Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 14:20:46 (3965)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að fara með texta, með leyfi virðulegs forseta, og biðja þingmenn að hugleiða það meðan ég flyt þennan texta hver sé höfundurinn. Tilvitnunin er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Opinber átök milli þjóðkirkjunnar og stjórnvalda eru fátíð. Það bar þó til tíðinda í þessari viku að kirkjunnar menn með biskupinn yfir Íslandi í fararbroddi fylkingar settu fram hvassa gagnrýni á ríkisstjórnina fyrir samskipti við þjóðkirkjuna. Deilan snýst um eins konar þjófnað ríkissjóðs á hluta af tekjum kirkjunnar.`` Hér kemur innskot frá mér. Ég vil vekja athygli þingmanna á því að höfundur þessara orða líkir málinu við þjófnað á tekjum kirkjunnar. Nú lýkur innskoti mínu og ég byrja aftur að lesa textann:
    ,,Þessi þjófnaður er þó ekki refsiverður samkvæmt hegningarlögum fyrir þá sök að ríkisstjórnin lét stjórnarmeirihlutann heimila hann með sérstöku lagaákvæði og nú eru uppi áform um að endurtaka leikinn á næsta ári.
    Það er að vísu ekki nýtt af nálinni að lögbundin framlög til margvíslegra framkvæmda séu skert með sérstökum heimildarákvæðum til eins árs í senn. Allir stjórnmálaflokkar, sem tekið hafa þátt í ríkisstjórn, bera ábyrgð á slíkum aðhaldsaðgerðum. En á því er reginmunur að skerða lögbundin framlög til ákveðinna verkefna með þessum hætti og hinu að taka hluta af tekjustofni sjálfstæðra aðila eins og þjóðkirkjunnar og setja í ríkissjóð. Satt best að segja tekur slík framkoma út yfir allan þjófabálk.
    Áður fyrr byggðust tekjur kirkjunnar á sjálfstæðum gjöldum sem sérstaklega voru lögð á og innheimt í hennar þágu. Þegar staðgreiðslukerfi skatta tók gildi varð um það samkomulag að fella gjöld til kirkjunnar inn í staðgreiðslukerfið með svipuðum hætti og til að mynda útsvar sveitarfélaga. Í því efni sýndu kirkjunnar menn skilning og samstarfsvilja þegar stjórnvöld töldu nauðsynlegt að einfalda skattheimtuna. Það er alveg forkastanlegt að þessi góði samstarfsvilji þjóðkirkjunnar á sínum tíma skuli nú vera látinn koma henni í koll.`` Hér kemur innskot frá mér. Ég vek athygli á að höfundur þessa texta talar um gjörninginn sem forkastanlegan. Lýkur hér innskoti mínu og held ég áfram með textann:
    ,,Ríkisstjórnarmeirihlutanum hefur enn ekki komið til hugar að taka hluta af útsvari sveitarfélaganna og setja í ríkissjóð. Vera má að vísu að þeim hafi komið það til hugar en víst er að þeir hafa ekki þorað að leggja til atlögu við sveitarfélögin því að ráðherrarnir vita að þeir þyrftu ekki að kemba hærurnar eftir slíka atlögu. Ráðherrarnir virðast á hinn bóginn treysta því að þjóðkirkjan eigi ekki jafneinarða talsmenn og sveitarfélögin til að verja rétt sinn gagnvart löghelguðum þjófnaði af þessu tagi.`` Kemur hér aftur innskot frá mér að höfundur þessa texta kallar efnisatriðin löghelgaðan þjófnað. Lýkur hér innskoti mínu og held ég áfram með textann:
