Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 14:10:49 (3964)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem er til umræðu fór hraða ferð í gegnum hv. allshn. Ég tel að það hafi greitt mjög fyrir störfum í nefndinni að fallið var frá I. kafla frv., þ.e. 1.--29. gr. um hreppstjóra og þetta er gert af töluvert meira raunsæi en margt af því sem gerist hér þessa dagana. Það var einfaldlega ljóst að enginn meiri hluti og enginn áhugi var á að fella niður þessi störf án þess að hugsa það til enda hvernig staðið yrði að því að deila þeim verkum á aðra. Auk þess lá það alls ekki fyrir að það yrði gert á ódýrari eða betri hátt. Í raun voru engin efnisleg rök fyrir því að taka þessa ákvörðun þannig að það kom augljóslega fram að þetta hefði verið frumhlaup og sá sparnaður sem átti að nást þarna fram mundi ekki nást fram. Hugsanlega yrði þarna um töluverðan kostnaðarauka að ræða eins og kemur fram í nál. okkar í minni hluta allshn. Ég fagna því auðvitað þegar skynsamlegar ákvarðanir eru teknar og vildi gjarnan að þær yrðu fleiri á næstunni.
    Mér þykir mest ástæða til að gera 30. gr. að umræðuefni en hún er um sérstakan 100 kr. skatt sem lagður yrði á við skoðun ökutækja og á að renna til umferðaröryggismála. Ég lýsti því yfir við 1. umr.

málsins að ég óttaðist að um væri að ræða raunverulega skattlagningu sem skilaði sér ekki til umferðaröryggismála og þar af leiðandi færi bara í þá hít sem við stjórnarandstæðingar erum mjög ósáttir með hvernig skipt er. Við erum mjög ósátt með þá forgangsröðun sem þar er. Hins vegar kom fram í nefndastörfum að Óli H. Þórðarson, framkvæmdastjóri Umferðarráðs, taldi nokkuð tryggt að þær tekjur, sem fyrirheit voru gefin um að mundu skila sér til Umferðarráðs og renna sérstaklega til umferðaröryggismála, mundu í fyrsta lagi skila sér til ráðsins og í öðru lagi nýtast þar vel. Um hið síðara var ég svo sem ekki með neinar efasemdir en hið fyrra þótti mér að fenginni reynslu full ástæða til að efast um. Ég get hins vegar ekki annað en fagnað því að verja eigi meira fé til umferðaröryggismála þar sem ég tel að þar sé ekki um eyðslu á fjármunum að ræða heldur hreinlega góða fjárfestingu í fyrirbyggjandi aðgerðum og að ekki sé hægt annað en styðja slíkt.
    Nokkrar umræður urðu um þessa grein vegna þess að jafnframt átti að vísitölubinda þessar 100 kr. Alkunna er að mikið er um að gjöld séu vísitölutengd og hækki sjálfvirkt en þeir peningar sem fólk á að greiða þessa skatta með eru aftur á móti ekki vísitölutryggðir. Af þessu leiðir að þarna um misgengi að ræða sem tekur ekki nokkru tali. Því höfum við í minni hlutanum borið fram brtt. sem gerir ráð fyrir því að þetta sé fellt út, en við styðjum hins vegar efni greinarinnar, þennan 100 kr. skatt þótt um skattlagningu sé að ræða og eingöngu vegna þess að verið er að gera átak í umferðaröryggismálum. Ég held að engum blandist hugur um að slíkt átak er nauðsynlegt. Ég vil benda á það að í stærsta átaki sem gert hefur verið í umferðaröryggismálum þegar hægri umferðin var tekin upp árið 1968 dró mjög verulega úr umferðarslysum. Það er til vansa hér á landi hversu tíð umferðarslys eru á ungum börnum og því má ekki spara. Þarna er ekki síst um velferð og öryggi barna að ræða og við stöndum okkur mjög illa í umferðaröryggismálum á marga vegu. Ég tek undir það sem hv. 2. þm. Vestf. sagði fyrr í umræðunni að auðvitað þarf að gera meira en að verja fé til Umferðarráðs. Það þarf líka að gæta að því að umferðarmannvirki séu örugg og góð og séu hönnuð með öryggismál en ekki hraðakstur í huga. Ég held því að þessi fjárfesting sé af hinu góða.
    Sú skerðing sem enn og aftur verður á kirkjugarðsgjöldum og þau svik sem hafa orðið við kirkjuna hafa nú þegar verið rakin mjög ítarlega af hálfu minni hlutans og ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það. Hins vegar tek ég fyllilega undir þá umfjöllun og ég held að við getum einfaldlega ekki látið það eftir okkur að vera að gefa einhver fyrirheit og standa ekki við þau eða beinlínis að svíkja gefin loforð. Það á ekki að skipta máli hver á í hlut, allir eiga að geta treyst fyrirheitum. Því miður hefur oft komið fyrir að fyrirheit sem launþegasamtök hafa fengið verða að engu, lögbundnir tekjustofnar sem ætlaðir eru til ýmissa aðila, m.a. til kirkjunnar, eru skertir og þetta er gert meira og minna án samráðs og stundum í fullu trássi við þá aðila sem við er að eiga og þessu hljótum við alla tíð að verða að mótmæla. Undan því verður ekki vikist ef við þykjumst ætla að sinna störfum okkar. Því tek ég undir þetta.
    Ég læt þessu lokið að sinni og vil þá sérstaklega minna á að allar líkur eru á því að 30. gr. um umferðaröryggismál njóti víðtæks stuðnings og ég hef ákveðnar efasemdir um að nokkuð hefði átt að standa eftir af þessu frv. nema 30. gr. án vísitöluákvæðisins. Það hefði verið langhyggilegast að fella frv. nánast algerlega út og skilja eftir þessa 30. gr. og þó ekki óskerta. Það hefði verið sátt um það hér. Við heyrum það að jafnvel þótt stjórnarsinnar muni nauðugir samþykkja eða fara út í hjásetu við 31.--33. gr. frv. hefði verið hyggilegra að skera þarna framan og aftan af frv. Raunar er lítið eftir framan til þegar 1.--29. gr. eru horfnar en hvers vegna þá ekki að taka 31.--33. gr. líka og þessa liði sem við minni hluti allshn. leggjum til að falli brott úr 30. gr.? Þá hefði verið hægt að greiða atkvæði um það sem eftir stóð sem voru slitur úr 30. gr. því það er það eina sem eitthvert vit er í í þessu frv.