að ræða núna, 43. gr., 7. liður, segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli virðisaukaskattur af sölu á þessari vöru og þjónustu vera 14%.
    Ég lýsi aftur yfir ábyrgð á hendur ríkisstjórninni fyrir að standa að skattlagningu sem þessari á húshitunarkostnað landsmanna sem víða á landinu er þrefalt meiri en annars staðar. Þessi sama ríkisstjórn hefur sett sér það markmið að jafna húshitunarkostnað í landinu. Hún lagði 35 millj. á sl. vori í það verk en hvað er hún að taka í þessari skattlagningu? 900 millj. kr. Ég greiði ekki atkvæði.