    ,,Mikilvægt er því að allur almenningur sýni samstöðu með þjóðkirkjunni``, og vek ég nú athygli hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar á þessari hvatningu og held áfram: ,,og knýr ríkisstjórnina til undanhalds. Tekjur kirkjunnar eru tengdar tekjum einstaklinganna. Þær dragast því saman þegar kaupmáttur rýrnar með sama hætti og tekjur heimila og ríkissjóðs. Kirkjan tekur þannig sjálfkrafa þátt í öllum þeim þrengingum sem að þjóðarbúinu geta steðjað. Starfsmenn þjóðkirkjunnar hafa tekið á sig sinn hluta þjóðarsáttar. Kirkjan á ekki að gjalda þess að ríkisstjórnin hefur engin tök á útgjöldum ríkissjóðs og hallinn er jafnmikill og raun ber vitni þrátt fyrir 13 milljarða í nýjum sköttum á einstaklinga og atvinnufyrirtæki. Kjarni málsins er sá að ríkisvaldinu ber að standa við það samkomulag og þá sátt sem gerð var við kirkjuna þegar staðgreiðslukerfi skatta var lögleitt. Sú deila sem nú stendur milli þjóðkirkjunnar og ríkisstjórnarinnar er ráðherrunum til háðungar og skammar.`` Kemur nú aftur innskot frá mér að höfundur þessa texta telur slíkan verknað vera ráðherrum til háðungar og skammar. ( Gripið fram í: Voru það 13 milljarðar, Ólafur?) Heldur nú textinn áfram:
    ,,Þær upphæðir sem hér er um að tefla skipta kirkjuna vitaskuld meira máli en ríkissjóð þó að þær ráði ekki úrslitum um fjárhagslegt sjálfstæði hennar. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar lýsa hins vegar siðferðisbresti sem almennt er ósæmilegur en ætti síst að koma í ljós í samskiptum ríkis og kirkju.`` Lýkur hér þessum texta.
    Þetta, virðulegi forseti, er úr grein Þorsteins Pálssonar, þáv. formanns Sjálfstfl. og núv. dóms- og kirkjumálaráðherra um þær tillögur sem ég flutti sem fjmrh. að láta kirkjuna taka vissan þátt í greiðslu ýmissa útgjalda á vegum kirkjunnar ( Gripið fram í: Og hins opinbera) og hins opinbera. Biskupinn yfir Íslandi tók mark á þessum orðum, hann gerði það. Margir kirkjunnar menn tóku mark a þessum orðum. Almenningur tók mark á þessum orðum að Sjálfstfl. ætlaði ekki að sýna þann siðferðisbrest gera slíkt og hið sama. Hann ætlaði ekki að taka þátt í löghelguðum þjófnaði, svo maður noti nú orðalag þáv. formanns Sjálfstfl. Þessi merki maður, núv. hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur gert meira. Hann hefur gengið á kirkjuþing, sem er löghelgaður samráðsvettvangur lærðra og leikra um veraldleg málefni kirkjunnar, og flutt orð sem allir á kirkjuþingi telja að eigi að standa. Hvað sagði dómsmrh. á kirkjuþingi? Hann sagði eins og hér hefur verið vitnað til: ,,En við fjárlagagerð næsta árs verður þessi tekjustofn óskertur eins og ég skýrði biskupi fyrir nokkru frá að í undirbúningi væri.`` Með öðrum orðum, dómsmrh. hefur ekki aðeins farið á kirkjuþing og lýst því yfir að horfið verði frá þessu. Hann hefur einnig átt einkafund með biskupnum yfir Íslandi til þess að fullvissa biskupinn yfir Íslandi um það að hann geti treyst því. Síðan segir áfram í ávarpi dómsmrh. á kirkjuþingi:
    ,,Kirkjunnar menn vita að það er ekki alltaf hlaupið að því að kveða niður drauga sem vaktir hafa verið upp. En það verður eigi að síður að því er þennan varðar gert við næstu fjárlagagerð sem verður sú fyrsta sem þessi ríkisstjórn vinnur að með fullum undirbúningstíma.``
    Annar forustumaður Sjálfstfl. tók einnig til máls við umræðu um þetta efnisatriði á Alþingi og ég ætla einnig að láta menn geta hver það hafi verið. Hann sagði, með leyfi forseta:
    ,,Þessi hugmynd þeirra er ekki fædd í kirkjumálaráðuneytinu heldur í fjmrn. og dettur manni þá í hug það sem maður hefur lesið, að það á ekki að rétta skrattanum litla fingur því þá tekur hann alla höndina. Nú má segja að ekki megi rétta skrattanum litla fingur því þá tekur hann alla höndina og ætti hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra að læra af því.``
