Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 16:25:45 (4004)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Tilefni þessarar tillögu er að á síðasta ári hóf Hafrannsóknastofnun í samvinnu við aðila í sjávarútvegi vinnu að verkefni sem varðar rannsóknir á hrygningu og klaki þorsks. Ég spurðist fyrir um mál þetta eftir að í ljós kom að í fjárlagafrv. var ekki gert ráð fyrir framhaldi á fjárveitingum til þessa verkefnis. Í svari hæstv. sjútvrh. við fsp. um stöðu málsins kom fram m.a., ef ég leyfi mér að vitna í svar ráðherrans:
    ,,Í frv. til fjárlaga ársins 1993 er ekki gert ráð fyrir fjárveitingu til þessa verkefnis og var beiðnum um það hafnað. Ekki þarf þó að fara mörgum orðum um þjóðhagslegt mikilvægi þess að auka vísindalega þekkingu á því hvaða þættir það eru sem áhrif hafa á hvort klak heppnast. Er talið að að baki minnkandi stærðar þorskstofnsins liggi sú ástæða að klak hafi mistekist undanfarin ár þannig að 7--8 síðustu árgangar þorskstofnsins eru langt undir meðaltali. Ráðuneytið hefur af því vissar áhyggjur að verkefnið falli niður á næsta ári.``
    Þetta er tilvitnun í svar hæstv. sjútvrh. við fsp. sem varðar þetta mál sem hér eru greidd atkvæði um. Ég hafði gert mér vonir um að fjárln. í heild sinni tæki undir þessa tillögu á milli umræðna og dró hana því til baka við 2. umr. og vænti að menn sjái nú ástæðu til að styðja tillöguna.