Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 14:04:10 (3959)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að það hefur verið staðfest hér að kirkjan hefur ekki samþykkt þessa skattlagningu. Hins vegar orðaði þingmaðurinn það þannig að það hefði verið haft samráð við kirkjuna um það hvernig þetta væri framkvæmt ef ég skildi hann rétt. Það er dálítið hættuleg kenning, hv. þm. Með þeirri kenningu væri hægt að halda því fram að haft væri samráð við mann um að taka hann af lífi með því að gefa honum kost á því að segja álit sitt á því hvort hann vildi heldur vera skotinn eða hengdur. Ef hann veldi það að vera hengdur þá kæmi hv. þm. hér upp í ræðustól og gæti sagt: Það var haft samráð við manninn um að hann væri hengdur. Svona málflutningur nær auðvitað ekki nokkurri átt, hv. þm. Þótt aðili eins og kirkjan tjái sig um það að af tveimur vondum kostum velji hún frekar annan er ekki þar með hægt að túlka það sem samráð við kirkjuna því að hugtakið samráð hefur almennt haft þá merkingu hér í þingsölum að með jákvæðum hætti hafi aðilar tekið þátt í mótun mála. Ef farið er að túlka orðið samráð með þeim hætti sem þingmaðurinn gerði hér þá tel ég það mjög hættulega túlkun og vona að menn

fari ekki að misnota þetta orð með þessum hætti.
    Ég mun hins vegar í efnisræðu minni víkja nánar að þessu máli því að þetta er auðvitað mjög merkilegt mál og mjög dæmigert fyrir málflutning forustumanna Sjálfstfl. Ef forusta Sjálfstfl. getur leyft sér að spila með þjóðkirkjuna eins og forusta Sjálfstfl. hefur gert í þessu máli þá er alveg ljóst að þeim flokki er ekkert heilagt. Það sem stendur eftir er að stærsti stjórnmálaflokkur landsins hefur leyft sér að spila með biskupinn yfir Íslandi, spila með kirkjuþing og spila með þjóðkirkjuna með yfirlýsingum sínum.