Fjárlög 1993

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 16:14:42 (3935)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar við nú stöndum hér frammi fyrir lokaumræðu um fjárlagafrv. fyrir árið 1993, þá er engin ástæða til þess að fara að rekja aftur þá liði sem við ræddum við 2. umr., þ.e. um gjaldahlið frv., 4. gr. Ég tel ekki neina nauðsyn bera til þess að fara yfir það aftur þó að lítils háttar breytingar séu núna sem unnar eru að miklum hluta í samráði allrar fjárln. En það er venjan að við 3. umr. sé verið að afgreiða B-hluta fjárlaganna, 6. gr. frv., og tekjuhliðina.
    Hvað varðar B-hlutann þá eru þar ekki mjög mörg atriði sem breytast. Það koma að vísu til ýmsar verðlagsuppfærslur sem ekki þarf að fara nánar út í en þó verð ég að geta þess að á fund nefndarinnar komu m.a. bæði fulltrúar frá Rafmagnsveitu ríkisins og einnig fulltrúar frá Ríkisútvarpinu. Og fulltrúar Ríkisútvarpsins sérstaklega töldu að þeim væri mjög þröngur stakkur skorinn í sambandi við það að standa vel að sínum rekstri. Ég verð að segja það að ég tel að sú ákvörðun ráðherra að nýta ekki þá heimild á yfirstandandi fjárlögum sem Ríkisútvarpið hafði til hækkunar hafi verið misráðin því að það er alveg augljóst að stofnunin getur engan veginn staðið við eðlilegar framkvæmdir og eðlilegan rekstur með þeim auglýsingatekjum sem hafa farið minnkandi á undanförnum árum og þeim afnotagjöldum sem henni er leyft að innheimta.

    Það skýtur nokkuð skökku við að á sama tíma og gefinn er frjáls útvarps- og sjónvarpsrekstur og mönnum ætlað að standa í samkeppni við frjálsa fjölmiðla skuli jafnframt vera lagðar þær hömlur á stofnunina að hún geti ekki starfað í þessari frjálsu samkeppni. Henni er haldið niðri með afnotagjöldum og að sjálfsögðu minnka auglýsingatekjurnar þegar fleiri eru orðnir um hituna. Þarna finnst mér því ekki vera samræmi í þeirri hugsun sem liggur á bak við það að hafa frjálsan rekstur á þessari starfsemi.
    Þá er það einnig athyglisvert í sambandi við Rafmagnsveitur ríkisins og tekjuhlið fjárlagafrv. að þar er samkvæmt frv. áætlað að Rafmagnsveitur ríkisins greiði 30 millj. í arðgreiðslur úr sínum rekstri til ríkisins og þessari tölu er áfram haldið inni. Rafmagnsveitur ríkisins eiga áfram að greiða þessar 30 millj. í arð en á sama tíma er hætt við að láta Landsvirkjun greiða 100 millj kr. í arð. Mér er því spurn hvort Landsvirkjun sé orðin svo illa stödd að hún þurfi á því að halda að felldar séu niður arðgreiðslur sem hún eigi að greiða en Rafmagnsveitur ríkisins svo vel stæðar með allar sínar dreifilínur að þær geti greitt þessar 30 millj.
    Hv. formaður fjárln. kom inn á það áðan þegar hann fór yfir B-hlutann að það væri nokkuð erfiður rekstur hjá Fríhöfninni og Keflavíkurflugvelli að Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli væri í fjárhagserfiðeikum og gat jafnframt um það að hún skilaði þó það miklum tekjum inn í þjóðarbúið að hún ætti að geta staðið undir sínum rekstri. Flugstöðin hefur frá upphafi verið hálfgert vandræðabarn í kerfinu og er ekki enn séð fyrir endann á því hvernig eigi að leysa það því að upphaflega var byggt allt of stórt og mikið og dýrt sem að sjálfsögðu hlýtur að hefna sín þegar frá líður. Það er áætlað að 114 millj. kr. tap verði á flugstöðinni og skuldir eru þar samtals um 300 millj. kr. og talið að til þess að brúa bilið á langtímaskuldum þurfi að koma til móts við reksturinn með því að leggja henni til eitthvert fjármagn eða þá að breyta þeirri tekjuskiptingu sem hún hefur í dag.
    Ég get tekið undir það hjá hv. formanni að það eru ýmsar hundakúnstir sem eru notaðar þegar verið er að útbúa fjárlög og hann nefndi það í sambandi við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það eru ekki síður ýmsar hundakúnstir notaðar þegar verið er að setja upp vegáætlun. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það að fara yfir B-hluta stofnanirnar Það er enn þá óleyst vandamál bæði hjá Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna. Byggingarsjóður ríkisins skuldar ríkissjóði 1.500 millj. kr. vegna skammtímafyrirgreiðslu á árinu 1990. Af því verður ekki hægt að greiða á næsta ári nema 900 millj. kr. þannig að þar stendur enn þá uppi vandamál og áætlað er að bjarga því fyrir horn með því að auka lántökur um 1.570 millj. frá frv. Svipaðir erfiðleikar eru hjá Byggingarsjóði verkamanna, þ.e. fjárþörf sjóðsins er meiri en gert er ráð fyrir í frv. og þar þarf einnig að auka lántökur.