    Hver var það sem líkti þessari tillögu þáv. fjmrh. við það að skrattinn tæki alla höndina af kirkjunni? (Gripið fram í.) Jú, það er rétt sem einhverjum kemur hér í hug. Það er núv. hæstv. fjmrh. og varaformaður Sjálfstfl. sem kemur nú og leggur til að ekki bara önnur höndin sé tekin heldur báðar og er þá komin í hlutverk þess skratta sem hann sagði þjóðinni að Sjálfstfl. mundi verja kirkjuna fyrir. ( Gripið fram í: Hverjir styðja hann?) Núv. fjmrh.? (Gripið fram í.) Það er spurning hverjir styðja hann. Það kemur í ljós í atkvæðagreiðslunni. En ég nefni þetta hér, virðulegi forseti, vegna þess að ég er að velta því fyrir mér hvort engin takmörk séu fyrir pólitískri ósvífni og leikaraskap Sjálfstfl. Er það virkilega þannig að Sjálfstfl. sé ekkert heilagt í pólitísku spilverki sínu? Allt í lagi sé að ljúga að biskupnum, allt í lagi að ljúga að kirkjuþingi, allt í lagi að ljúga að þjóðkirkjunni, það skipti engu máli því að það sem er að gerast hér er að það hefur verið opinbert að formaður Sjálfstfl. laug að þjóðkirkjunni. Formaður Sjálfstfl. laug að biskupnum, dómsmrh. Sjálfstfl. laug að kirkjuþingi og fjmrh. Sjálfstfl. laug að íslensku þjóðkirkjunni og Alþingi. Á það svo að vera síðasta verk okkar hér fyrir jólin að lögfesta þessa framkomu Sjálfstfl. við biskupinn yfir Íslandi, þjóðkirkjuna og trúarstarfsemina í landinu? Ég skil vel að dómsmrh. þori ekki að vera hér lengur í salnum, virðulegi forseti. En ég ætla engu að síður að óska eftir því að hæstv. dómsmrh., hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. komi til umræðunnar því að þetta er ekki neitt venjulegt skattamál sem við erum að tala um. Þetta er spurningin um það hvernig menn haga sér í samskiptum við þjóðkirkjuna, biskupinn yfir Íslandi og kirkjuþing. Meðan verið er að ná í þessa virðulegu ráðherra, virðulegi forseti, þá ætla ég aðeins að rekja aðdraganda málsins til þess að tefja ekki tímann.
    Það er alveg rétt sem hefur komið fram að ég var þeirrar skoðunar í tíð minni í fjmrn. að það væri eðlilegt við þær aðstæður sem voru í þjóðfélaginu að hluti af framlögum kirkjunnar gengju til ýmissa útgjalda á vegum ríkisins. Ég fór ekkert leynt með þá skoðun. ( Gripið fram í: Hafðir forustu um það.) Já, já, hafði forustu um það og skammast mín ekkert fyrir, virðulegi þm. og er enn sömu skoðunar. ( Gripið fram í: Og naust stuðnings.) Og naut stuðnings, alveg rétt, allra nema Sjálfstfl. Það var ekki bara að Sjálfstfl. léti þetta afskiptalaust og styddi það ekki. Hann hóf gerningahríð gegn málinu og taldi yfirmönnum kirkjunnar á Íslandi trú um það að þeir gætu treyst því að Sjálfstfl. mundi afnema þetta. Og hann gerir meira. Hann fer á kirkjuþing og í embættisnafni dóms- og kirkjumálaráðherra lýsir því yfir að þessu verði lokið á árinu 1993. Slíkt gerðist aldrei í tíð síðustu ríkisstjórnar. Aldrei hefur verið farið dult með það í tíð síðustu ríkisstjórnar að menn teldu að kirkjan ætti að taka þátt í þessu. En Sjálfstfl. tók þátt í því að blekkja biskupinn yfir Íslandi, kirkjuþing og þjóðkirkjuna. Stjórnmálaflokkur sem hikar ekki við að blekkja þjóðkirkjuna, kirkjuþing og biskupinn yfir Íslandi er auðvitað kominn inn á dálítið merkilega braut.
