Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 15:19:04 (3979)


     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Mér þykir það leitt að hv. 2. þm. Suðurl. skuli ekki skilja svo einfalda framsetningu á máli eins og kom fram af minni hálfu hér áðan. Dóms- og kirkjumrn. lagði fram ákveðnar tillögur um heildarbreytingar á verkefnayfirfærslu til kirkjunnar sjálfrar. Kirkjunni þótti of skammur tími til að taka afstöðu til ýmissa grundvallarspurninga sem hlyti að þurfa að skoða áður en slíkar breytingar yrðu samþykktar. Og henni þætti það betri kostur að hafa slíka bráðabirgðaskipan á málum á næsta fjárlagaári en að gera kerfisbreytingu án frekari skoðunar. Ég hef aldrei haldið því fram að kirkjan hafi samþykkt að slík ráðstöfun yrði gerð en það kom fram af hennar hálfu að þessi leið væri skárri kostur. Og fulltrúar kirkjunnar hafa aldrei mótmælt því og þetta orðalag kemur fram í athugasemdum með frv. sjálfu ef hv. þm. sem eru nú að taka þátt í þessari umræðu hafa lesið það.