Fjárlög 1993

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 16:42:50 (3940)


     Sigurður Þórólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að á þessu ári og á undanförnum árum hefur SÁÁ átt í erfiðleikum með sinn rekstur og það stóð til á sl. hausti, að því er ég best veit, að SÁÁ yrði jafnvel gert að hætta starfseminni á Staðarfelli. Ég vænti þess að hæstv. heilbrrh. kannist við þessi rök. Með því að afhenda SÁÁ þessar eignir á Staðarfelli, þ.e. húsnæði sem SÁÁ hefur notað að undanförnu, væri tryggður áframhaldandi rekstur á þessum stað án þess að jörðin þyrfti að fylgja með. Ég sé enga ástæðu til þess að SÁÁ kaupi bújörðina Staðarfell og það væri alveg nóg að þessar eignir væru afhentar SÁÁ. Þetta mundi styrkja starfsemina og tryggja það að þessi starfsemi yrði þarna áfram. Með þessu væri samtökunum veittur verulegur styrkur til sinnar starfsemi sem ég held að þeim veiti ekki af, því þessi starfsemi hefur verið í góðri sátt við heimamenn, verið vel tekið af þeim og styrkir þá á allan hátt. Þannig að mér finnst þetta ákaflega eðlilegt.