    Það hefur verið rætt síðustu sólarhringa, m.a. af hv. þm. Inga Birni Albertsyni, með réttu, að Sjálfstfl. er að svíkja þau loforð sem gefin voru fólkinu í síðustu kosningum t.d. varðandi tekjuskattinn. Varaþingmaður Sjálfstfl., Hrafnkell A. Jónsson, sem hefur setið á þessu þingi, hefur lýst því yfir að hann treysti sér ekki til að ganga fyrir kjósendur á Austfjörðum aftur og segja: Kjósið þið Sjálfstfl., vegna þess að Sjálfstfl. sé að svíkja það sem helst var lofað launafólkinu á Austfjörðum fyrir síðustu kosningar, þ.e. að hækka skattleysismörkin. Ég er að ræða þetta hér vegna þess að flokkur sem hagar sér eins og Sjálfstfl. hefur hagað sér í þessu máli á undanförnum tveimur árum er auðvitað að svívirða svoleiðis öll lögmál lýðræðisins að það nær ekki nokkru tali. Nú eru hæstv. fjmrh., varaformaður Sjálfstfl. og hæstv. forsrh., formaður Sjálfstfl. komnir í áheyrnarfjarlægð og mig langar til þess að leggja fyrir þá þessa spurningu: Hver er skýring þessara manna á því að þjóðkirkjan og biskupinn yfir Íslandi geti ekki treyst yfirlýsingum forustumanna Sjálfstfl.? Og ég vil spyrja þá að því hvernig standi á því að Sjálfstfl. hefur með þessu frv. verið staðinn að því, hæstv. forsrh., að ljúga að biskupnum yfir Íslandi, ljúga að kirkjuþingi, ( Forsrh.: Talaðu varlega.) Ég þarf ekkert að tala varlega, ég er búinn að segja þetta nokkrum sinnum og það hefurt enginn gert athugasemd við það, og ljúga að þjóðkirkjunni, vegna þess að þannig eru staðreyndir málsins, hæstv. forsrh., og ef forsrh. er það ekki kunnugt, ( Forsrh.: Það er orðalagið.) já, orðalagið, þá ætla ég að rökstyðja það, hæstv. forsrh.
    Fyrirrennari forsrh. í embætti, þáv. formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson, skrifaði grein í Morgunblaðið 3. nóv. 1989 þar sem hann líkti þeim verknaði sem hér er í stjfrv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar við svo að ég vitni orðrétt í greinina, þjófnað ríkissjóðs á hluta af tekjum ríkissjóðs, og hann kallaði það löghelgaðan þjófnað og segir að það lýsi siðferðisbresti að standa að slíku hjá þeim ráðherrum. Það sé ósæmilegt og fleiri orð eru hér notuð af hálfu þáv. formanns Sjálfstfl. Biskupinn yfir Íslandi hefur lýst því yfir, hæstv. forsrh., að hann hafi treyst þessum orðum þáv. formanns Sjálfstfl. og biskupinn yfir Íslandi gerði meira, hæstv. forsrh. Hann kom í sjónvarp fyrir kosningar og hvatti íslensku þjóðina til þess að kjósa ekki þá stjórnmálaflokka sem stæðu að slíkri gjaldtöku. Af því að Sjálfstfl. var eini flokkurinn sem hafði sagst ekki mundu standa að slíkri gjaldtöku þá þýddu þessi orð biskupsins yfir Íslandi auðvitað að menn ættu að kjósa Sjálfstfl.
