Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 16:36:27 (4008)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér er gert ráð fyrir því að fella niður framlag til byggingar á nýju húsi fyrir Hæstarétt á árinu 1993. Við flm. erum þeirrar skoðunar að miðað við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu og í ríkisfjármálum sé ekki ástæða til þess að eyða 100 millj. kr. til að byrja byggingu á sérstöku húsi fyrir Hæstarétt. Ég vek athygli á því að í fjárlagafrv. sem nú er verið að afgreiða er gert ráð fyrir því að skera niður framlög til Kistnesspítala um 20--30 millj. Það er gert ráð fyrir því að skera niður framlög til Vífilsstaðaspítala um 20 millj. Það er gert ráð fyrir því að skera niður framlög til grunnskóla um 100 millj. og það er ekki króna í þessu fjárlagafrv. til þeirrar uppbyggingar á Kópavogshæli sem þó hafði verið samþykkt og staðfest bæði af stjórnarnefnd Ríkisspítalanna og af hæstv. heilbrrh. og af hæstv. félmrh. Við þessar aðstæður, virðulegi forseti, er það auðvitað algjörlega fráleitt að fara að leggja peninga í monthús fyrir Hæstarétt, gjörsamlega fráleitt. Af þeirri ástæðu höldum við þessari tillögu til streitu til þess að styrkja hag og stöðu ríkissjóðs og ég segi já, virðulegi forseti.