Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 14:28:45 (3926)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég vil vekja sérstaka athygli á því varðandi þessa brtt. sem hér er verið að greiða atkvæði um að með henni er verið að festa í sessi í lögum um fjáröflun til vegagerðar skattheimtu til ríkissjóðs beint. Það er hér talað um sérstakt bensíngjald og það er kveðið á um að það skuli renna í ríkissjóð og

síðan segir að vísu að það sé 1,70 kr. á hvern lítra af bensíni. Ég vil einnig benda mönnum á að hér er um að ræða tölu sem er bundin við það verðlag sem lögin eru á og þessi tala framreiknuð til verðlags í dag þýðir 4,50 kr. ekki 1,70 kr. Það eru 4,50 kr. sem verið er að leggja á hvern lítra af bensíni. Það þýðir hækkun á bensínverði um 7--8%. Við höfum stundum áður staðið frammi fyrir því að skerða tímabundið markaða tekjustofna Vegagerðarinnar að einhverju leyti og láta þá renna í ríkissjóð. Það er einnig gert núna, eins og kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni hér áðan, um 344 millj. kr. en þær 780 millj. sem hér er verið að innheimta að auki eiga framvegis að renna í ríkissjóð. Hér er verið að ganga á þennan tekjustofn sem hingað til hefur ávallt runnið beint til Vegagerðarinnar. Ég er algjörlega andvígur þessari hugmynd og tillögu sem hér er sett fram og mun því greiða atkvæði gegn tillögunni.