Fjárlög 1993

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 17:17:35 (3945)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég tel rétt að taka það fram að ráðherrar verða stundum til að lengja hér umræður með athugasemdum sem eru dálítið sérstakar og koma mönnum oft til að hugsa.
    Hér hefur verið flutt frekar meinleysisleg tillaga á þann veg að afhenda SÁÁ eignir sem þeir hafa fengið án hárrar húsaleigu að undanförnu, eftir því sem ég best veit, en fróðlegt væri að fá það uppgefið við þessa umræðu hve há sú húsaleiga hefur verið sem SÁÁ hefur greitt á Staðarfelli í Dölum.
    Þegar það er lagt til af þingmanni Vesturl. að þessar húseignir sem þeir hafa haft þar til afnota verði afhentar þeim til eignar rís hæstv. heilbrrh. á fætur og boðar að þeir gefi sem eigi og talar um það í miklum vandlætingartón, þó ekki sé meira sagt, að menn séu að gefa eigur ríkisins. Við höfum horft á það víða úti um land að eigur ríkisins hafa verið látnar grotna niður samfélaginu á engan hátt til góðs. Og satt best að segja hafa kannski flestir þingmenn trúað því að SÁÁ hafi ekki safnað í digra sjóði, en það má vel vera að samtökin séu svo vel alin af núv. hæstv. heilbrrh. að þar verði til digrir sjóðir til að kaupa jarðir. Og hvað er það sem er verið að dylgja um? Jú, hæstv. heilbrrh. vill selja þeim Staðarfell í Dölum. Hann segir að þeir séu reiðubúnir að kaupa á því verði sem um semjist. Það er nú svo. Menn geta varla verið reiðubúnir að kaupa á því verði sem um semst nema þeir séu þá nokkuð sannfærðir um hvaða verð er verið að tala um. Ef hæstv. ráðherra er með ákveðnar tölur í því sambandi væri gott að þær kæmu fram.
    Við höfum ástæðu til þess að vantreysta hæstv. ráðherrum þegar kemur að því að selja eigur ríkisins. Ég flutti hér einu sinni ræðu um sölu á Flatey á Mýrum. En ég tel óhjákvæmilegt vegna þessara orða ráðherrans að skoða hér eina jarðarsölu sem framkvæmd hefur verið af ráðherra þessarar ríkisstjórnar sem nú situr og má kannski segja sem svo að þeir gefi sem eiga. Þessi kaupsamningur er á milli landbrh. fyrir hönd jarðadeildar landbrrn. við Garðabæ. Og, með leyfi forseta, hefði ég áhuga á að lesa hér upp örfá atriði úr þessum samningi sem skipta höfuðmáli.
    Í fyrsta lagi kemur fram að verið er að selja mörg leigubýli, það er verið að selja lóðir sem einstaklingar hafa haft sem byggingarland og þessi jörð er kirkjustaður. Við skulum lesa, með leyfi hæstv. forseta, 3. gr. sem hljóðar svo:
    ,,Námuréttindi og réttur til efnistöku, þar með talin sand- og malarnám og vatns- og jarðhitaréttindi umfram heimilisþarfir ábúenda jarða ásamt nauðsynlegri aðstöðu til að hagnýta framangreind réttindi, eru undanskilin sölu þessari.``
    Mér er nú forvitni á að spyrja: Hver er ábúandi jarðanna eftir að búið er að byggja á þeim íbúðarhús? Er það Garðabær? Ég sé ekki að annar geti verið þar ábúandi. Og það kemur varla svo mikið vatn upp úr jörðinni að Garðabær sem ábúandi gæti ekki sagt að þeir þyrftu að nota það heita vatn. Þannig að ég sé ekki annað en að hér sé verið að selja heita vatnið án þess að á það sé minnst ef það skyldi nú vera þarna.
    ,,Sé áformað að selja jarðirnar að hluta eða í heild á ríkissjóður og landbrn. forkaupsrétt fyrir hlutafallslega sama verð og jarðirnar eru nú seldar á að viðbættum verðmætisauka vegna framkvæmda eftir að ríkissjóður seldi jarðirnar.
    Jörðin Garðar er kirkjustaður og skuldbindur kaupandi sig til að heimila sóknarnefnd og kirkjugestum óhindraða umferð að og frá kirkju`` --- takið nú eftir. Það er samið um óhindraða umferð að og frá kirkju og kirkjugarði --- ,,og heimilar sóknarnefnd eftirlitslaust afnot af nauðsynlegu landi undir bílastæði fyrir kirkjugesti innan marka núgildandi aðalskipulags.``
    Hér er tryggilega frá því gengið að sóknarbörn muni bæði komast til kirkju og frá kirkju og jafnframt að þau komist á bílum sínum en þurfi ekki að fara gangandi eða ríðandi til kirkju og er það auðvitað vel að einhver fyrirvari sé hafður í samningnum.
