Fjárlög 1993

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 16:57:38 (3943)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þremur brtt. þar sem ég er 1. flm. og flyt ásamt nokkrum öðrum hv. þm. Það er í fyrsta lagi brtt. á þskj. 522 sem flutt er af mér og hv. þm. Önnu Kristínu Sigurðardóttur og Guðrúnu Helgadóttur.
    Tillagan gerir ráð fyrir því að varið verði 100 millj. kr. til þess að tryggja framkvæmd grunnskólalaga þannig að grunnskólalögin verði framkvæmd undanbragðalaust eins og þau munu hljóða frá og með 1. jan. nk. þegar þau skerðingarákvæði laganna, sem lúta að tímafjölda og fjölda nemenda í bekk, eru fallin úr gildi, en þau falla úr gildi 31. jan. nk. því gert var ráð fyrir því að þessi sérstöku skerðingarákvæði grunnskólalaganna giltu aðeins í eitt ár.
    Nú er það svo með okkur þingmenn, þá sem stöndum að þessari tillögu, að við erum að sjálfsögðu ekki að dreifa þessari upphæð á grunnskólaumdæmi, fræðsluumdæmi, það er ekki hægt að gera það fyrir þingmenn sem ekki hafa aðgang að embættismannaliði því það eru flóknar reglur sem gilda um það hvernig fjármunum er dreift á fræðsluumdæmi. Þess vegna leggjum við til að þetta verði á einum lið og gerum ráð fyrir því að hæstv. menntmrh. dreifi þessu á fræðsluumdæmin eftir þeim reglum sem almennt gilda um þá hluti sem snúa að framkvæmd grunnskólalaganna í hinum einstöku fræðsluumdæmum.
    Í samræmi við þessa útgjaldatillögu upp á 100 millj. kr. sem við fluttum ekki við 2. umr. þá flytjum við tillögu um sparnað á móti þar sem gert er ráð fyrir því að við 4. gr. frv., lið 06-291 601, Húsnæði Hæstaréttar, komi svofelld brtt.: Liðurinn fellur brott. Við gerum með öðrum orðum ráð fyrir því að framlag til þess að byggja hús fyrir Hæstarétt á þessum þrengingartímum falli niður og það er nákvæmlega sama upphæð og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. að gangi til hússins sem síðan er varið til að tryggja framkvæmd grunnskólalaganna. Það eru sem sagt samtals 100 millj. kr. Í fjárlagafrv. var upphaflega gert ráð fyrir því að verja í þessu skyni 127 millj. kr., síðan sýnist mér að meiri hluti nefndarinnar leggi til að sú tala verði lækkuð um 27 millj. niður í 100 millj. kr. og það er sú tala sem við miðum við. Það vill svo til að það er nokkurn veginn sama talan og þarf til þess að tryggja framkvæmd grunnskólalaganna og tryggja það að hún verði með eðlilegum hætti samkvæmt laganna hljóðan.
    Eins og kunnugt er liggur hér fyrir frv. til laga um breytingu á grunnskólalögum sem er flutt af hæstv. ríkisstjórn og var lagt fram nú fyrir nokkrum dögum. Það frv. hefur enga meðferð fengið í þessari virðulegu stofnun og er ekki við því að búast að það verði nein breyting á því á þeim dögum sem eftir lifa af þessu ári, jafnvel þó að þingið stæði dagana milli jóla og nýárs. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt, til þess að tryggja að unnt verði að standa við ákvæði grunnskólalaganna þannig að ekki verði um að ræða lögbrot í skólum í stórum stíl, að fluttir verði til fjármunir með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.
    Ég tel líka að á þeim tímum sem nú er um að ræða þegar alls staðar er verið að skera niður og spara, það er verið að skera niður í lífskjörum fólks, kaupmáttur er að lækka, skattar eru að hækka, tannlæknakostnaður barna er að hækka, lyf eru að hækka, sérfræðikostnaður er að hækka, það er verið að skera niður framlög til skólamála almennt, til framkvæmda almennt frá því sem gert hafði verið ráð fyrir, m.a. í ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar, að á slíkum tímum eigi menn ekki að vera að byggja hús fyrir Hæstarétt. Hæstiréttur býr þröngt og hann býr illa, en Hæstiréttur verður bara að búa þröngt og illa eitthvað áfram. Ef menn hafa afgangsfjármuni í dóms- og kirkjumrn. þá mundi ég að vísu nota þá öðruvísi en að byggja yfir Hæstarétt. Ég mundi nota þá til þess að leysa úr brýnum og hneykslanlegum húsnæðisaðbúnaði fangelsanna á Íslandi. Ég tel að það sé miklu brýnna mál heldur en að byggja eitthvert hús yfir Hæstarétt fyrir fleiri hundruð milljónir kr.