    Síðan fer hæstv. dómsmrh. í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar á kirkjuþing, hvorki meira né minna, hæstv. forsrh., og lýsir því formlega yfir á kirkjuþingi fyrir hönd ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að á árinu 1993 verði horfið frá þessu algerlega. Það er þess vegna sem ég nota þessi orð, hæstv. forsrh., að staðreyndirnar tala þessu máli og ekki er hægt að kalla hlutina öðrum nöfnum en hinum réttu. Ég gæti líka fyrir hæstv. forsrh. vitnað til orða núv. hæstv. fjmrh., varaformanns Sjálfstfl., sem sagði um þennan verknað á sínum tíma, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þessi hugmynd þeirra er ekki fædd í kirkjumálaráðuneytinu heldur í fjmrn. og dettur manni þá í hug það sem maður hefur lesið, að það á ekki að rétta skrattanum litla fingur því að þá tekur hann alla höndina. Nú má segja að ekki megi rétta skrattanum litla fingur því þá tekur hann alla höndina og ætti hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra að læra af því.``
    Hins vegar er alveg ljóst að núv. hæstv. fjmrh. og varaformaður Sjálfstfl., Friðrik Sophusson, er samkvæmt þessu frv. kominn samkvæmt eigin orðum í hlutverk skrattans og núv. hæstv. dómsmrh. hefur greinilega ekkert varað sig á því og verið búinn að gleyma þessari ræðu sem hv. þm. Friðrik Sophusson flutti á sínum tíma, að dómsmrh. ætti að læra af því að láta ekki skrattann taka alla höndina. ( Fjmrh.: Hann dregur dám af forvera sínum.) Hann dregur dám af forvera sínum, segir hæstv. fjmrh. Að vísu rétt að hæstv. fjmrh. hefur dyggilega endurflutt á þingi öll þau skattafrv. sem ég flutti á sínum tíma ( Fjmrh.: Þetta frv.) og bætt um betur. En vandinn er sá að Sjálfstfl. var á móti öllum þessum frv. á sínum tíma. Vegna þess að það er kannski ekki alveg sama hvernig menn haga sér í stjórnmálum þá hef ég viljað nota þetta tækifæri til að spyrja forustu Sjálfstfl., hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. og hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra: Eru engin takmörk fyrir því hvernig Sjálfstfl. leyfir sér að spila með þjóðkirkjuna? Ekki er hægt að skoða feril hennar öðruvísi en svo að Sjálfstfl. er bara að spila með þjóðkirkjuna því að málið er þannig að þegar það kemur fyrst upp samkvæmt minni tillögu þá ræðst Sjálfstfl. fram með formann sinn í broddi fylkingar og segir: Þetta er þjófnaður, þetta er siðleysi og við munum afnema þetta. Síðan fer sami maður þegar hann er orðinn dóms- og kirkjumálaráðherra á kirkjuþing og segir: Ég lofa ykkur því að þetta verður lagt niður 1993. Ég lofa ykkur því. Síðan kallar hæstv. dómsmrh. biskupinn á Íslandi á einkafund sinn, það kemur fram í þingskjali. Dómsmrh. kallar biskupinn yfir Íslandi á einkafund sinn og segir biskupnum að hann geti treyst því að þetta verði lagt niður á árinu 1993. Er furða þó maður spyrji hæstv. forsrh. að því, sem er formaður Sjálfstfl: Eru engin takmörk fyrir því hvernig Sjálfstfl. leyfir sér að spila með þjóðkirkjuna?
    Hitt er svo annað mál að þau sjónarmið sem liggja að baki þessu frv. eiga alveg rétt á sér að hinar miklu tekjur kirkjunnar hljóti að koma til skoðunar þegar við eigum hér í erfiðleikum. Það hefur verið skoðun mín í mörg ár. En ég hef ekki farið leynt með hana og ég hef fengið á mig áskorun frá biskupnum yfir Íslandi í stærsta og öflugasta fjölmiðli landsins að þess vegna eigi menn ekki að kjósa flokk minn. ( Forsrh.: Það voru margar aðrar ástæður til þess.) Það getur vel verið að hæstv. forsrh. finnist ýmsar aðrar ástæður vera til þess og ég efa það ekki því að annars væri hæstv. forsrh. sjálfsagt einn af kjósendum flokksins. En það breytir því ekki að þetta mál er af þeirri stærðargráðu að biskupinn yfir Íslandi sá ástæðu til þess að blanda sér inn í það hvernig fólk kysi á Íslandi vegna þessa máls. Ég held að það sé ekki hægt að finna mörg dæmi um það að biskupinn yfir Íslandi geri það.
