Fjárlög 1993

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 16:39:10 (3938)


     Sigurður Þórólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég flyt á þskj. 512 brtt. við fjárlögin. Þessa tillögu flutti hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir við 2. umr. fjárlaga en hún var þá dregin til baka svo ég endurflyt hana nú við 3. umr. Þessi tillaga gerir ráð fyrir því að SÁÁ verði afhentar eignir ríkisins á Staðarfelli í Dölum, þ.e. gamla skólahúsið, kennaraíbúðirnar og kyndi- og rafstöðvarhús. Þetta er það húsnæði sem SÁÁ hefur notað til starfsemi sinnar á Staðarfelli undanfarin ár eða allt frá 1980 og þetta yrði óneitanlega til þess að tryggja starfsemi þessara samtaka á Staðarfelli.
    Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir hafi mælt fyrir þessu og leitt fram þau rök sem fyrir þessu liggja við 2. umr. fjárlaga og ætla því ekki að fara langt út í þetta mál, en ég vænti þess að það geti orðið samstaða um þetta hér í þinginu, ekki síst vegna þess að í gær hafði ég samband við oddvita Fellsstrandarhrepps í Dalasýslu, þess sveitarfélags sem Staðarfell er í, og hann tjáði mér að fyrir nokkru hefði verið gerð samþykkt í hreppsnefnd Fellsstrandarhrepps þess efnis að óska eftir því að þessar tilteknu eignir yrðu afhentar SÁÁ til umsjónar. Þetta bréf var sent í menntmrn. og ég hef það því miður ekki undir höndum, ég fékk upplýsingar fyrst í gærkvöldi um að þetta hefði gengið þannig fyrir sig, en ég vænti þess að þetta sé þangað komið. Ég reikna með að því verði vel tekið á þeim stað. Það má kannski geta þess að þetta er í anda ríkisstjórnarinnar eða stjórnarflokkanna að einkavæða og selja eignir ríkisins. Þetta yrði til þess að það væri hægt að slá tvær flugur í einu höggi, að styrkja þessi samtök til sinnar starfsemi á Staðarfelli og losa ríkið við rekstur á þeim eignum sem e.t.v. eru ekki arðbærar.
    Ég tek það fram að inni í þessum eignum er ekki bújörðin á Staðarfelli, hún yrði áfram í eigu ríkisins.