    ,,Þá skuldbindur kaupandi sig til að láta af hendi endurgjaldslaust land undir stækkun kirkjugarðs telji viðkomandi yfirvöld þörf á stækkun hans. Yfirlýsingu með efni framangreindrar málsgreinar skal þinglýst sem kvöð á jörðina Garða.``
    4. gr. hljóðar svo:
    ,,Samningi þessum fylgir yfirlit yfir byggingarbréf og leigusamninga ásamt skrá yfir ábúendur og leigutaka, merkt fylgirit tvö. Kaupandi tekur við réttindum og skyldum seljanda samkvæmt samningi þessum.
    Söluverð jarða og eigna ríkisins á þeim er umsamið 49 millj. 200 þús. kr. og sundurliðast þannig:
    Byggingarland 102,3 hektarar --- 46 millj. 200 þús. kr.
    Útivistarsvæði 131,1 hektari --- 5 millj. 900 þús. kr.
    Náttúruverndarsvæði 176,6 hektarar --- 1 millj. 200 þús. kr.
    Lækkun vegna kvaða á byggingarlóðum --- 1 millj. 200 þús. kr.``
    Þess vegna getum við strikað það út á móti þessum 176 hekturum sem eru útivistarsvæðið. Þeir eru látnir af hendi sem lækkun vegna kvaða á byggingarlóðum. Það er sama tala.
    ,,Lækkun vegna stærðar lands 2,9 millj.`` þ.e. afsláttur út á stærðina. Og ef við drögum þetta frá útivistarsvæðinu þá kemur í ljós að þar eru ekki eftir nema 3 millj. kr. Það vekur spurningu um hvort ekki hefði verið ráð að selja örlítið minna og sleppa við þennan afslátt.
    ,,Söluverð: Samkvæmt 1. mgr. lofar kaupandi að greiða svo sem hér segir:
    Við undirskrift samnings 5,2 millj. kr.
    Eftirstöðvar kaupverðs greiðir kaupandi á afsalsdegi með útgáfu skuldabréfs er greiðist með jöfnum árlegum afborgunum á 10 árum, í fyrsta skipti 10. ágúst 1993. Skuldabréfið er verðtryggt samkvæmt lánskjaravísitölu með 3.230 stigum í júlímánuði 1992 og ber 2% vexti.``
    Nú er það skaði að úr þingdeildinni er horfinn sá þingmaður sem kvartaði sáran undan 6% ávöxtun við sölu á skemmu á hafnarkantinum í Reykjavík. Kvartaði sáran. Það er náttúrlega ekkert skrýtið þegar við vitum að ráðherrarnir eru að gera svona samninga að við spyrjum: Á hvaða verði selja þeir þá Staðarfell í Dölum? Er það náttúruverndarsvæði? Er það á útivistarsvæðisverðinu? Á hvaða verði ætla þeir að selja Staðarfell í Dölum?
    Það eru ljótu hræsnararnir sem tala á þennan hátt. Ég segi fyrir mig að ég væri andvígur því að selja Staðarfell í Dölum. Ég væri andvígur því. En ég tel ekkert athugavert við það þó að hægt sé að líta á það sem framlag í peningum til SÁÁ að láta þá fá þar eignir í húsum. Það er allt annað mál. Með því móti er verið að vinna að því að sú starfsemi sem þeir hafa haft þar geti haldist. Ég hef hvergi lesið það í þeim tímaritum sem mér hafa borist á mína skrifstofu varðandi upplýsingar um meðferð á áfengissjúklingum að grasnytjar séu sérstaklega hentugar í því sambandi, hvorki fjallagrös né annað, eða sölvatekja. Þetta hefur ekki komið á mitt borð. Það má vel vera að hin nýju fræði telji að þetta byggi á einhverjum slíkum hlutum.
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst kirkjan nokkuð grátt leikin með svona vinnubrögðum. Það má vel vera að menn telji sumir að Garðabær hafi ekki fjárráð til að kaupa þetta á fullu verði. En hvers vegna er þá verið að selja alla jörðina? Nægir þá ekki að afhenda það land sem þeir geta hagnýtt sér? Hver er tilgangurinn með því að afhenda eigur ríkisins eða réttara sagt kirkjunnar á þennan hátt? Því að við skulum skilja á milli vegna þess að vissulega eru ekki allir Íslendingar í þjóðkirkjunni. En þetta er kannski alveg í takt við tímann þegar maður skoðar aðrar aðgerðir núv. ríkisstjórnar svo sem fjármálaráðstafanir á sviði kirkjumála sem eru í sérstöku frv. til laga um fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumrn.
    En það hlýtur að vera spurning þegar ráðherra kemur hér upp og hellir sér yfir varaþingmann sem hefur sest hér inn og flytur tillögu sem áður var flutt af aðalþingmanni sama kjördæmis, hv. 2. þm. Vesturl., að þá skuli þeir láta sem svo að þeir viti ekki hvað þeir eru að gera í ríkisstjórn Íslands. En ég verð að segja eins og er að mér finnst prestastéttin ekki halda vöku sinni ef hún telur að hægt sé að afhenda samning eins og þennan og una því. Það eru engin ákvæði í þessum samningi um það að ef útivistarsvæði sé tekið og því breytt í byggingarland þá breytist kaupverð. Það eru engin ákvæði um það ef náttúruverndarsvæðinu yrði breytt í byggingarsvæði að þá breytist kaupverðið. Það eru engin slík ákvæði. Það eru aftur á móti ákvæði um það að ef þeir láta sér detta í hug að selja landið, hreinlega fara að braska með það í ofanálag, þá eigi ríkið forkaupsrétt, en verði að kaupa dýrara verði ef það hefur hækkað vegna framkvæmda sem þeir hafi unnið á landinu, án þess að það komi nokkurn hlut fram hvaða takmörk eru þar á.
