Fjárlög 1993

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 16:45:22 (3942)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Við 3. umr. fjárlaga hefur formaður fjárln. flutt nál. meiri hluta fjárln. og gert grein fyrir brtt. nefndarinnar sem og þeim tillögum sem meiri hluti nefndarinnar hefur flutt ásamt þeim skýringum sem gefnar eru við einstaka liði brtt. Auk þess að vísa til þeirrar ræðu sem ég flutti við 2. umr. vil ég fara nokkrum orðum um frv. og þá stefnu sem það boðar eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið á því í hv. fjárln.
    Það ætti öllum að vera ljóst að við Íslendingar stöndum frammi fyrir meiri vanda í efnahags- og atvinnumálum en áður. Þjóðartekjur hafa verið að dragast saman og enn er því spáð að horfur þjóðarbúsins fari versnandi á næstu árum. Það skiptir því miklu máli að við leitumst við hér á Alþingi að móta leiðir til lengri tíma sem tryggi sem best hagsmuni þeirra sem verst eru settir og verjumst með öllum ráðum atvinnuleysi sem spáð er vaxandi ef ekkert verður að gert. Í minnisblaði sem forstjóri Þjóðhagsstofnunar lagði fyrir fjárln. Alþingis kemur fram mat Þjóðhagsstofnunar á þeim horfum sem blasa við í þjóðarbúskapnum en þar segir m.a., með leyfi forseta, um viðskiptakjör:
    ,,Horfur eru á að viðskiptakjör þjóðarbúsins á árinu 1993 verði nokkru lakari en gert hefur verið ráð fyrir í fyrri áætlunum Þjóðhagsstofnunar. Ástæðurnar fyrir þessu eru einkum tvær. Annars vegar er nú ljóst að gildistaka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið frestast. Í þessu felst að tollalækkanir á sjávarafurðum samkvæmt samningnum taka ekki gildi í byrjun ársins 1993 eins og áður var gert ráð fyrir. Í áætlun Þjóðhagsstofnunar var reiknað með að þessi lækkun tolla hefði hagstæð áhrif á verð sjávarafurða sem næmu á bilinu 1--1,5 milljörðum kr. miðað við heilt ár. Hins vegar hefur efnahagsbati í heiminum látið á sér standa sem leitt hefur til þess að verð á útflutningsafurðum okkar er um þessar mundir almennt lægra en búist var við. Þetta á ekki síst við um ál og kísiljárn en snertir einnig annan útflutning í mismiklum mæli.``
    Þessi tilvitnun í minnisblað forstjóra Þjóðhagsstofnunar og það mat sem hér er lagt á ætti að verða m.a. andstæðingum samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði nokkur umhugsun og hlýtur að vekja athygli á því. Þar eru miklir hagsmunir í húfi og þess er að vænta að með aðgangi að þeim markaði gefist enn frekari tækifæri til sóknar fyrir útflutningsframleiðsluna en áður.
    Í minnisblaði forstjóra Þjóðhagsstofnunar er einnig farið orðum um útflutningsframleiðsluna og þær horfur sem þar blasa við.
    Þessar alvarlegu staðreyndir sem ég hef nú bent á með tilvitnun í minnisblað forstjóra Þjóðhagsstofnunar hafa verið okkur sem störfum í fjárln. kunnar og þess vegna hefur svo mjög verið leitast við að fara varlega í að auka ríkisútgjöld. En þegar bornar eru saman tekjur fjárlaga næsta árs eins og þær eru samkvæmt fyrirliggjandi brtt. við fjárlagafrv. kemur í ljós að tekjur ríkisins hafa ekki verið lægri síðan 1988 ef bornar eru saman tekjurnar á verðlagi ársins 1993. Þetta ætti að vera nokkurt umhugsunarefni fyrir stjórnarandstöðuna og þá sem gagnrýna frv. og efnahagsstefnu stjórnarinnar. ( ÓÞÞ: Þurfa hinir ekki að hugsa líka?) Þeir hugsa mjög djúpt, hv. 2. þm. Vestf.
    Tekjur árið 1993 eru áætlaðir 104 milljarðar 771 millj. kr. Árið 1989 voru tekjur ríkisins 104 milljarðar 547 millj. Þegar litið er hins vegar til gjalda þá er áætlað að 1993 verði útgjöld ríkisins 110 milljarðar 990 millj. En árið 1989 voru útgjöldin 112 milljarðar 324 millj.
