Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 17:23:47 (4029)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér er verið að skipta fjárveitingum til vetrarsamgangna og mér sýnist að hér hafi orðið verulegar breytingar á frá því sem verið hefur og lækkaðir mjög verulega styrkir í þessu sambandi. Ég hef kynnt mér greinargerð samgn. Alþingis vegna skiptingar á fé til vetrarsamgangna og þar kemur fram að nefndin hyggst beita sér fyrir nýjum málstökum varðandi þennan fjárlagalið og hafi ákveðið að skrifa öllum forsvarsmönnum sveitarfélaga sem styrks njóta eða hafa notið og gera grein fyrir þeim vinnureglum sem ætlunin er að styðjast við í framtíðinni. Þær byggjast á því að þessi úthlutun sé ekki endanleg. Mér hefur skilist að nefndin ætli að hlutast til um að síðan komi til skiptingar á óráðstöfuðu, væntanlega undir 54. tölul. sem er hærri heldur en tíðkast hefur. En þrátt fyrir þetta finnst mér ekki vel að verki verið. Vitneskju um þetta hafði ég sem þingmaður fyrst fyrir fáeinum dögum síðan, að þessi breyting væri hér upp tekin, hafði unnið að hliðstæðum málum á fyrri þingum og átt hlut að því að mál væru skýrð gagnvart aðilum í meðferð samgn., sameinaðra funda samgn. beggja deilda á sínum tíma, þannig að þá voru málin gerð upp í flestum tilvikum þó fáein atriði stæðu eftir óráðstöfuð. Ég hefði talið að til þessarar umþóttunar hefði þurft rýmri tíma og meiri fyrirvara heldur en hér er gert ráð fyrir.
    Ég hef auðvitað ekkert við það að athuga að hér sé reynt að standa sem best að meðferð opinbers fjár en ég minni líka á að ekki eru það eingöngu sveitarfélög sem í hlut eiga heldur einnig einkaaðilar sem standa fyrir rekstri og sjá um vetrarsamgöngur og að þeim er ekki vikið í þessu nefndaráliti.
    Ég vil ekki bera ábyrgð á þeirri úthlutun sem hér liggur fyrir, en treysti því þó jafnframt að samgn. taki á þessum málum og tryggi að það geti komið til sanngjarnrar úthlutunar fjár til aðila og ekki eingöngu sveitarfélaga sem í hlut eiga heldur einnig þeirra aðila annarra sem í hlut eiga og standa að vetrarsamgöngum.