    Hvað varðar 6. gr. fjárlaganna hafa orðið lítils háttar breytingar á henni sem fjárln. hefur öll tekið þátt í að móta og niðurskurður á þeim lið, þ.e. úr 400 millj. sem heimildarákvæðin áttu að hafa niður í 340 millj. Það samþykktum við einnig í minni hluta fjárln. og er það í samræmi við það sem ég hef hér áður haldið fram að við ættum að vinna að því að hafa þær heimildir sem allra fæstar og reyna heldur að setja það á fjárlög sem þar kemur inn og mönnum er ætlað að reyna að standa við því að oft hefur verið farið fram úr þessum heimildum og misjafnlega með þær farið. Það er opinn víxill sem þar er um að ræða og við flestöll í hv. fjárln. erum ekki mjög hrifin af því að fjárlög ríkisins séu eins og opinn víxill.
    Hvað tekjuhlið fjárlagafrv. varðar, þá er það nú bæði verkefni fjárln. og efh.- og viðskn. að fara yfir þá liði. E.t.v. má segja að það sé frekar verkefni efh.- og viðskn. þó að fjárln. geri það að sjálfsögðu líka, en það er verkefni sem algerlega er unnið á vegum meiri hluta nefndarinnar og hæstv. ríkisstjórnar. Minni hluti fjárln. hefur ekki komið nálægt því að leggja til hvernig tekjuhliðin liti út og alls ekki tekið þátt í þeim leikfimiæfingum sem þar hafa átt sér stað fram og aftur. Þetta er raunar ekki mitt orðalag heldur var það einn háttvirtur embættismaður fjmrn. sem orðaði þetta svo og ég get vel tekið undir það. Það hafa komið hugmyndir kannski kl. 9 að morgni á fundi í fjárln. og þær hafa verið orðnar breyttar áður en fjárln. hefur lokið fundinum sem stendur venjulega í tvo tíma þannig að það hafa ýmsar breytingar átt sér stað á stuttum tíma í sambandi við áætlun á tekjum ríkisins.
    Ég held að ég vísi því algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar hvernig sú tekjuhlið lítur út núna og við höfum rætt það mál ítarlega í hv. fjárln. Það er líka búið að ræða það mjög ítarlega hér í sambandi við það skattalagafrv. sem við vorum að afgreiða í morgun og ég tel ekki ástæðu til þess að fara út í það frekar. Ég ræddi það líka nokkuð hér í gærkvöldi og ég er aldrei mjög hrifin af því að vera sífellt að endurtaka mig, að endurtaka í dag það sem ég sagði í gær.
    Ég vil að lokum nefna það atriði sem hv. formaður fjárln. kom inn á í sinni ræðu og snerti tillögu sem við kvennalistakonur höfðum lagt fram við 2. umr., þ.e. um aukið framlag til sérkennslu í grunnskólum, liðurinn heitir það, en við höfðum hugsað það sem aukið framlag til þess að kosta kennslu svokallaðra nýbúa, þ.e. innflytjenda frá öðrum löndum sem hingað koma og eru hvorki kunnungir menningu okkar né máli og þurfa því að leggja mjög hart að sér til þess að komast þar til skilnings. Það hefur oft verið mjög erfitt hjá því fólki, sérstaklega börnunum, að ná ,,kontakt``, ef ég má orða það svo, við önnur börn og ná sér á strik innan skólakerfisins. Þetta var nokkuð rætt í hv. fjárln. en ekki talið mögulegt af meiri hluta nefndarinnar að bæta þarna inn viðbótarfjármagni. En hv. formaður gat um það í ræðu í morgun að það hefði komið fram nýleg skýrsla á vegum menntmrn. þar sem mikil þörf væri talin á því að íslenskukennsla fyrir innflytjendur eða nýbúa mundi aukast og hann gat um árlega fjárþörf vegna þessa sem væri á bilinu 40--60 millj. kr. sem þyrfti að koma til viðbótar fjárframlögum til sérkennslu í einstökum fræðsluumdæmum og

einnig nefndi hann kennslu fullorðinna. Hann ræddi það jafnframt að innan fjárln. hefði verið vakin athygli á þessu og hann hefði í því tilefni rætt málið við menntmrh. og ráðherra hefði tjáð sér að hann mundi leggja sérstaka áherslu á þessa þætti til að styrkja þessa kennslu. Ég vil þakka hv. formanni fjárln. fyrir það að hafa tekið svona vel í þetta mál og einnig hæstv. menntmrh. fyrir hans þátt í því og í trausti þess höfum við kvennalistakonur ákveðið að leggja ekki þessa tillögu fram aftur en vonumst til að sjá árangur í þessum málum á næsta ári.