    Fjárln. hefur gert tillögur um nokkurn niðurskurð á frv. frá 2. umr. og það markmið hefur náðst að halda hallanum á ríkissjóði undir 6,5 milljörðum en hann mun verða á bilinu 6,2--6,3 milljarðar. Þeir þættir sem ráðist var til að lækka í fjárlagafrv. voru m.a. heimild á 6. gr. fjárlaga sem var lækkuð um 60 millj. kr. Það er gert ráð fyrir lækkun á markaðsátaki innan EES-landanna um 50 millj. og framkvæmdir við hæstaréttarhús, viðhald opinberra bygginga og fleira sem er lækkað og einnig framkvæmdir í vegagerð sem voru lækkaðar niður í 1.550 millj. miðað við fjárlagafrv. En tilgangurinn með þessum niðurskurði er að sjálfsögðu að reyna að leitast við að minnka hallann á ríkissjóði sem er mjög alvarleg meinsemd í efnahagskerfinu og eru aðvaranir gefnar frá virtum hagfræðingum um þá hættu sem fylgir langvarandi halla á ríkissjóði.
    Þegar litið er til þeirra breytinga sem fjárln. hefur gert á frv. er afar mikilvægt að gera sér grein fyrir því hver þróunin hefur verið í útgjöldum ríkisins. Síðustu árin hefur verið stöðugur vöxtur í ríkisútgjöldum. Það hefur komið í hlut núv. stjórnvalda að stíga á bremsuna og það er auðvitað aldrei einfalt eða vinsælt verk. Það er þó ekki gert með harkalegri hætti en svo að rauntölur útgjalda eru lítið eitt hærri en þær voru síðasta heila árið sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var við völd. E.t.v. er mikilvægasti árangur okkar að stöðva þá hraðlest sem ríkisútgjöldin höfðu fengið far með, e.t.v. á fyrsta farrými hjá ríkisstjórn sem hér var við völd síðasta kjörtímabil.
    Ég gat þess við 2. umr. að vandi okkar fælist m.a. í því að fara þann gullna meðalveg að beita ríkisútgjöldunum þannig að ekki verði til spenna sem magni upp vexti en fjárlögin styrki samt sem áður atvinnulífið með fjárveitingum til atvinnuskapandi framkvæmda eins og glöggt kemur fram í brtt. reyndar og í fjárlagafrv. í heild.
    Fjárlögin munu styrkja atvinnulífið vegna þess að aldrei hefur verið jafnmikið veitt til framkvæmda við

vegagerð, eða 7,5 milljörðum kr. og til hafnargerðar er varið 970 millj., auk þess sem nokkuð er veitt til nýbygginga. Má þar nefna framkvæmdir við viðgerð Þjóðminjasafnsins, byggingu hæstaréttarhúss og tæplega 550 millj. til viðhalds og nýbygginga framhaldsskóla og um 270 millj. til bygginga sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, auk þess sem gert er upp við sveitarfélögin vegna uppgjörs frá því að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga var staðfest, en þar er um að ræða 405 millj. kr. sem að sjálfsögðu munu styrkja fjárhag sveitarfélaganna sem þar um ræðir.
    Virðulegi forseti. Þær breytingar sem verið er að gera á skattamálum varða mjög ríkisfjármálin. Eins og jafnan þegar slíkar breytingar eru til meðferðar verða deilur um leiðir. Mikilvægast er þó við þær aðstæður sem við búum við núna að hugsað sé til framtíðar en ekki látið hrekjast undan vegna skammtímasjónarmiða. Mikilvægasta verkefni okkar er að auka hagvöxtinn með því að nýta okkur þau sóknartækifæri sem samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði gefur okkur, en jafnframt tryggja það að ríkisfjármálin styrki efnahagslífið og virki sem hvatning. Sá er tilgangur okkar í því fjárlagafrv. sem hér er til 3. umr. og með þeim breytingum sem hafa verið gerðar frá 2. umr. um fjárlagafrv.
    Virðulegi forseti. Ég verð hér að láta máli mínu lokið svo takast megi að ljúka þessari umræðu. En auðvitað gæti ég haldið lengri ræðu um þá fjölmörgu mikilvægu þætti sem tekið er á í fjárlagafrv. og brtt. meiri hluta fjárln.