    Ég geri ráð fyrir því að margir muni segja að það sé kominn tími til þess að Hæstiréttur fái húsnæði og ég geri ráð fyrir því að margir muni halda því fram að hér sé um að ræða einhvers konar samkomulag á milli stjórnarflokkanna og ráðuneytanna, þar sem þau hafi kannski fengið sitt lítið af hverju þegar verið var að útdeila skrautinu á tertuna um það leyti sem ríkisstjórnin fagnaði afmælum sínum fyrir nokkrum mánuðum, og að hæstv. dómsmrh. hafi fengið þá eitt stykki hæstaréttarhús. Ég hef tekið eftir því að einn og einn ráðherra þar fyrir utan hefur fengið svona eitthvað, eins og þeir kalla það sín á milli. Hins vegar verð ég að játa að það er einn hæstv. ráðherra sem hefur bersýnilega ekki fengið neitt og minna en ekki neitt og það er hæstv. viðskrh. Mér finnst hann hafa verið óþarflega hógvær í þessari veislu. ( ÓÞÞ: Heldurðu að hann fari í jólaköttinn?) Ég óttast það mjög að hann fari í jólaköttinn vegna þess að hann fær ekki einu sinni afgreitt frv. um umboðssöluviðskipti sem er eitt af meginkeppikeflum Alþýðuflokksins -- Jafnaðarmannaflokks Íslands núna á þessum dögum fyrir jólin, svo hæstv. viðskrh. fari ekki í jólaköttinn. (Gripið fram í.) En hann fær frv., hann fær lög. Ég tel því að það sé alveg út í hött að eyða fjármunum í það að byggja húsnæði fyrir Hæstarétt á þessum tímum og þess vegna leggjum við til að tillagan um húsnæði fyrir Hæstarétt verði felld og peningarnir í staðinn notaðir til þess að tryggja barnafræðsluna í landinu og okkur finnst vera gott jafnvægi í þessari ákvörðun.
    Í öðru lagi, virðulegi forseti, flyt ég brtt. ásamt hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni á þskj. 523, en það er endurflutningur á tillögu sem við lögðum fyrir við 2. umr. Þá gerðum við ráð fyrir því að þar yrði um að ræða nokkra viðbót, annars vegar vegna áfengismeðferðar á Vífilsstöðum og hins vegar vegna þess að tryggðir yrðu fjármunir til reksturs Kristnesspítala. Nú háttar svo til að það hefur verið gert samkomulag milli forstjóra Ríkisspítalanna og heilbrrn. um nokkra hækkun á framlögunum vegna áfengismeðferðar á Vífilsstöðum og þess vegna má segja að það hafi verið komið til móts við anda þeirrar tillögu á milli 2. og 3. umr. fjárlaganna og tel ég ástæðu til að þakka fyrir það. Eftir stendur sá veruleiki að miðað við rekstrarkostnað á árinu 1992 er ljóst að rekstur Kristness gengur ekki á sama hátt og á árinu 1993, þar vantar um 40 millj. kr. Við flytjum hér tillögu um að Ríkisspítalar fái til þessa rekstrar um 20 millj. kr. í viðbót eða um helminginn af þeirri upphæð sem þarna vantar, samtals um 20 millj. kr. og þar með yrði reynt að ná endum saman þannig að það yrði svipuð eða óbreytt starfsemi í Kristnesi.
    Nú háttar svo til að það hefur verið gert eins konar samkomulag milli heilbrrn. og Ríkisspítalanna, Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri um það að rekstur Kristness flytjist einhvern tímann á næsta ári yfir á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, FSA. Og þó að við flytjum tillögu um að þessir fjármunir komi á rekstur Kristness og komi á Ríkisspítalana þá er það ekki vegna þess að við séum andvígir því að FSA yfirtaki rekstur Kristnesspítala heldur er það vegna þess að við gerum þá ráð fyrir að þessu máli yrði breytt með ráðherraákvörðunum einhvern tímann þegar kæmi á almanaksárið 1993 og teljum út af fyrir sig eðlilegt að halda okkur við þetta þannig að þessi fjárhæð yrði færð eftir sem áður á Ríkisspítalana, rekstur Kristness, eins og hér er lagt til á þskj. 523.