    Við kvennalistakonur vorum einnig með aðra tillögu sem við drógum til baka við 2. umr. fjárlaga. Hún var um lánatryggingarsjóð kvenna þar sem við ætluðum fjármagn til þess að fara af stað með stofnun lánatryggingarsjóðs kvenna á Íslandi. Til þess að það sé mögulegt þarf sá áhugahópur sem hefur unnið að því verkefni að fá nokkurt fjármagn til kynningarstarfsemi, þýðingar á lögum og reglum þessa sjóðs sem þær ætla að gerast aðilar að og greiða kostnað við lögfræðiþjónustu, upplýsingabækling og fleira. Þær lögðu á fundi fjárln. fram upplýsingar um það hvað þær teldu sig þurfa mikið á næsta ári til að standa að þessu verkefni og kynntu það. Ekki náðist samstaða um það í fjárln. að leggja til að peningar yrðu veittir til þessa verkefnis en greinilegt var þó á nefndarmönnum að þeir sýndu þessu þó nokkurn áhuga.
    Ég vildi nú spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann hafi kynnt sér þetta mál eitthvað og hvort hann muni hugsanlega vera því velviljaður eða hafa hug á því að styðja við þessa starfsemi á einhvern hátt. Mér er kunnugt um það að ráðherrar hafa yfirleitt eitthvert fjármagn til sérstakra verkefna sem þeir telja að eigi rétt á því að fá styrki eða framlög og ég vil því spyrja ráðherra um það hvort eitthvað slíkt gæti hugsanlega komið til greina. Ég tel að þessi lánatryggingarsjóður kvenna sem hér er verið að ræða um, þetta nýja verkefni, sé mjög áhugavert, ekki hvað síst á þeim tímum sem við búum nú við þar sem við erum að ræða um að reyna að auka atvinnu, halda uppi atvinnu og bæta við hana og ég er alveg viss um það að einmitt þessi lánatryggingarsjóður kvenna gæti orðið mjög stórt spor í þá átt vegna þess að þegar konur hafa leitað til lánasjóða og bankastofnana, þá hefur oft verið nokkuð þungt fyrir fæti hjá þeim með að fá fjárframlög til þeirrar starfsemi sem þær eru að hugsa um í það og það skiptið. Það er staðreynd að þær hafa átt erfiðari innkomu í lánastofnanir heldur en karlmenn. Ég tel því að þarna sé mjög jákvætt verkefni á ferðinni og beini því þessari spurningu til hæstv. viðskrh.
    Ég vil síðan að lokum lýsa því yfir eins og aðrir nefndarmenn að starfið í fjárln. hefur verið með ágætum. Það hefur byggst á því að menn hafa auðvitað haft misjafnar skoðanir en oft höfum við getað náð samstöðu um þær breytingar á gjaldahlið til eða frá, ýmist hefur verið tekið af eða bætt við eða nýir liðir settir inn og það er í raun og veru fyrst og fremst verkefni fjárln. að fara yfir gjaldahlið frv. Öll fjárln. fer ekki svo mjög mikið yfir tekjuhliðina, það eru hlutir sem eru pólitískar ákvarðanir um og kemur nánast tilbúið inn til fjárln. til umfjöllunar. Ég skal ekki segja um hvað gerist í meiri hlutanum, þeir ræða það trúlega með sinni ríkisstjórn, en það er a.m.k. verk sem við í minni hlutanum þekkjum ekki.
    Ég mundi vilja koma því á framfæri héðan úr ræðustól hver hafi verið hugsunin með því að breyta nafni fjárlaganefndar. Svo sem kunnugt er þá hét þessi hv. nefnd fjárveitinganefnd og nafnið bendir til þess að hún eigi að standa að gjöldum, þ.e. að hún fjalli um gjaldahlið frv. og það er akkúrat það sem ég er að segja að nefndin geri fyrst og fremst. Hún fjallar um gjaldahlið frv. Þegar nafninu var breytt í fjárlaganefnd þá gæti ég trúað að meiningin með því hafi verið sú að nú skyldi nefndin fjalla um öll fjárlögin í heild sinni, ekki aðeins um gjaldahlið og vera fjárveitinganefnd, heldur setja fjárlögin öll frá a til ö og vera fjárlaga-nefnd.
    Ég held að það væri til bóta ef það væri ekki bara breytt um nafn á nefndinni, heldur að hlutverk hennar væri endurskoðað í framhaldi af því. Og hún væri virkari í því að gera fjárlög, að vinna fjárlög íslenska ríkisins.
    Síðan vil ég að lokum þakka fyrir það samstarf sem átt hefur sér stað í nefndinni. Ég þakka fyrir alla nefndarfundina sem við höfum haldið saman og starfsfólkinu í Austurstræti fyrir sitt framlag og ekki síst ritara nefndarinnar fyrir hans framlag.