    Hæstv. forseti. Auðvitað á það ekki við í önnum nú rétt fyrir jólin að hafa langt mál um þessa hluti. En ég verð að segja eins og er að þegar svona er haldið á málum og ráðherrar telja sér skylt að ráðast á hin smæstu atriði sem koma fram í brtt. þá hlýtur það að gerast að óbreyttir þingmenn standi upp og tali um þessa hluti. Við framsóknarmenn höfum haft það skipulag á að skipta nokkuð með okkur verkum og ég hef ekki farið í þessa fjárlagaumræðu og hugðist ekki gera það en þegar svona er vegið, eins og hér kom fram, þá taldi ég ekki annað fært en að upplýsa um þá hluti sem ég vissi um og hafði undir höndum. En ég verð líka að segja það varðandi 6. gr. fjárlagafrv. að mér finnst heimildirnar allt of rúmar. Ég vil spyrja, af því að ég sé að hér hefur kvatt sér hljóðs fulltrúi í fjárln., sem ætlar vafalaust að gera athugasemdir við það sem ég hef sagt, ég vil spyrja um lið 5.2, að kaupa húseignir og lóðir í nágrenni Arnarhvols í Reykjavík fyrir Stjórnarráð Íslands og taka til þess nauðsynleg lán. Hvar endar nágrennið? Hvar endar nágrenni þessara húseigna? Eru það 100 m, 200 m eða kílómetri? Það er talað um nágrannabæi. Hvar endar þetta nágrenni? Hvaða heimildir er verið að gefa út með svona yfirlýsingum? Hvaða upphæðir er verið að heimila ríkisstjórninni að nota? Hvar er þakið á þessu fjárlagafrv. ef svona heimildir eru hafðar opnar inni?
    Svo kemur liður, með leyfi hæstv. forseta, 5.3: Að kaupa eða leigja húsnæði fyrir aðalskrifstofu ráðuneyta og taka til þess nauðsynleg lán. Hvar er þakið á þessari heimild? Er það fyrir öll ráðuneytin sem þarf að kaupa húsnæði? Og ef svo er, fyrir hvaða upphæð? Er ekki ráð að gá örlítið að sér, jafnvel þó það sé bara 6. gr. sem menn eru að tala um? Er ekki nauðsyn að gá að því hvaða heimildir menn eru að veita ríkisstjórninni? Það hefur ekki staðið á því að þenja út skrifstofuhúsnæði ráðuneytanna. Ég man eftir því fyrst þegar það var allt staðsett í Arnarhvoli utan skrifstofa menntmrn. Hér eru líka opnar heimildir til kaupa á húsnæði á erlendri grund. Það má vel vera að þetta verði allt undir kontról.
    En liður 6.7 er ekki smáræðisheimild. Heimildin er á þann veg að þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Að fella niður eða fresta greiðslum úr ríkissjóði á árinu 1993, m.a. með því að leggja niður tímabundið eða til lengri tíma starfsemi ríkisstofnana að fengnu samþykki ríkisstjórnar og fjárlaganefndar.`` --- Hér stendur reyndar fjárlaganefndar, en ég hygg að það sé átt við að nefndin samþykki ef meiri hluti nefndarinnar samþykkir. Og þetta er opin heimild til að leggja niður hvaða ríkisstofnun á Íslandi sem er, ef ríkisstjórnin samþykkir og ef meiri hluti fjárlaganefndar samþykkir. Hvaða ríkisstofnun sem er.
    Að mínu viti eru svona heimildir eins og ég hef verið að lesa upp út í hött. Það sæmir ekki mönnum sem sitja í fjárln. að afgreiða þær á þennan hátt. Ég hef barist gegn því alla tíð að afgreiða opnar heimildir út úr fjárln. Ég hef barist gegn því. Mér hefur ekki gengið of vel því þrýstingurinn frá ráðherrunum að ná svona heimildum út er alveg ótrúlegur og ég er sannfærður um það að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson gerir sér grein fyrir þessum mikla þrýstingi og hefur orðið var við hann.
    Hæstv. forseti. Ég tjáði forseta að ég ætlaði ekki að tala langt mál og ég vona að ég hafi ekki brotið þá yfirlýsingu mína með því að geta um þessa hluti sem ég hef minnst á í ræðu minni. Ég hef ekki hugsað mér að lengja þessa umræðu nema þeir hlutir gerist að hér komi fram nýjar upplýsingar á þann veg að það sé óhjákvæmilegt að svara þeim í nokkru máli.