Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 15:42:44 (3987)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er erfitt að átta sig á vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar og stuðningsmanna hennar hér á þinginu. Hér er um að ræða tillögu sem hefur það að markmiði að staðið sé við ótvíræð ákvæði í búvörusamningi, viðauka 2 í búvörusamningi, undirskrifað og skuldbindandi af ríkisins hálfu. Svo er verið að vísa til þess að í sambandi við lánsfjáráætlun eigi að taka þetta mál upp, í frv. til lánsfjárlaga. Það hefur verið til umræðu í efh.- og viðskn. en þar hefur ekki verið orði á þetta mál minnst, er mér tjáð, og hefur þó ríkisstjórnin ætlað sér að koma því máli því fram fyrir jólin. Þetta eru slík vinnubrögð að það er alveg dæmalaust að stjórnarliðar, ekki síst þeir sem telja sig bera hag dreifbýlisins fyrir brjósti, skuli taka þátt í þessu. Ég segi að sjálfsögðu já við þessari tillögu.