Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 17:30:42 (4033)

     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég er vissulega einn í þeirra hópi sem verð fyrir vonbrigðum þegar ég sé niðurstöðu þessarar úthlutunar. Ég sé ekki rök fyrir ýmsum þeim ákvörðunum sem þar eru teknar og liggja þó öll málsskjöl í þeim tilvikum fyrir. Ég óttast að hér hafi verið nokkuð flausturslega gengið fram til verka. Það urðu mistök við sams konar úthlutun fyrir einu ári síðan sem reyndar voru leiðrétt síðar og komu til skila. Ég gerði sérstakar ráðstafanir til þess að svo yrði ekki að þessu sinni en samt varð niðurstaðan sú hin sama.
    Ég áskil mér rétt til þess að fara gaumgæfilega yfir þetta mál og í trausti þess að það verði gerð leiðrétting á eftir áramótin með tilliti til 2. umr. um þetta mál þótt utan þings verði, þá styð ég þessa afgreiðslu að þessu sinni.