    Kirkjunnar menn eru síðan í góðri trú um það að orð Sjálfstfl. standi og af því að hæstv. forsrh. hefur stundum verið að reyna að koma því yfir á okkur að við værum með allt aðra skoðun í stjórnarandstöðu en við værum í ríkisstjórn þá langaði mig til þess að fá þessa ágætu forustumenn Sjálfstfl. til að tjá sig aðeins um þetta vegna þess að ef þeir gera það ekki og láta þetta frv. koma til atkvæða og láta samþykkja það á Alþingi þá er alveg ljóst að þjóðkirkjan getur ekki treyst orði af því sem forustumenn Sjálfstfl. segja. Og þjóðkirkjan getur ekki treyst orði af því sem núv. hæstv. kirkjumálaráðherra segir.
    Vegna þess hvað hæstv. forsrh. er nú sæll á svipinn hér í þingsalnum yfir allri umræðunni þá kviknar hjá mér sú hugmynd að kannski liggi í þessu máli dálítið snyrtileg flétta af hálfu formanns Sjálfstfl. í þessum erfiðleikum sem hann á í í forustu Sjálfstfl. og hann tók til meðferðar í athyglisverðu tímaritsviðtali hér fyrir nokkru. Nú er það að vísu þannig að forsetadæmið á Alþingi hefur bannað að vitnað sé í tímarit, sem prentuð eru á glanspappír, þannig að ég ætla ekki að vitna mikið í þetta viðtal við hæstv. forsrh. Ég er þó þeirrar skoðunar að það megi vitna í hæstv. forsrh. hvort sem hann er prentaður á dagblaðapappír eða glanspappír. En í viðtalinu kom fram að hæstv. forsrh. átti í miklum erfiðleikum með fyrirrennara sinn á formannsstóli Sjálfstfl. innan ríkisstjórnar. Er það virkilega þannig, hæstv. forsrh., að forsrh. hafi lúmskt gaman af því að ómerkja kirkjumálaráðherrann svona gagnvart kirkjuþingi þannig að í hvert skipti sem dómsmrh. gengur til embættisathafna í kirkjunni, sem hann gerir oft í embættisnafni, þá horfi prestarnir og söfnuðurinn á hann og hugsi sem svo: Þarna er maðurinn sem sveik. Þarna er maðurinn sem sór rangan eið fyrir kirkjuþingi, þannig að það sé ekki bara LÍÚ sem hætti að styðja núv. hæstv. sjútvrh. heldur hætti líka þjóðkirkjan að styðja hæstv. kirkjumálaráðherra? Kannski er í þessu snyrtileg pólitísk leikflétta af þessu tagi. Þá fer maður kannski að skilja kæti hæstv. forsrh. yfir þessu máli að hann telji meira um vert að fórna í einhverju samskiptum við þjóðkirkjuna til þess að geta komið höggi á fyrirrennara sinn í formannsstóli í Sjálfstfl. vegna þess að þeirri orrustu er greinilega ekki lokið, samanber umrætt viðtal. En það veit ég auðvitað ekkert um. Ég hef enga möguleika til þess að vita hvað er satt í þeim efnum.
    Hitt er ljóst að verði þetta samþykkt þá stendur það eftir sem lærdómur þessa máls að slík er pólitísk óskammfeilni Sjálfstfl. að þeir hika ekki við að blekkja biskupinn yfir Íslandi, hika ekki við að blekkja kirkjuþing og hika ekki við að blekkja þjóðkirkjuna. Satt að segja er það dálítið sérkennileg jólakveðja frá Sjálfstfl. til kirkjunnar á Íslandi á því herrans ári 1992.