    Í þriðja lagi, virðulegi forseti, mæli ég fyrir brtt. á þskj. 524 sem er flutt af þremur stjórnarandstöðuþingmönnum sem eiga sæti um þessar mundir í hv. heilbr.- og trn. en við erum jafnframt öll þingmenn Reykjavíkurkjördæmis. Auk mín eru flm. hv. þm. Finnur Ingólfsson og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að bætt verði við 4. gr. nýjum fjárlagalið, 08-410 Hjúkrunarheimilið Eir, 101 Almennur rekstur, 70 millj. kr.
    Í fjárlagafrv. eða þeim drögum sem nú liggja fyrir og tillögum er gert ráð fyrir því að skerða Framkvæmdasjóð aldraðra og þá fjármuni er síðan ætlunin að sögn hæstv. heilbrrh. að nota til þess að nokkru leyti að tryggja það að Hjúkrunarheimilið Eir hefji starfsemi á næsta ári. Við sem stöndum að þessari tillögu erum hins vegar andvíg því að skerða með þessum hætti framlögin í Framkvæmdasjóð aldraðra og munum gera ítarlega grein fyrir því þegar það mál kemur til meðferðar, væntanlega á mánudag eða þriðjudag, þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra. Til þess hins vegar að bæta það upp sem tapaðist ef skerðingin í Framkvæmdasjóði aldraðra yrði felld niður, þá flytjum við þessa tillögu þannig að Hjúkrunarheimilið Eir fari örugglega af stað á næsta ári, jafnvel þótt menn ákveði að skerða ekki Framkvæmdasjóð aldraðra eins og hæstv. heilbrrh. leggur til.
    Samkvæmt þessari tillögu okkar má gera ráð fyrir því að það yrði unnt að taka í notkun milli 40 og 50 rúm við Hjúkrunarheimilið Eir á árinu 1993 og það mundi létta mjög verulega á þeim mikla þunga hjúkrunarsjúklinga, aldraðra sem eru á heimilum um þessar mundir og fá hvergi inni á hjúkrunarheimilum.
    Samkvæmt upplýsingum sem ég hef nýjastar frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar eru um 150 aldraðir Reykvíkingar sem búa við svokallaða mjög brýna þörf fyrir hjúkrunarrými, um 150 einstaklingar. Og það er ljóst að það mun verulega muna um það ef Hjúkrunarheimilið Eir kemst af stað á næsta ári og má þá búast við því að í þessum hópi geti fækkað um u.þ.b. 1 / 3 ef þessi brtt. sem við flytjum, þrír hv. þm. verður samþykkt.
    Ég hef þá, virðulegi forseti, mælt fyrir þessum þremur tillögum okkar og tel út af fyrir sig ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þessar tillögur sem ég flyt hér en áskil mér rétt til þess að taka þátt í umræðunni síðar, ef þörf krefur.
    Ég vil aðeins nefna það að hér liggur fyrir tillaga frá hv. 2. þm. Vesturl., sveitunga mínum Sigurði Þórólfssyni, um að gefa samtökunum SÁÁ Staðarfell í Dölum. Ég segi það alveg eins og er og vil láta það koma fram hér þannig að það fari ekkert á milli mála að ég mun reyna að hafa liðsafnað sem mest ég má til að fella þá tillögu. Ég tel að það sé algerlega fráleitt að fara að gefa almennum félagasamtökum stað eins og þennan, Staðarfell í Dölum ( Gripið fram í: Það er ekki tillaga um það.) miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi, heldur að afhenda er það ekki? ( Gripið fram í: Nei, nei.) Heldur hvað? ( Gripið fram í: Það er verið að tala um húseignir, húseignir á jörðinni.) Það breytir engu í þessu sambandi, hv. þm.,

vegna þess að það er verið að gefa með þessum hætti almennum félagasamtökum þær stofnanir, það húsnæði sem tilheyrir helst og minnir sterkast á sögu þessa svæðis og það er enn þá fáránlegra að gefa SÁÁ eða afhenda þessar húseignir heldur en það jafnvel væri að afhenda almennum félagastofnunum einhverjar menningarstofnanir sem við eigum hér á Reykjavíkursvæðinu og allir mundu skilja að væri fáránlegt að gefa einhverjum almannasamtökum. Þegar aftur kemur að menningarstöðum sem tilheyra dreifbýlinu af einhverju tagi þá geta menn rokið upp til handa og fóta og sagt, það er best að gefa einhverjum þetta. Þetta er alger fjarstæða að mínu mati og ég gæti talað um þetta mál lengi því ég þekki þar allvel til eins og hv. flm. þekkir mætavel.