Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 16:55:42 (4016)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Framkoma hæstv. heilbrrh. í þessu máli er með öllu óþolandi. Hér er á ferðinni mjög hliðstætt mál því þegar hæstv. heilbrrh. á síðasta ári fékk tilteknar heilbrigðisstofnanir á heilann og notaði embætti sitt og aðstöðu til að níðast á þeim. Söguna frá Landakoti þekkja menn og sömuleiðis fyrirhugaða meðferð á St. Jósefsspítala. Á þessu hausti voru það stofnanir sem annast áfengismeðferð og vímuefnameðferð ýmiss konar sem urðu fyrir barðinu á hæstv. heilbrrh. og svo aumingja Kristnesspítali. Hæstv. ráðherra hóf ásamt ráðuneyti sínu rógsherferð í fjölmiðlum gegn stofnuninni og síðan kom í ljós að hún var hugsuð til að undirbyggja harkalegan niðurskurð á fjárveitingum til stofnunarinnar.
    Það liggur fyrir að engin fagleg rök standa til þess að draga úr endurhæfingu eða hjúkrunarrými á Kristnesspítala. Engin. Hér er á ferðinni eina endurhæfingaraðstaðan utan höfuðborgarsvæðisins og þyrftu rúmin eða aðstaðan að vera þrefalt stærri ef vel ætti að vera fyrir þeim málum séð á upptökusvæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Sömuleiðis ef lokað yrði þeim hjúkrunarrýmum sem á Kristnesspítala eru yrði ástand þeirra mála verra á Norðurlandi en það er í Reykjavík og er hér talað um neyðarástand. Ef taka á mark á þeim fjárveitingum sem hér eru á ferðinni til reksturs á Kristnesspítala, verður því ekki annað séð en það sé vilji hæstv. heilbrrh. og hæstv. ríkisstjórnar að skapa neyðarástand í þessum efnum norðan lands.
    Sú tillaga sem hér er flutt mundi a.m.k. tryggja að Ríkisspítalar gætu fyrstu mánuði næsta árs rekið starfsemina á Kristnesi með eðlilegum hætti og þannig skapaðist tóm til að koma þeim málum á varanlegan grundvöll til frambúðar hvort sem það gerist með samningum við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri eða með einhverjum öðrum hætti. Það að neyða menn til samninga undir þeim þvingunarformerkjum sem hæstv. heilbrrh. hugsar sér eru ekki ásættanleg vinnubrögð af hálfu yfirvalda. Ég mótmæli því að yfirvald heilbrigðismála í landinu skuli misbeita svona aðstöðu sinni gagnvart einni stofnun. Ég hlýt að mótmæla mjög harðlega allri framgöngu hæstv. heilbrrh. í þessum efnum og þessu máli sérstaklega sem er eitt af því versta í hans embættistíð og er þá mikið sagt eins og kunnugt er. Ég segi já við þessari tillögu, hæstv. forseti.